20 ár liðin

Í dag eru 20 ár liðin frá því að aurskriður féllu niður í Ólafsfjörð úr hlíðum Tindaaxlar og ollu miklu tjóni. Fyrri skriðan var um áttatíu metra breið og tveggja til fjögra metra há. Skriðan kom niður á og á milli húsanna 69 og 71 við Hlíðarveg, hreif með sér tvo bíla áður en hún lenti á Hornbrekkuvegi 7. Sá hluti skriðunnar sem ekki stöðvaðist á húsinu hélt áfram niður í tjörn sem flæddi svo yfir bakka sína og áfram niður bæinn. Mikil mildi þótti að ekki hlaust mannskaði af. 

Seinni skriðan féll við hlið þeirrar fyrri á og á milli húsa númer 67 og 69 við Hlíðarveg og mynduðu skriðurnar tvær samtals 150 m. breitt sár í fjallshlíðinni.

Þegar yfir lauk var ljóst að mikið hreinsunarstarf lá fyrir. Bæjarbúar tóku höndum saman um með dyggri aðstoð aðkomufólks sem streymdi úr öllum landshlutum.

Eftir flóðin voru grafnir skurðir í laus jarðlög í hlíðinni til þess að ræsa fram grunnvatn og draga með því úr hættu á aurflóðum.