Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa 21. nóvember

Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. 

Minningardagurinn 2021

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Í ár munu einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri viðbragðsaðilar standa fyrir táknrænum athöfnum víða um land sunnudaginn 21. nóvember og verður þeim streymt á facebook. Í ljósi sóttvarna er fólk hvatt til að taka þátt í viðburðunum í gegnum streymi á facebook.  

 STREYMI FRÁ SKÓGARHLÍР- HEFST SUNNUDAGINN 21. NÓVEMBER KL. 14:00

Minningardagurinn sunnudaginn 21. nóvember 2021 í Fjallabyggð

Ólafsfjörður kl. 17:00 Kertafleyting við tjörnina í Ólafsfirði. Heitt kakó.

Slysavarnadeildin Vörn mun standa fyrir minningarathöfn við kirkjutröppurnar fyrir neðan Siglufjarðarkirkju kl. 17:00.
Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri mun segja nokkur orð og verður þeirra sem látist hafa í umferðinni minnst með einnar mínútu þögn. Eva Karlotta tekur nokkur falleg lög og boðið verður upp á heitt kakó með rjóma og piparkökur.

Íbúar Fjallabyggðar hvattir til að kveikja á friðarkerti.

Alþjóðlegur minningardagur

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1.3 milljónir á einu ári.

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915, hafa þann 15. nóvember 2021, samtals 1592 einstaklingar látist í umferðinni á Íslandi. Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Segja má að allt samfélagið deili með sér alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð. 

Vefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO