Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

148. fundur 05. desember 2012 kl. 16:30 - 16:30 í Ráðhúsinu Gránugötu 24 Siglufirði
Nefndarmenn
  • Helga Jónsdóttir formaður
  • Sigurður Hlöðversson aðalmaður
  • Jón Árni Konráðsson aðalmaður
  • Ásgrímur Pálmason aðalmaður
  • Ármann Viðar Sigurðsson Deildarstjóri Tæknideildar
  • Valur Þór Hilmarsson garðyrkju- og umhverfisfulltrúi
  • Arnar Freyr Þrastarson tæknifulltrúi
Fundargerð ritaði: Arnar Freyr Þrastarson tæknifulltrúi

1.Viðbragðsáætlun Héðinsfjarðarganga

Málsnúmer 1211033Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið sátu: Birgir Guðmundsson og Gísli Eiríksson frá Vegagerðinni, Guðmundur Gunnarsson frá Mannvirkjastofnun og Ámundi Gunnarsson slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar. Birgir og Gísli kynntu fundarmönnum viðbragðsáætlun, áhættumat, mat á umfangi og flutningi á hættulegum efnum  í Héðinsfjarðargöngum. Eftir framsögu Gísla og Birgis kynnti Guðmundur Gunnarsson athugasemdir Mannvirkjastofnunar við viðbragðsáætlunina.

 

Nefndin samþykkir framlagða viðbragðsáætlun Héðinsfjarðarganga en bendir á að athugasemdir og ábendingar frá Mannvirkjastofnun skuli hafðar til hliðsjónar við endurskoðun áætlunarinnar.

2.Varðar byggingar á Þverá

Málsnúmer 1211104Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið sátu: Guðmundur Gunnarsson frá Mannvirkjastofnun og Ámundi Gunnarsson slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar.

Lagt er fram bréf þar sem Sigurður Sigurðsson sækir um lokaúttekt á sumarhúsum nr. 5, 9 og 11 á Þverá í Ólafsfirði.

 

Gunnar Guðmundsson tjáði nefndinni að notkun á þeim samlokueiningum sem eru í fyrrgreindum húsum er bönnuð. Tiltekið er á byggingarnefndarteikningum að í utanhússklæðningu á húsunum eru notaðar einingar sem eru eldtefjandi, en komið hefur í ljós að svo er ekki. Einingarnar eru úr brennanlegri einangrun. Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998 hefði Sigurður getað sótt um undanþágu fyrir umræddum einingum til umhverfisráðherra. Nú er komin út ný byggingarreglugerð nr. 112/2012 og er þar búið að fella út áðurgreinda undanþáguheimild.

 

Nefndin getur ekki veitt heimild fyrir umræddum einingum og þar með lokaúttekt en bendir á að hugsanlega sé hægt að sækja um undanþágu til ráðherra þar sem byggingarleyfi fyrir umræddum húsum var gefið út í gildistíð eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

3.Lóðarleigusamningur, Vesturtangi 7

Málsnúmer 1211053Vakta málsnúmer

Lagður fram lóðarleigusamningur fyrir lóðina Vesturtangi 7 á Siglufirði.

 

Erindi samþykkt.

4.Ósk um samstarf í umhverfismálum

Málsnúmer 1211082Vakta málsnúmer

Lagt fram kynningarbréf frá sjálfboðaliðasamtökunum SEEDS. Samtökin taka á móti erlendum sjálfboðaliðum til þess að sinna fjölþættum verkefnum á sviði umhverfis-, menningar- og félagsmála.

 

Nefndin þakkar erindið en óskar ekki eftir samstarfi að sinni.

5.Uppfærsla á deiliskipulögum Fjallabyggðar

Málsnúmer 1211064Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dagsett 9. nóvember er varðar gildi deiliskipulags sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum árin 2011 og 2012. Samkvæmt nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er niðurstaðan sú að þar sem meira en þrír mánuðir hafa liðið frá endanlegri samþykkt sveitarstjórnar á deiliskipulagstillögu þar til auglýsing um hana hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þá hafi tillagan þegar verið orðin ógild þegar sú auglýsing var birt.

Tæknideild Fjallabyggðar hefur yfirfarið allar deiliskipulagsáætlanir sem þetta varðar og kom í ljós að alls tíu deiliskipulagsáætlanir og breytingar á deiliskipulögum eru ekki í gildi.

 

Nefndin leggur til að farið verði með eftirfarandi deiliskipulagsáætlanir samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur tæknideild að auglýsa eftir athugasemdum við eftirfarandi deiliskipulagstillögur:

1. Eyrarflöt Siglufirði.

2. Frístundabyggð við Saurbæjarás Siglufirði.

3. Frístundabyggð vestan Óss í Ólafsfirði.

4. Svæði fyrir hesthús, hestaíþróttir og frístundabúskap Siglufirði.

5. Snjóflóðavarnir og útivistarsvæði við Hornbrekku Ólafsfirði.

6. Flæðar í Ólafsfirði.

7. Snjóflóðavarnir ofan byggðar Siglufirði.

6.Ósk um umsögn um athugasemdir Brynju I.Hafsteinsdóttur við útgáfu starfsleyfis fyrir efnistöku á Siglunesi

Málsnúmer 1211020Vakta málsnúmer

Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi f.h. Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra óskar eftir umsögn Fjallabyggðar um athugasemdir Brynju I. Hafsteinsdóttur f.h. nokkurra landeigenda á Siglunesi við útgáfu starfsleyfis fyrir efnistöku á Siglunesi.

 

Nefndin ítrekar bókun 133. fundar skipulags- og umhverfisnefndar þar sem fram koma skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis og felur byggingarfulltrúa að svara erindinu.

7.Skíðasvæðið í Skarðdal

Málsnúmer 1211057Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Valtý Sigurðssyni f.h. Leyningsáss ses. er varðar skíðasvæðið í Skarðdal. Í bréfinu er óskað eftir því að vinna vegna hönnunar á nýjum vegi verði komið af stað þar sem málið sé búið að vera í biðstöðu í langan tíma.

 

Nefndin felur tæknideild að hefja viðræður við Vegagerðina vegna hönnunar á nýjum vegi að framtíðarstaðsetningu skíðaskála í Skarðdal.

8.Náttúruverndarnefnd - ársskýrsla 2012

Málsnúmer 1211058Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að ársskýrslu náttúruverndarnefndar Fjallabyggðar fyrir árið 2012 sem voru unnin af umhverfisfulltrúa.

 

Nefndin samþykkir framlögð drög og felur umhverfisfulltrúa að skila skýrslunni inn til Umhverfisstofnunar.

9.Rekstraryfirlit 30. september 2012

Málsnúmer 1211045Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit til 30. september 2012.

Fundi slitið - kl. 16:30.