Fréttir & tilkynningar

Snjóflóðavarnargarðar á Siglufirði og Seyðisfirði

Ríkiskaup hefur auglýst útboð á byggingu snjóflóðavarnargarða á Siglufirði og Seyðisfirði fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins og Seyðisfjarðarkaupstaðar og Siglufjarðarbæjar. Tilboðum skal skilað vegna Siglufjarðar 8. apríl en Seyðisfjarðar 10. apríl. Á Siglufirði verða byggðir fimm þvergarðar og einn leiðigarður en þvergarðarnir verða samtals um 1.700 metra langir.Á Siglufirði er gert ráð fyrir að byggt verði í þremur áföngum. Fyrst verða nyrstu garðarnir reistir og skal þeim lokið sumarið 2004. Þá hefjast framkvæmdir við upptakastoðvirki í Gróuskarðshnjúk sem reyndar eru ekki hluti af útboðsverkinu en loks verður miðgarðurinn reistur fyrir lok sumars 2005 en bygging þess syðsta á að vera lokið haustið 2006. Útboðsgögn vegna þessara verka verða til sýnis og sölu á skrifstofu Ríkiskaupa frá og með morgundeginum, 18. mars, en tilboðum skal skilað vegna Siglufjarðar 8. apríl en Seyðisfjarðar 10. apríl. Frétt af Local.is
Lesa meira

Bikarkeppni á skíðum fór fram á Siglufirði um helgina.

Um helgina fór fram bikarmót í alpagreinum í aldursflokki 13-14 ára í Skarðsdal. Um 90 keppendur voru mættir til leiks frá flestum skíðafélögum landsins. Mótið heppnaðist í alla staði ákaflega vel og ekki var veðurblíðan til að spilla fyrir, höfðu menn á orði að sannkölluð Skarðsmótsstemming hefði ríkt í Skarðinu um helgina. Á laugardeginum var keppt í svigi stúlkna og stórsvigi pilta. Ótvíræður sigurvegari laugardagsins var án efa Salome Rut Kjartansdóttir sem sigraði svigið með miklum yfirburðum. Á sunnudeginum var keppt í svigi pilta og stórsvigi stúlkna. Í sviginu varð Stefán Geir Andrésson í öðru sæti. Gestir mótsins voru sérstaklega ánægðir með skíðaaðstöðuna í Skarðsdal og áttu varla orð til að lýsa hrifningu sinna á nýju skíðalyftunni. Úrslit mótsins má nálgast á heimasíðu Skíðafélagsins www.simnet.is/skisigl
Lesa meira

Útboðsgögn vegna jarðganga afhent í gær!

Útboðsgögn vegna gerðar jarðganga á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í gegnum Héðinsfjörð voru send verktakahópum í gær.Verktakarnir sem áður höfðu verið valdir í forvali eru Ístak/Phil og son, Balfour Beatty, Íslenskir Aðalverktakar/NCC og Arnarfell/Scandinavian Rock Group. Gert er ráð fyrir því að tilboðin verði opnuð 30. maí og fljótlega eftir það ætti að liggja fyrir hverjir koma til með að sjá um framkvæmdir.Miðað er við að gangnagröftur hefjist haustið 2004 og framkvæmdir taki um 4 ár.Í tilefni þessa áfanga hefur Samgangur boðað til fagnaðar í Skútudal n.k. sunnudag þar sem gangnamunninn kemur til með að vera í framtíðinni og eru Siglfirðingar og aðrir að sjálfsögðu hvattir til þess að mæta.
Lesa meira

Siglufjarðarkaupstaður sækir um að taka þátt í verkefni um "Rafrænt samfélag".

Þrettán sveitarfélög og samtök sendu inn umsókn vegna verkefnisins rafrænt samfélag sem Byggðastofnun stendur að. Úr umsóknum verða valin fjögur til átta byggðarlög sem fá styrk allt að tveimur milljónum króna til að fullgera tillögur sínar úr forvali. Af þeim verða valin tvö til fjögur byggðarlög til þátttöku í þróunarverkefnum á árunum 2003 til 2006 og til þess fá byggðalögin styrki frá ríkinu gegn jafn háu eigin framlagi. Töluvert fleiri umsóknir bárust en von var á en það er Ríkiskaup sem annast framkvæmd forvalsins. Þeir sem sóttu um eru:Sveitarfélagið HornafjörðurAkraneskaupstaðurDalabyggðGrundarfjarðarbærAðaldælahreppur, Húsavíkurbær og ÞingeyjasveitDalvíkurbyggð, Hríseyjarhreppur, Ólafsfjarðarbær og SiglufjarðarkaupstaðurSamtök sveitafélaga á norðurlandi vestraSveitarfélagið SkagafjörðurÖxafjarðarhreppur og KelduneshreppurÖxafjarðarhreppur og KelduneshreppurSnæfellsnesbær Sveitafélagið Árborg, Sveitafélagið Hveragerði og Sveitafélagið Ölfus VestmannaeyjabærSiglufjarðarkaupstaður sækir um með Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra jafnframt því sem sótt er um með sveitarfélögum við Eyjafjörð.Meginhugmynd verkefnisins er að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum aðgerðum á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni. Aðgerðirnar skulu hafa það að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúa, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagsaðstöðu og efla lýðræði.Frétt á local.is
Lesa meira

Útboð á framkvæmdum við Gránugötu og Tjarnargötu auglýst.

Vegagerðin, Norðurlandsumdæmi vestra, hefur óskað eftir tilboðum í framkvæmdir við Gránugötu og Tjarnargötu í sumar. Framkvæmdin felst í endurnýjun þessara gatna auk þess sem steyptar verða gangstéttir og fráveita endurnýjuð. Með þessari framkvæmd heyra tvö stór vandamál í gatnamálum og fráveitu hér á Siglufirði vonandi sögunni til. Annars vegar hefur Gránugatan verið mikið í umræðunni undanfarin ár vegna mjög lélegs ástands og horfir það nú til betri vegar. Ekki síður mikilvægt er að áætlað er að fráveita verði lögð undir Gránugötu og út í sjó við endann á eyrinni í stað þess að fara í smábátahöfn og hefur það að sjálfsögðu mjög jákvæð áhrif á umhverfið allt við smábátahöfnina og leysir hvimleitt vandamál hér til margra ára.Samkvæmt útboði skal framkvæmdum verða lokið þann 15. október n.k. en útboð verða opnuð 17. mars.Útboðsgögn eru seld hjá Vegagerðinni á Sauðárkróki og í Borgartúni 7, Reykjavík (móttaka) og er verð þeirra er 4.000 kr.Skila skal tilboðum á sömu stöðum fyrir kl. 14:00 mánudaginn 17. mars 2003.
Lesa meira

Stutt í að útboðsgögn vegna Siglufjarðarganga verði send út

Samkvæmt heimildum local.is mun Vegagerðin senda útboðsgögn í þessari, eða næstu viku, til fimm aðila sem valdir voru í forvali til að taka þátt í útboði vegna Siglufjarðaganga. Þessir fimm aðilar eru þeir sömu og valdir voru til að bjóða í Fáskrúsðfjarðargöng nema hvað Kraftverki ehf., Eykt ehf. og Héraðsverki ehf. var gefinn kostur á að finna nýjan samstarfsaðila en Veidekke AS hætti við þátttöku í Fáskrúðsfjarðagöngum.Nokkur dráttur hefur orðið á að útboðsgögn, vegna Siglufjarðarganga, bærust til vektakanna og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er það vegna þess að gögnin eru flókin og mikil vinna að fara yfir þau. Að undanförnu hafa starfsmenn Vegagerðarinnar verið að fara gaumgæfilega yfir útboðsgögnin og lagfæra áður en þau verða send út.Þeir verktakar sem fá munu útboðsgögn, auk fyrrgreindra, eru:Ístak hf. og E. Pihl og Sön AS.NCC AS og íslenskir aðalverktakar hf..Balfour Beatty Major Projects.Scandinavian Rock Group AS og Arnarfell ehf.. Ekki er komin nákvæm dagsetning á hvenær tilboðin verða opnuð en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður það líklega um miðjan maí. Frétt á local.is
Lesa meira

Sparisjóður Mýrasýslu kaupir Sparisjóð Siglufjarðar

Aðalfundur Sparisjóðs Siglufjarðar var haldinn 25. febrúar s.l. og þar var samþykkt að taka tilboði Sparisjóðs Mýrasýslu í Borgarnesi um kaup á öllu stofnfé Sparisjóðs Siglufjarðar. Fyrir átti Sparisjóður Mýrasýslu um 40% stofnfjár í Sparisjóði Siglufjarðar en Sparisjóður Mýrasýslu greiðir stofnfjáreigendum um 50 milljónir króna fyrir þau 60% sem eftir stóðu.Kaupin voru samþykkt með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitisins og er búist við að málið verði afgreitt á næstu dögum.Sparisjóður Siglufjarðar var stofnaður 1873 og fagnar því 130 ára afmæli sínu um þessar mundir. Hjá sjóðnum starfa 23 en þar af starfa 15 manns við skráningu iðgjalda, og tengd verkefni, fyrir lífeyrissjóði og er stærsti viðskiptavinurinn Kaupþing.Að sögn Ólafs Jónssonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Siglufjarðar, hefur reksturinn ekki gengið sem skyldi að undanförnu og í fyrra var 105,8 milljóna króna tap á resktrinum. „Tapið er tilkomið vegna mikilla afskrifta en almennur rekstur hefur gengið mjög vel. Með sameiningu við Sparisjóð Mýrasýslu er verið að styrkja starfsemi Sparisjóðs Siglufjarðar þar sem sterkur bakhjarl kemur að rekstrinum,“ sagði Ólafur í samtali við local.is.Upphaflega voru 58 stofnfjáreigendur í Sparisjóði Siglufjarðar og var Sparisjóður Mýrasýslu þar á meðal með stóran hlut en heimamenn á Siglufirði eiga innan við 20% stofnfjár.Að sögn Ólafs verður engin breyting á starfsmannahaldi hjá Sparisjóði Siglufjarðar og verður sparisjóðurinn rekinn í óbreyttri mynd. Frétt af www.local.is
Lesa meira

Skelfiskbáturinn Fossá á veiðum í Siglufirði

Skelfiskbáturinn Fossá frá Þórshöfn var á veiðum í Siglufirði um helgina og tókust þessar "tilraunaveiðar" vel að sögn skipverja. Ríflega 100 tonn af skel veiddust í tveimur veiðiferðum og er það fullfermi. Á meðfylgjandi mynd má sjá Fossá á veiðum sl. laugardag en mikið fuglalíf er nú á þeim stað sem togveiðar skipsins fóru fram.
Lesa meira

Fjárveitingar og framkvæmdir við Siglufjarðarhöfn 2003

Á fundi Hafnarstjórnar Siglufjarðar þann 11. febrúar s.l. voru kynntar fjárveitingar Siglingastofnunar til nýframkvæmda við Siglufjarðarhöfn á árinu 2003.Veittar eru 20,5 millj. króna til framkvæmda sem skiptast þannig að 8,3 millj. króna fara í 40 m viðlegubryggju við vesturkant í smábátahöfninni, 1,2 millj. króna í dýpkun í smábátahöfninni, 9,8 millj. króna í Roaldsbryggju við Síldarminjasafn auk 1,2 millj. króna sem fara í uppgjör vegna eldri verkefna. Heildarframkvæmdakostnaður er áætlaður 31,8 millj. króna og hlutur Hafnarsjóðs Siglufjarðar 11,3 millj. króna. Hafnarstjórn Siglufjarðar hefur farið yfir gögnin og samþykkt áætlun um framkvæmdir.
Lesa meira

Samningur Siglufjarðarkaupstaðar og INVEST um atvinnuráðgjafa.

Gert er ráð fyrir að samningur á milli Siglufjarðarkaupstaðar og INVEST, Iðnþróunarfélags Norðurlands vestra, um ráðningu atvinnuráðgjafa til Siglufjarðar verði undirritaður á næstu dögum.Verkefni ráðgjafans felast í allri almennri atvinnuráðgjöf og aðstoð við fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir auk þess sem hann mun vinna að atvinnuþróunarverkefnum fyrir Siglufjörð og á svæði INVEST. Um er að ræða fjölbreytt og spennandi starf sem gefur ómetanlega innsýn í atvinnumál landsbyggðarinnar.Starfmaður verður ráðinn af INVEST og er þegar búið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar. Gerð er krafa um að umsækjendur hafi menntun eða reynslu af viðskiptum og rekstri, hafi innsæi og áhuga á atvinnulífi á landsbyggðinni og hafi frumkvæði í starfi. Umsóknarfrestur er til og með 24. febrúar n.k. en frekari upplýsingar veitir Baldur Valgeirsson framkvæmdastjóri hjá INVEST. (balval@inv.is)Umsóknir um starfið óskast sendar til Iðnþróunarfélags Norðurlands vestra, Þverbraut 1, 540 Blönduósi, merktar "Atvinnuráðgjafi - Siglufirði".
Lesa meira