Af borgarafundi á Siglufirði

Þriðjudagskvöldið 22. júlí sl. var haldinn borgarafundur á Siglufirði, meginefni fundarins var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. Siglfirðingar og nágrannar fjölmenntu til fundar og ekki fór á milli mála að mikil gremja ríkti í garð ríkisstjórnarflokkanna. Enda þótti Halldóri Blöndal ástæða til í lok fundar að segja fundarmönnum að tónninn á fundinum væri ekki góður og of samhljóma Samfylkingunni.Enginn rökstuðningurMargt kom fram hjá þeim þremur þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem voru á fundinum en athyglisverðast var að enginn þeirra gerði tilraun til að rökstyðja ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Eini ráðherrann sem mætti sagðist hafa metið stöðuna þannig að það væri betra fyrir framgang málsins að hann sæti áfram í ríkisstjórninni og þess vegna stæði hann með ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Annar rökstuðningur, ef rökstuðning skal kalla, heyrðist ekki.Allir stjórnarþingmennirnir lýstu yfir miklum stuðningi við gerð Héðinsfjarðarganga og sóru af sér að hafa vitað nokkuð annað en þeir sögðu fyrir kosningar um að framkvæmdir hæfust ekki seinna en haustið 2004. Það voru einhverjir aðrir sem spunnu blekkingarvefinn. Framsóknarþingmennirnir gengu svo langt að telja að þeir hefðu jafnvel tapað í öðrum kjördæmum fleiri atkvæðum en þeir fengu út á málið í Norðausturkjördæmi - þessi undarlegi varnarleikur gekk meira að segja fram af Halldóri Blöndal sem taldi atkvæði ekki koma málinu við.Hlýða skal kalli foringjannaEn sameiginlegur boðskapur stjórnarþingmannanna var að ekki ætti að ræða hvað hefði verið sagt eða gert fyrir kosningar - slík umræða væri bara pólitík af hálfu Samfylkingarinnar. Nú hefði ríkisstjórnin gefið úr einstaka yfirlýsingu sem öllu hefði breytt; búið væri að ákveða hvenær bjóða ætti út framkvæmdina, hvenær ætti að byrja og hvenær ætti að ljúka verkinu. Það er samsagt búið að ákveða enn einu sinni allt þetta ferli og að mati stjórnarþingmannanna er best fyrir framgang málsins að gleyma í eitt skipti fyrir öll að fyrir kosningar var ekki aðeins búið að lofa og ákveða þetta allt heldur einnig búið að bjóða út verkið - en það var bara hluti af kosningaundirbúningi.Bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna á Siglufirði bætti um betur og taldi að ekki væri hægt að svíkja aftur því samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ætti að hefja verkið árið 2006 og þá væri svo stutt í næstu alþingiskosningar. Þarna kom skýringin; það á að fá enn einu sinni atkvæði út á framkvæmdina í næstu alþingiskosningum - geri aðrir betur. Þá verður búið að "selja" Héðinsfjarðargöng í þrennum alþingiskosningum í röð.Niðurstaða fundarins var einföld og kom fram hjá formanni Framsóknarfélagsins sem sagði að þetta mál eins og önnur hjá ríkisstjórninni væri ákveðið af Davíð Oddsyni og Halldóri Ásgrímssyni - aðrir þingmenn ríkisstjórnarinnar geta haft hvaða skoðanir sem er, þær skipta ekki máli. Þess vegna sögðu allir frambjóðendur og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna satt á öllum fundum á Siglufirði, bæði fyrir kosningar og 22. júlí sl., þeir vissu ekki betur á þeim fyrri og þurftu að hlýða foringjunum á þeim síðasta.Eftir Einar Má Sigurðarson