Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar

127. fundur 13. júní 2023 kl. 16:30 - 18:15 Ólafsvegi 4, Ólafsfirði
Nefndarmenn
  • Viktor Freyr Elísson formaður, D lista
  • Jakob Kárason aðalmaður, A lista
  • Karen Sif Róbertsdóttir varamaður, D lista
  • Katrín Freysdóttir aðalmaður, H lista
  • Bryndís Þorsteinsdóttir aðalmaður, A lista
Starfsmenn
  • Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála
Fundargerð ritaði: Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda og menningarmála

1.Stjórnun Leikskóla Fjallabyggðar skólaárið 2023-2024

Málsnúmer 2306014Vakta málsnúmer

Deildarstjóri kynnir fyrirkomulag stjórnunar leikskólans skólaárið 2023-2024.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sátu Olga Gísladóttir skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar, Kristín María Hlökk Karlsdóttir aðstoðarskólastjóri leikskólans og Fanney Jónsdóttir fulltrúi starfsmanna.

Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála kynnti fyrir nefndinni fyrirkomulag stjórnunar Leikskóla Fjallabyggðar skólaárið 2023-2024.
Starfslok skólastjóra leikskólans er 30. júní nk. Engin umsókn barst um auglýsta stöðu skólastjóra leikskólans. Leitað var til aðstoðarleikskólastjóra, Kristínar Maríu Hlökk Karlsdóttur um að taka að sér skólastjórastöðu á næsta skólaári og með henni verður þriggja manna stjórnendateymi. Stjórnendateymið samanstendur af þremur leikskólakennurum, sem allir sinna deildarstjórn við leikskólann. Deildarstjórarnir skipta með sér 100% stjórnunarstöðu aðstoðarleikskólastjóra ásamt því að sinna áfram deildarstjórn.

Meðstjórnendur Kristínar Maríu verða:
Björk Óladóttir deildarstjóri sem fer með daglega stjórnun Leikhóla.
Guðný Huld Árnadóttir deildarstjóri sem fer með daglega stjórnun málefna sem varðar yngstu þriggja deilda Leikskála.
Vibekka Arnardóttir deildarstjóri sem fer með daglega stjórnun málefna sem varða elstu tveggja deilda Leikskála og er staðgengill skólastjóra.

Stjórnunarteymið er tilraunaverkefni til eins árs. Seinni hluta næsta vetrar verður árangur metinn og tekin ákvörðun um framtíðarskipan stjórnunar leikskólans. Fjallabyggð óskar þeim öllum til hamingju með stöðurnar og velfarnaðar í starfi.
Fræðslu- og frístundanefnd þakkar Olgu Gísladóttur fráfarandi leikskólastjóra fyrir vel unnin störf.

2.Skólastarf Leikskóla Fjallabyggðar skólaárið 2023-2024

Málsnúmer 2306018Vakta málsnúmer

Stjórnendur leikskólans fara yfir skipulag skólastarfs eftir sumarlokun og útlit næsta veturs.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Undir þessum lið sátu Olga Gísladóttir skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar, Kristín María Hlökk Karlsdóttir aðstoðarskólastjóri leikskólans og Fanney Jónsdóttir fulltrúi starfsmanna.

Leikskólastjóri fór yfir nemendafjölda í Leikskóla Fjallabyggðar næsta vetur og með hvaða móti skólastarfið verður best fyrir komið í húsnæði skólans. Nokkur fjölgun nemenda er fyrirsjáanleg í leikskólanum næsta vetur svo útlit er fyrir að biðlisti myndist um áramót ef heldur sem horfir. Þrengslin verða þó mun meiri í Leikhólum. Fræðslu- og frístundanefnd felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að taka saman upplýsingar og mögulegar lausnir og vísar málinu til umfjöllunar í bæjarráði. Ljóst er að húsnæði Leikhóla annar ekki væntum nemendafjölda og verði ekki brugðist við mun ekki verða hægt að veita öllum nemendum leikskólavistun við eins árs aldur frá næstu áramótum.

3.Umsóknir um stöðu skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar 2023

Málsnúmer 2306015Vakta málsnúmer

Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála kynnir fyrir nefndinni ráðningu í stöðu skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar
Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir ráðningarferli vegna ráðningar í stöðu skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar. Staða skólastjóra var auglýst 17. maí 2023. Umsóknarfrestur um stöðuna var til og með 31. maí sl. Tvær umsóknir bárust um stöðuna. Mögnum sá um auglýsingar- og ráðningarferli vegna stöðunnar.
Deildarstjóri kynnti nefndinni þá niðurstöðu að ráða Ásu Björk Stefánsdóttur í stöðu skólastjóra frá og með 1. ágúst nk. Fræðslu- og frístundanefnd býður Ásu Björk velkomna til starfa og þakkar Erlu Gunnlaugsdóttur, fráfarandi skólastjóra fyrir vel unnin störf.

4.Umsóknir um starf frístundafulltrúa 2023

Málsnúmer 2305053Vakta málsnúmer

Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála kynnir ráðningu í starf frístundafulltrúa.
Lagt fram til kynningar
Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir ráðningarferli vegna ráðningar í stöðu frístundafulltrúa. Starf frístundafulltrúa var auglýst 17. maí 2023. Umsóknarfrestur um starfið var til og með 31. maí sl. Tvær umsóknir bárust.
Deildarstjóri kynnti nefndinni þá niðurstöðu að ráða Sölku Hlín Harðardóttur í stöðu frístundafulltrúa frá og með 1. ágúst nk. Salka Hlín er að ljúka námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands í haust. Fræðslu- og frístundanefnd býður Sölku Hlín velkomna til starfa.

5.Heimsóknir fræðslu- og frístundanefndar í stofnanir sviðsins.

Málsnúmer 2303004Vakta málsnúmer

Fræðslu- og frístundanefnd fer yfir þær athugasemdir sem teknar voru saman í kjölfar heimsóknar nefndarinnar í stofnanir á sviðinu.
Vísað til bæjarráðs
Fræðslu- og frístundanefnd hefur á síðustu mánuðum heimsótt allar stofnanir sveitarfélagsins sem heyra undir sviðið og nutu leiðsagnar forstöðumanna á hverjum stað fyrir sig. Tekin voru saman helstu atriði sem fram komu í heimsóknunum og vörðuðu flest þeirra viðhald. Fræðslu- og frístundanefnd telur húsnæði íþróttamiðstöðvar á Siglufirði í óviðunandi ástandi. Fræðslu- og frístundanefnd óskar eftir að koma á fund bæjarráðs og fylgja eftir niðurstöðum heimsókna.

Fundi slitið - kl. 18:15.