Fjallabyggð

 Bæjarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar árið 2006. Fjallabyggð er nyrst á Tröllaskaga og nær frá Almenningsnöf undan Mánárfjalli í vestri, að Æðarskeri undan Ólafsfjarðarhyrnu í austri og að Kerlingahnjúk í suðri.

Í bæjarfélaginu eru tveir þéttbýliskjarnar, bæirnir Ólafsfjörður og Siglufjörður. Báðir bæir byggja afkomu sína að mestu á sjávarútvegi, vinnslu fiskafurða og ýmiskonar þjónustu við þessar greinar iðnaðar, svo sem vélsmíði og netagerð. Í seinni tíð hefur fjölbreytnin í atvinnulífinu aukist og mikill vaxtarbroddur er í ferðaiðnaði og ýmiskonar fjarvinnslu fyrir fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Í Fjallabyggð eru auk þess smíðaðir bátar, slökkvi- og sjúkrabílar og fiskvinnsluvélar fyrir frystitogara svo eitthvað sé talið.

Íbúar Fjallabyggðar er um 2000 talsins.

Mikil náttúrufegurð er í Fjallabyggð og margar góðar gönguleiðir eru á svæðinu.  Eyðifjörðurinn Héðinsfjörður er vinsæll áningarstaður ferðalanga, enda er hann rómaður fyrir fegurð, kyrrð og ró. Á veturna er Fjallabyggð sannkölluð vetrar- og skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Tvö stórfengleg skíðasvæði eru í Fjallabyggð, Skarðsdalur á Siglufirði og Tindaöxl í Ólafsfirði. 

Á sumrin eru það fjöllin, sjórinn, Ólafsfjarðarvatn og svört sandfjaran sem heilla. Í stórbrotnu landslagi staðanna má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró.  Yfir sumartímann er hægt að horfa á miðnætursólina dansa á sjóndeildarhringnum áður en hún rís að nýju og á vetrum eru norðurljósin stórfengleg.

Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi.  Í Fjallabyggð eru einnig tveir 9 holu golfvellir og tvær sundlaugar, fjöldi safna, gallería, veitingahús, hótel og verslanir.