Alþýðuhúsið valið á Eyrarrósarlistann 2017

Alþýðuhúsið á Siglufirði
Alþýðuhúsið á Siglufirði

Sex ólík menn­ing­ar­verk­efni á lands­byggðinni hafa verið val­in á Eyr­ar­rós­arlist­ann 2017 og eiga þar með mögu­leika á að hljóta Eyr­ar­rós­ina í ár og er Alþýðuhúsið á Sigluf­irði undir stjórn Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur eitt af þeim. Alls bár­ust 37 um­sókn­ir um Eyr­ar­rós­ina, hvaðanæva af land­inu.

Eyr­ar­rós­in er viður­kenn­ing sem veitt er framúrsk­ar­andi menn­ing­ar­verk­efni utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Hún bein­ir sjón­um að og hvet­ur til menn­ing­ar­legr­ar fjöl­breytni, ný­sköp­un­ar og upp­bygg­ing­ar á sviði menn­ing­ar og lista. Að verðlaun­un­um standa Byggðastofn­un, Flug­fé­lag Íslands og Lista­hátíð í Reykja­vík. For­setafrú­in El­iza Reid, nýr vernd­ari Eyr­ar­rós­ar­inn­ar, mun af­henda verðlaun­in 16. fe­brú­ar næst­kom­andi við at­höfn í Verk­smiðjunni á Hjalteyri, sem er hand­hafi Eyr­ar­rós­ar­inn­ar frá síðasta ári.

Eftirtalin verkefni koma til greina:

Alþýðuhús­ið á Sigluf­irði
Í Alþýðuhús­inu á Sigluf­irði er rekið metnaðarfullt menn­ing­ar­starf all­an árs­ins hring, með áherslu á mynd­list, und­ir stjórn Aðal­heiðar S. Ey­steins­dótt­ur. Þar eru einnig með jöfnu milli­bili haldn­ir tón­leik­ar, fyr­ir­lestr­ar og menn­ing­ar­viðburðir af ýms­um toga. Reglu­lega er lista­mönn­um boðið að dvelja þar í skemmri tíma við eig­in vinnu. Fast­ir viðburðir á dag­skrá Alþýðuhúss­ins eru til dæm­is menn­ing­ar­dag­ur barna, gjörn­inga­hátíð, sunnu­dagskaffi með skap­andi fólki, Reit­ir og fleira. Í ár fagn­ar Alþýðuhúsið fimm ára af­mæli og held­ur upp á það með veg­legri af­mæl­is­dag­skrá næsta sum­ar.

Eistna­flug, Nes­kaupstað
Eistna­flug er rót­gró­in tón­list­ar­hátíð sem hald­in er í Nes­kaupstað aðra helg­ina í júlí ár hvert. Eistna­flug er eina tón­lista­hátíðin hér á landi þar sem höfuðáhersla er lögð á þung­arokk og aðrar jaðar­tón­list­ar­stefn­ur. Marg­ar af þekkt­ustu þung­arokks­sveit­um heims hafa komið fram á hátíðinni en hátíðin styður líka við bakið á ung­um og upp­renn­andi hljóm­sveit­um og hef­ur rutt veg­inn fyr­ir ís­lensk­ar sveit­ir á er­lend­um út­gáfu- og tón­leika­markaði. Skipu­leggj­end­ur eru stolt­ir af góðu orðspori Eistna­flugs sem „rokk­hátíðar sem fer fram í bróðerni og sam­stöðu“. Um 50 rokksveit­ir munu koma fram á Eistna­flugi 2017.

List í ljósi, Seyðis­firði

List í ljósi er í vet­ur hald­in á Seyðis­firði í annað sinn, en henni er ætlað að verða að ár­leg­um viðburði. Rík áhersla er lögð á sam­fé­lags­leg áhrif hátíðar­inn­ar sem fer fram ut­an­dyra. Geta all­ir, ung­ir sem aldn­ir, tekið þátt í hátíðinni með ein­um eða öðrum hætti. Á meðan á hátíðinni stend­ur er Seyðis­fjarðar­kaupstað umbreytt með ljósa­dýrð og spenn­andi lista­verk­um. Áhorf­end­ur, sem um leið eru þátt­tak­end­ur, upp­lifa á magnaðan hátt ýmis lista­verk, allt frá inn­setn­ing­um og víd­eó­verk­um til stærri ljósa­skúlp­túra. Inn­lend­ir og er­lend­ir lista­menn taka þátt í hátíðinni sem bók­staf­lega lýs­ir upp Seyðis­fjörð. Mark­mið hátíðar­inn­ar er að styðja við menn­ing­ar­líf Aust­ur­lands á lágönn og fagna komu sól­ar eft­ir þrjá langa og sól­ar­lausa mánuði.

Rúllandi snjó­bolti, Djúpa­vogi
Í gömlu Bræðslunni á Djúpa­vogi hef­ur alþjóðlega sam­tíma­lista­sýn­ing­in Rúllandi snjó­bolti verið hald­in ár­lega frá ár­inu 2014 og styrk­ir stöðu sína með hverju ári. Um er að ræða eft­ir­tekt­ar­vert og afar metnaðarfullt sam­starfs­verk­efni Djúpa­vogs­hrepps og CEAC (Chinese Europe­an Art Center). Á sýn­ing­unni síðastliðið sum­ar áttu 32 ís­lensk­ir og er­lend­ir lista­menn verk á sýn­ing­unni og þannig er um að ræða eina stærstu sam­tíma­lista­sýn­ingu árs­ins hér­lend­is. Aðgang­ur á sýn­ing­una var ókeyp­is og nutu bæði Aust­f­irðing­ar og ferðamenn góðs af.

Nes, Skaga­strönd

Nes – listamiðstöð á Skaga­strönd var stofnuð árið 2008 og hef­ur verið rek­in þar all­ar göt­ur síðan. Fjöl­marg­ir lista­menn hafa dvalið á Skaga­strönd frá opn­un listamiðstöðvar­inn­ar en þar er rými fyr­ir allt að 12 til­15 lista­menn í einu. Flest­ir kjósa að dvelja þar einn til tvo mánuði í senn.
Mánaðarleg­ir viðburðir eru í listamiðstöðinni með virkri þátt­töku heima­manna. Listamiðstöðin Nes hef­ur haft áhrif á nærsam­fé­lag sitt og gefið íbú­um á öll­um aldri og gest­um tæki­færi til að kynn­ast fjöl­breyttri list­sköp­un, bæði sem áhorf­end­ur og sem virk­ir þátt­tak­end­ur.

Vest­urfara­setrið, Hofsósi

Vest­urfara­setrið hef­ur verið starf­rækt frá 1996 og er meg­in­til­gang­ur set­urs­ins að viðhalda og efla tengsl fólks af ís­lensk­um ætt­um sem bú­sett er í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um og vill leita upp­runa síns á Íslandi. Jafn­framt aðstoðar Vest­urfara­setrið Íslend­inga í leit sinni að ætt­ingj­um í Vest­ur­heimi. Mark­mið Vest­urfara­set­urs­ins er að efla enn frek­ar áhuga fólks af ís­lensk­um ætt­um á upp­runa sín­um og frænd­g­arði á Íslandi. Fjöl­marg­ar sýn­ing­ar hafa verið sett­ar upp í hús­næði Vest­urfara­set­urs­ins á Hofsósi sem eru all­ar til þessa falln­ar að varpa ljósi á sög­una og minn­ast þeirra fjöl­mörgu sem yf­ir­gáfu Ísland í leit að betra lífi á seinni hluta 19. ald­ar og í upp­hafi þeirra 20.