Fréttir & tilkynningar

Bæjarráð Siglufjarðar hefur samþykkt að boða til opins borgarafundar

Bæjarráð Siglufjarðar hefur samþykkt að boða til opins borgarafundar um þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að fresta framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng og þær afleiðingar sem sú ákvörðun hefur fyrir íbúana og byggðina. Til fundarins verður boðið öllum þingmönnum kjördæmisins.Ekki liggur fyrir hvenær fundurinn verður haldinn en verið er að vinna að undirbúningi.
Lesa meira

Verkalýðsfélagið Vaka ályktar vegna Héðinsfjarðarganga

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirðisem haldinn var fimmtudaginn 3. júlí kl. 18:00 á skrifstofu félagsins að Suðurgötu 10 á Siglufirði:Stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku fordæmir þau vinnubrögð stjórnvalda að slá framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng á frest, eftir að hafa marglofað í kosningabaráttunni á liðnum vetri, Siglfirðingum og öðrum íbúum á utanverðum Tröllaskaga að staðið yrði við fullyrðingar um samgöngubætur með Héðinsfjarðargöngum.Jafnvel mestu efasemdarmenn voru farnir að trúa því að af framkvæmdum yrði og létu þar með draga sig á asnaeyrunum, enda vart hægt að láta sér detta í hug að til væru stjórnvöld sem væru svo ómerkileg að ganga um héruð og ljúga framan í opið ginið á kjósendum um jafn mikilvægt málefni og þetta. Einnig hafa þessi sömu stjórnvöld dregið á tálar, fjölmarga verktaka og alla þá aðila sem komið hafa að undirbúningi málsins og bundið við það miklar væntingar.Það hefur ekkert breyst hvað varðar útlit fyrir þenslu í hagkerfinu, frá því að ákvörðun um virkjun og álver á Austurlandi var tekin og því er það ómerkilegur fyrirsláttur að ætla að afsaka þessa ákvörðun með ofþenslu. Orð samgönguráðherra á þá leið að bregðast þurfi við breytingum í hagkerfinu frá mánuði til mánaðar eru hreint og beint sorgleg, en lýsa stefnuleysi stjórnvalds, sem grípur bara næsta hálmstrá til að réttlæta vondar og lúalegar ákvarðanir. Stjórn Vöku telur að ráðherrar samgöngu, byggða og fjármála séu ekki störfum sínum vaxnir, ef þeir telja réttlætanlegt að koma svona fram við kjósendur.Íbúar við utanverðan Eyjafjörð hafa bundið miklar vonir við bætt búsetuskilyrði, með betri samgöngum og aukinni samvinnu, sem Héðinsfjarðargöng eru forsenda fyrir. Siglfirðingar hafa talið að með því að verið er að verja milljörðum króna til að verja byggðina fyrir snjóflóðum með byggingu varnargarða, hlytu stjórnvöld að vera að senda þau skilaboð að þau teldu byggð í Siglufirði skipta máli.Þeir stjórnmálamenn sem nú hafa orðið berir að ósannindum, geta ekki ætlast til þess að við trúum því að Héðinsfjarðargöng verði boðin út árið 2006 og að í raun sé ekki verið að slá þessa framkvæmd af.Heiðarleg stjórnvöld sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og kjósendum sínum haga sér ekki með þessum hætti. Heiðarleg stjórnvöld setja fram stefnu í atvinnu- efnahags- og byggðamálum sem þolir sveiflur frá einum mánuði til annars og þolir dagsbirtu, bæði fyrir og eftir kosningar.
Lesa meira

Nýtt umræðusvæði opnað á heimasíðu Siglufjarðarkaupstaðar.

Nýtt umræðusvæði hefur verið opnað á heimasíðu Siglufjarðarkaupstaðar. Svæðið er með nokkru öðru sniði en áður og nú þurfa notendur að skrá sig inn með nafni, kennitölu og póstfangi. Skráningin er mjög einföld og ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Þegar viðkomandi skráir sig inn koma fram reglur um notkun og þarf að staðfesta þær til þess að notendanafn verði virkt.Þess má geta að viðkomandi notandi þarf ekki að nota eigið nafn á umræðusvæðinu, þ.e. hann getur notast við notendanafn, en hins vegar gerir skráning það að verkum að ávallt er vitað hvaða einstaklingur er að skrifa i hvert skipti.Reglur umræðusvæðisins eru eftirfarandi:Á umræðusvæðinu er gerð sú krafa að menn hagi sér samkvæmt góðum siðum og öllu efni sem þykir brjóta í bága við það verður umsvifalaust hent út. Skítkast, rógburður, illgirni og dónaskapur gagnvart einstaklingum verður ekki liðinn. Óheimilt er að senda efni sem brýtur gegn lögum og almennu velsæmi, er ærumeiðandi, ósæmandi á einhvern hátt eða hefur að geyma óstaðfestar ásakanir eða dylgjur í garð einstaklinga eða lögaðila.Ef upp koma mál sem þykja tilefni til kæru, fara þau beint til lögreglu og munu þeir sjá um að þau mál fara rétta leið í kerfinu.Vonast er til að nýtt fyrirkomulag mælist vel fyrir og verði notað til umræðu þau málefni sem fólk telur skipta máli.
Lesa meira

Síldarminjasafnið keppir um evrópsk verðlaun

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur verið metið til samkeppni um verðlaunin "European Museum of the Year Award 2004." Þetta kemur fram í frétt frá safnaráði. Í fréttinni frá safnaráði segir: "Í gær, 3. júlí, kom hingað til lands Dr. Wim van der Weiden, safnstjóri hjá Naturalis, náttúruminjasafni Hollands í Leiden þar í landi og formaður European Museum Forum. EMF stendur árlega fyrir samkeppninni European Museum of the Year Award en safnaráð tilnefndi á dögunum Síldarminjasafnið á Siglufirði til samkeppninnar árið 2004. Mun Dr. Van der Weiden heimsækja Síldarminjasafnið dagana 4. og 5. júlí í því skyni að meta safnið til samkeppninnar. Þátttaka safns í EMYA er bundin þeim skilyrðum að annað hvort sé um að ræða safn sem nýlokið hefur við umfangsmikla uppbyggingu, endurbætur eða viðbætur, eða að um sé að ræða nýtt safn, sem stofnsett hefur verið á sl. tveimur árum. Síldarminjasafnið hlaut tilnefningu sína fyrir þá umfangsmiklu uppbyggingu og viðbætur sem eru í gangi hjá safninu, en nýlokið er einum hluta þessa, uppsetningu bræðsluminjasafns í Gránu."Frétt af visir.is
Lesa meira

Eining-Iðja mótmælir frestun jarðganga

Stjórn verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri hefur harðlega mótmælt ákvörðun stjórnvalda að fresta gerð Héðinsfjarðarganga til ársins 2006. Stjórnin telur að þessi ákvörðun muni hafa verulega slæm áhrif á þau byggðarlög sem ákvörðunin bitnar mest á. Í samþykkt sem gerð var á stjórnarfundi í dag segir: "Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir standi við orð sín og byggi upp traust kjósenda sinna, en valti ekki yfir þá eins og gert er í þessu máli, en því miður verður æ algengara að ekkert er að marka málflutning stjórnmálamanna. Engar breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu, sem ekki voru auðséðar fyrir kosningar." Þá segir ennfremur í samþykktinni: "Stjórnin vonar að þessi ákvörðun sé ekki forsmekkurinn að efndum stjórnarflokkana í byggðamálum."Frétt af visir.is
Lesa meira

Bæjarráð Siglufjarðar ályktar vegna frestunar framkvæmda við Héðinsfjarðargöng.

Bæjarráð Siglufjarðar samþykkti á fundi sínum í hádeginu í dag eftirfarandi ályktun vegna ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands á frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. “Bæjarráð Siglufjarðar lýsir yfir undrun og vonbrigðum yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng sem er reiðarslag fyrir íbúa Siglufjarðar og Eyjafjarðarsvæðisins alls. Þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert á yfirlýsta stefnu hennar í byggðamálum, ekki síst í ljósi yfirlýsinga einstakra ráðherra og þingmanna undanfarnar vikur og mánuði. Héðinsfjarðargöngin hafa verið lengi í undirbúningi og ákvörðun um gerð þeirra tekin á grundvelli rannsókna um arðbærni og mikilvægi fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt. Rannsóknir sýna að jarðgöngin eru arðbær samgöngubót og mikilvæg forsenda eins megin markmiðs byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að styrkja byggð á mið-Norðurlandi sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Markmiðið með gerð Héðinsfjarðarganga er að stækka og efla eitt mikilvægasta atvinnu- og vaxtasvæði á landsbyggðinni þannig að það verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu. Það hafa verið bundnar miklar væntingar við þessar framkvæmdir og vonbrigðin eru því gífurleg. Héðinsfjarðargöng eru forsenda fyrir auknu samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í auknu samstarfi á grundvelli þessara samgöngubóta og viðræður átt sér stað um enn frekara samstarf og sameiningu á svæðinu en með ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú hefur sú vinna verið sett í uppnám. Ekki er hægt að fallast á rök ríkisstjórnarinnar þess efnis að framkvæmdum verði að fresta vegna þenslu. Íbúar Eyjafjarðarsvæðisins hafa ekki orðið varir við umrædda þenslu og það er ekkert sem bendir til að efnahagslegt umhverfi þjóðarbúskapsins hafi breyst svo á tveimur mánuðum að það gefi tilefni til endurskoðunar og frestunar á þessum mikilvægu samgöngubótum. Slík endurskoðun hefði þá fremur átt að leiða til flýtingar verks en seinkunar. Bæjarráð Siglufjarðar fer fram á viðræður við forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, nú þegar og gerir jafnframt þær kröfur til þingmanna kjördæmisins að þeir vinni með sveitarstjórnarmönnum og íbúum Eyjafjarðarsvæðisins að því að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína.”Bæjarráð Ólafsfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun:"Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng, sem tilkynnt var í gær er gríðarlegt áfall fyrir alla íbúa við Eyjafjörð. Þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert á yfirlýsta stefnu hennar í byggðamálum og kemur bæjarráði Ólafsfjarðar í opna skjöldu, sér í lagi í ljósi yfirlýsinga einstaka ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna allt síðastliðið ár, að ekki sé talað um undanfarnar vikur og mánuði. Héðinsfjarðargöng hafa verið lengi í undirbúningi og var ákvörðun um gerð þeirra tekin á grundvelli rannsókna um arðbærni og mikilvægis þeirra fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt. Allar rannsóknir sýna að jarðgöngin eru arðbær samgöngubót og ein meginforsenda þess að það markmið byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, að styrkja Mið-norðurland sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið náist. Markmiðið með gerð Héðinsfjarðarganga er að stækka og efla mikilvægasta atvinnu- og vaxtarsvæði á landsbyggðinni þannig að það verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu. Miklar væntingar eru bundnar við þessa framkvæmd og vonbrigðin því gífurleg. Héðinsfjarðargöng eru mikilvæg forsenda fyrir auknu samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Sveitarstjórnarmenn í Eyjafirði hafa þegar tekið fyrstu skrefin í auknu samstarfi á grundvelli þessara samgöngubóta og hafa uppi áætlanir um enn frekara samstarf og sameiningu en með ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur sú vinna verið sett í uppnám. Það var nógu erfitt fyrir íbúa Ólafsfjarðar að sætt a sig við fyrstu frestunina en þeir teystu stjórnvöldum og löguðu sig að breyttum aðstæðum. Af hverju skyldu þeir gera það aftur? Bæjarráð Ólafsfjarðar fellst ekki á þau rök ríkisstjórnarinnar að framkvæmdum verði að fresta nú vegna þenslu. Íbúar svæðisins hafa ekki orðið varir við umrædda þenslu og ekkert bendir til þess að efnahagslegt umhverfi í þjóðarbúskapnum hafi breyst svo á tveimur mánuðum að það gefi nú skyndilega tilefni til endurskoðunar og frestunar á þessari mikilvægu samgöngubót. Slík endurskoðun hefði þá fremur átt að leiða til flýtingar verksins en seinkunar. Bæjarráð Ólafsfjarðar treystir því Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin láti ekki íbúa hér á Tröllaskaganum bera herkostnaðinn af framkvæmdum annars staðar á landinu. Bæjarráð Ólafsfjarðar fer fram á viðræður við forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætis- og utanríkisráðherra, nú þegar og gerir jafnframt þær kröfur til þingmanna kjördæmisins að þeir vinni með sveitarstjórnarmönnum og íbúum Eyjafjarðar að því að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína."
Lesa meira

Héðinsfjarðargöngum frestað!

Samgönguráðherra, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, hefur ákveðið að öllum tilboðum í gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð verði hafnað. Ástæður þessa eru þær að ekki þykir ráðlegt að fara í þessar framkvæmdir í því þensluástandi sem nú er í uppsiglingu í þjóðfélaginu, miðað við þær miklu framkvæmdir sem nú eru hafnar og framundan eru á austurlandi, að því er fram kemur í frétt frá samgöngumálaráðuneytinu.Frétt af mbl.is
Lesa meira

Þjóðlagahátíð 2003 hefst á morgun, 2. júlí.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði verður haldin í fjórða sinn sumarið 2003 frá 2.-6. júlí. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á söngdansa eða vikivaka sem nutu mikilla vinsælda á Íslandi. Hátíðin ber þess einnig merki að öld er liðin frá því Norðmenn lönduðu fyrstu síldinni á Siglufirði. Harðangursfiðluhljómsveit frá Bærum í Noregi mun setja sterkan svip á hátíðina auk fjölda annarra listamanna, innlendra og erlendra. Sænsk-íslenski flokkurinn Draupnir setur hátíðina með flutningi vikivaka í Siglufjarðarkirkju miðvikudaginn 2. júlí kl.20.00. Námskeið standa yfir 3.-5. júlí. Laugardagskvöldið 5. júlí verður uppskeruhátíð og sunnudaginn 6. júlí verða hátíðartónleikar í Siglufjarðarkirkju.Boðið verður upp á námskeið í búlgörskum þjóðlögum undir stjórn hins heimsfræga Chris Speed, rímum, dönskum þjóðdönsum og raddspuna. Þá verða námskeið í silfursmíði, refilsaumi, ullarþæfingu og sögu og umhverfi SiglufjarðarHátíðin er haldin með tilstyrk Siglufjarðarkaupstaðar, Menningarborgarsjóðs, Menntamálaráðuneytis og Menningarsjóðs KEA.
Lesa meira