Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar

128. fundur 19. júní 2023 kl. 16:30 - 19:10 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Viktor Freyr Elísson formaður, D lista
  • Jakob Kárason aðalmaður, A lista
  • Sandra Finnsdóttir aðalmaður, D lista
  • Katrín Freysdóttir aðalmaður, H lista
  • Ida Marguerite Semey varamaður, A lista
Starfsmenn
  • Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála
Fundargerð ritaði: Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda og menningarmála

1.Opnunartími íþróttamiðstöðva veturinn 2023-2024

Málsnúmer 2306016Vakta málsnúmer

Forstöðumaður íþróttamiðstöðva fer yfir tillögu sína að opnunartíma Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar veturinn 2023-2024
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Undir þessum lið sat Skarphéðinn Þórsson forstöðumaður Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar. Forstöðumaður lagði fram hugmynd að opnunartíma íþróttamiðstöðva á komandi vetri sem felur í sér meiri samræmingu milli opnunartíma íþróttamiðstöðva í báðum bæjarkjörnum. Nefndin tekur jákvætt í hugmynd forstöðumanns en óskar eftir að hann taki saman aðsóknartölur og leggi fyrir nefndina í ágúst. Með því móti sé hægt að skoða raunverulega nýtingu á sundlaugum og líkamsræktum sveitarfélagsins.

2.Skólapúls 2023 - niðurstöður nemendakönnunar

Málsnúmer 2304060Vakta málsnúmer

Skólastjóri fer yfir niðurstöður nemendakönnunar Skólapúlsins.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar. Skólastjóri fór yfir niðurstöður nemendakönnunar Skólapúlsins. Alls tóku 95 nemendur í 6.-10. bekk þátt í könnuninni sem er 91,3% svarhlutfall. Nefndin lýsir yfir ánægju með niðurstöður og er sérlega ánægjulegt að einelti í Grunnskóla Fjallabyggðar mælist undir landsmeðaltali. Nefndin þakkar skólastjóra kærlega fyrir yfirferðina.

3.Skólastarf Grunnskóla Fjallabyggðar skólaárið 2023-2024

Málsnúmer 2306017Vakta málsnúmer

Farið yfir skipulag skólastarfs og mannaflaþörf næsta skólaárs í grunnskólanum.
Vísað til bæjarráðs
Undir þessum lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar. Skólastjóri og deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fóru yfir vinnuskjal sitt með skipulagi næsta skólaárs m.t.t. mannaflaþarfar, en ljóst er að nemendum skólans mun fjölga á milli skólaára. Fræðslu- og frístundanefnd vísar vinnuskjali skólastjóra og deildarstjóra til umfjöllunar í bæjarráði þar sem ljóst er að auka þarf lítillega heimiluð stöðugildi í kennslu.

4.Börn af erlendum uppruna og íþróttir

Málsnúmer 2303076Vakta málsnúmer

Lagt fyrir til kynningar bréf frá Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ)um útgáfu bæklings sem ætlaður er foreldrum barna af erlendum uppruna um gildi þess að stunda íþróttir.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar.

Lagt fyrir til kynningar bréf frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) sem vilja vekja athygli á bæklingi sem gefinn hefur verið út á tíu tungumálum um ávinning þess að stunda íþróttir með íþróttafélagi. Bæklingurinn er ætlaður foreldrum barna af erlendum uppruna. Bæklingana er bæði hægt að nálgast á rafrænu formi á heimasíðum samtakanna www.isi.is og www.umfi.is en einnig á prentuðu formi á skrifstofum þeirra.
Nefndin leggur til að upplýsingar úr bréfinu verði settar á vef Fjallabyggðar og sendar leik- og grunnskóla til að hafa aðgengilegar.

5.Seinni skólabyrjun í Grunnskóla Fjallabyggðar við Tjarnarstíg

Málsnúmer 2305069Vakta málsnúmer

Erindi frá nokkrum foreldrum nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem hvatt er til skoðunar á því að að seinka skólabyrjun nemenda í 6.-10. bekk
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Undir þessum lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar.
Erindi hefur borist frá nokkrum foreldrum nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem þeir leggja til að fræðslu- og frístundanefnd skoði að seinka skólabyrjun nemenda í 6.-10. bekk og vísa til rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum lengri svefns unglinga á líðan og námsárangur.
Fræðslu- og frístundanefnd þakkar fyrir erindið og fagnar því. Skipulagsbreytingar eins og um ræðir þarfnast góðs undirbúnings og samráðs við hagsmunaaðila. Nefndin leggur til að skoðað verði hvort þessar hugmyndir geti samrýmst þeim breytingum sem verða á skipulagi skólastarfs við flutning 5. bekkjar yfir í starfsstöðina við Tjarnarstíg haustið 2024. Nefndin vísar erindinu til úrvinnslu hjá deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og skólastjóra grunnskólans.
Fræðslu- og frístundanefnd þakkar Erlu Gunnlaugsdóttur skólastjóra fyrir gott og árangursríkt samstarf og óskar henni velfarnaðar í því sem nú tekur við. Erla mun láta af störfum skólastjóra 31. júlí nk.

Fundi slitið - kl. 19:10.