Úthlutunarreglur byggðakvóta.

Á heimasíðu Þormóðs ramma – Sæbergs má sjá yfirlýsingu vegna reglna um úthlutun byggðakvóta á Siglufirði fiskveiðiárið 2005-2006. Bæjaryfirvöld harma niðurstöðu þeirrar yfirlýsingar þar sem beinlínis er gefið í skyn að Siglufjarðarkaupstaður sé með reglum sínum að senda fyrirtækinu ÞRS skýr skilaboð um að bæjaryfirvöld hafi ekki áhuga á að taka þátt í að leysa þann vanda sem blasir við rækjuvinnslu hér í bæ. Ugglaust má ávallt gagnrýna úthlutun byggðakvóta og sitt sýnist að sjálfsögðu hverjum hvað það varðar en úthlutunarreglur eru nú gerðar af bestu vitund og með hagsmuni heildarinnar í huga. Byggðakvóti er fyrst og fremst hugsaður til þess að styrkja vinnslu og veiðar í viðkomandi byggðarlagi. Gríðarlegur vöxtur hefur verið í útgerð smábáta á Siglufirði á árinu sem er að líða og má nefna að landaður afli smábáta á árinu 2005 er nú um 4700 tonn á móti um 1500 tonnum allt árið 2004. Reglur um úthlutun byggðakvóta ákvarðast því fyrst og fremst á því að bæjaryfirvöld telja mikilvægt að styðja við þá þróttmiklu smábátaútgerð sem hér hefur verið að vaxa. Jafnframt má nefna að á síðasta ári var hér settur á fót fiskmarkaður m.a. með þátttöku Þormóðs ramma – Sæbergs og telja bæjaryfirvöld afar mikilvægt að við slíka starfsemi, nýja starfsemi í atvinnuflóru Siglufjarðar, sé reynt að styðja með tiltækum ráðum. Það eru því fyrst og síðast þau sjónarmið að verið sé að skjóta styrkari stoðum undir vaxtarbrodda í atvinnulífi Siglufjarðar sem ráða för þegar reglur um úthlutun byggðakvóta eru samþykktar í bæjarstjórn Siglufjarðar. Bæjaryfirvöld á Siglufirði hafa fullan skilning á þeim vanda sem sjávarútvegur og þá helst rækjuvinnsla á við að glíma um þessar mundir og eru að sjálfsögðu tilbúin til viðræðna við fyrirtæki ÞRS um lausnir á þeim vanda. Stjórnendum og starfsmönnum Þormóðs ramma – Sæbergs óska bæjaryfirvöld góðs gengis og gleðilegrar hátíðar sem og bæjarbúum öllum og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi.