Bæjarráð Fjallabyggðar

468. fundur 04. október 2016 kl. 08:00 - 09:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • Kristinn Kristjánsson varaformaður, F lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir aðalmaður, D lista
  • Sólrún Júlíusdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Dagdvöl aldraðra

Málsnúmer 1609092Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf til heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar, dagsett 27. september 2016, þar sem Fjallabyggð sækir um fjölgun dagvistarrýma við dagdvöl aldraðra í Skálarhlíð á Siglufirði, úr sjö leyfum í tólf. Undanfarin ár hefur þátttaka eldra fólks í dagdvölinni verið langt umfram fjölda þessara sjö dagvistarýma eða rúmlega þreföld. Hlutfall eldri borgara í Fjallabyggð er mjög hátt eða 19%, samanborið við landsmeðaltalið sem er 12%.

2.Uppsagnir í Arionbanka Fjallabyggð

Málsnúmer 1609095Vakta málsnúmer


28. september 2016, tilkynnti Ari­on banki um uppsagnir 46 starfsmanna. Þar af störfuðu 27 í höfuðstöðvum bank­ans og 19 á öðrum starfs­stöðvum.

Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum sínum vegna uppsagna 6,4 stöðugilda í útibúum Arion banka í Fjallabyggð. Þessar uppsagnir eru þvert á þær yfirlýsingar sem forsvarsmenn gáfu bæjarráðsfulltrúum og bæjarstjóra við yfirtöku Arion banka á Afli-Sparisjóði á Siglufirði.
Niðurskurður stöðugilda í Fjallabyggð er þriðjungur í stöðugildafjölda bankans í uppsögnum á landsbyggðinni og er mikil blóðtaka fyrir samfélag eins og Fjallabyggð.

Bæjarráð óskar eftir því að fulltrúar Arion banka mæti á næsta fund bæjarráðs og fari yfir núverandi stöðu mála og til framtíðar.

3.Staða framkvæmda - 2016

Málsnúmer 1608004Vakta málsnúmer

Á fund bæjarráðs kom deildarstjóri tæknideildar, Ármann V. Sigurðson og upplýsti bæjarráð um stöðu framkvæmda.

4.Rekstraryfirlit júlí 2016

Málsnúmer 1609075Vakta málsnúmer

Lagt fram rekstraryfirlit fyrir júlí 2016.
Rekstrarniðurstaða Fjallabyggðar fyrir janúar til júlí, 2016, er 65,7 milljónum lakari en tímabilsáætlun gerir ráð fyrir.
Tekjur umfram gjöld eru 8,9 millj. í stað 74,6 millj.
Tekjur eru 30,3 millj. hærri en áætlun, gjöld 114,6 millj. hærri og fjármagnsliðir 18,6 millj. lægri.

5.Breyting á launaáætlun vegna kjarasamninga

Málsnúmer 1609017Vakta málsnúmer

Lögð fram launagögn og samanburður vegna launaáætlunar 2016.

Bæjarráð frestar afgreiðslu þessa dagskrárliðar til næsta fundar og óskar eftir að skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og deildarstjóri félagsmála komi á næsta fund bæjarráðs.

6.Trappa - Samningur - kynning

Málsnúmer 1609067Vakta málsnúmer

Á 466. fundi bæjarráðs, 20. september 2016, voru lögð fram til kynningar drög að samningi við Tröppu ehf um þjónustu talmeinafræðinga í fjarþjálfun og ráðgjöf vegna barna með tal- og málþroskafrávik. Bæjarráð óskaði eftir umsögn deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála.

Umsögn lögð fram.
Á fund bæjarráðs kom deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála, Kristinn J. Reimarsson.
Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála að kanna með aðkomu Tröppu ehf að náms- og starfsráðgjöf.

7.Alþingiskosningar - 2016

Málsnúmer 1609004Vakta málsnúmer

Lagðar fram upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands, í bréfi dagsettu 26. september 2016, um meðferð kjörskrárstofna vegna alþingiskosninga 29. október 2016.
Fram kemur m.a. að kjörskrár skulu lagðar fram á skrifstofu bæjarfélagsins eigi síðar en miðvikudaginn 19. október 2016.

Þrjú eintök af kjörskrárstofni vegna alþingiskosningana hafa borist og verður kjörskrá yfirfarin og staðfest á næsta bæjarstjórnarfundi.

8.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2016

Málsnúmer 1601013Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar eftirfarandi fundargerðir:

84. fundur hafnarstjórnar frá 26. september 2016.
206. fundur skipulags- og umhverfisnefndar frá 29. september 2016.

Fundi slitið - kl. 09:00.