Þjóðlagahátíðin

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði í áttunda sinnArmensk tónlist, amerískt langspil, tvísöngur og klezmertónlist er á meðal þess sem boðið verður upp á áttundu alþjóðlegu þjóðlagahátíðinni á Siglufirði í sumar. Hún stendur að þessu sinni yfir dagana 4.-8. júlí og munu um eitthundrað listamenn frá sjö löndum koma fram á hátíðinni. Hátíðin ber yfirskriftina Ríma enda munu kvæðamenn kveðast á við erlenda og innlenda tónlistarmenn á tónleikum þar sem gætir ólíkra stílbrigða. Að vanda standa fjölbreytt námskeið gestum hátíðarinnar til boða sem og brúðuleikhús, ganga um Siglufjarðarskarð og vegleg uppskeruhátíð. Á meðal þeirra erlendu listamanna sem skemmta á Þjóðlagahátíð má nefna heimstónlistarflokkinn Andromedu4 og Jerry Rockwell langspilsleikara frá Bandaríkjunum, Armen Babakhanian píanóleikara og söngkonuna Susanna Martirosyan frá Aremeníu, Tríó Hanne Juul frá Svíþjóð, þýska kammerkórinn Cappella con moto, búlgörsku sveitina Narodna Musika og Unni Lövlid þjóðlagasöngkonu og Joachim Kjelsaas Kwetzinsky píanóleikara frá Noregi. Þá koma margir helstu þjóðlagatónlistarmenn okkar Íslendinga fram á hátíðinni, svo sem Bára Grímsdóttir ásamt Chris Foster, Steindór Andersen, Kvintbræður ásamt Mörtu G. Halldórsdóttur og tenórarnir þrír Gissur Páll Gissurarson, Hlöðver Sigurðsson og Þorsteinn Árbjörnsson með Renötu Iván píanóleikara. Þá syngur Kristjana Arngrímsdóttir lög við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir sellóleikari frumflytur nýtt verk eftir Hafdísi Bjarnadóttur tónskáld ásamt Eriku Södersten á víólu. Þá leikur Sinfóníuhljómsveit unga fólksins píanókonsert eftir armenska tónskáldið John Sarkissian og verk eftir Grieg.Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar: siglo.is/festival.