Alþingiskosningar - 2016

Málsnúmer 1609004

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 464. fundur - 06.09.2016

Í tengslum við næstu Alþingiskosningar er Þjóðskrá Íslands að hefja undirbúning vegna þess og býður sveitarfélögunum að nota svokallað Kjördeildakerfi til þess að tilgreina kjörstaði og raða heimilisföngum niður á kjördeildir. Með því eiga að fást heildstæðar upplýsingar og yfirlit yfir öll heimilisföng í sveitarfélagi, á hvaða kjörstað kjósendur með búsetu á hverju heimilisfangi eiga að kjósa og í hvaða kjördeild.
Umrætt kjördeildakerfi var nýtt af ríflega 30 sveitarfélögum í síðustu forsetakosningum.

Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 466. fundur - 20.09.2016

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 2. september sl., var lýst yfir ánægju með hve vel tókst til með tilraunaverkefni um utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna forsetakosninga fyrr í sumar hjá þeim 15 sveitarfélögum sem tóku þátt í verkefninu.
Stjórnin tekur undir tilmæli Innanríkisráðuneytisins um áframhald verkefnisins og hvetur sveitarfélög til þess að taka þátt í tilraunaverkefninu við alþingiskosningar síðar á þessu ári eftir því sem tök eru á og hver og ein sveitarstjórn ákveður.

Bæjarráð telur eðlilegt að utankjörfundaratkvæðagreiðsla í Fjallabyggð verði með sama hætti og verið hefur, þ.e. hjá sýslumanni.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 467. fundur - 27.09.2016

Í upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands dagsettar 20. september í tengslum við Alþingiskosningar þann 29. október 2016, kemur m.a. fram að viðmiðunardagur kjörskrár er fimm vikur fyrir kjördag og þurftu því allar breytingar á lögheimili að vera skráðar fyrir lok dags þann 23. september s.l.
Kjörskrárstofn verður tilbúin til afhendingar eigi síðar en 29. september næstkomandi.

Lagt fram.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 468. fundur - 04.10.2016

Lagðar fram upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands, í bréfi dagsettu 26. september 2016, um meðferð kjörskrárstofna vegna alþingiskosninga 29. október 2016.
Fram kemur m.a. að kjörskrár skulu lagðar fram á skrifstofu bæjarfélagsins eigi síðar en miðvikudaginn 19. október 2016.

Þrjú eintök af kjörskrárstofni vegna alþingiskosningana hafa borist og verður kjörskrá yfirfarin og staðfest á næsta bæjarstjórnarfundi.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 469. fundur - 11.10.2016

Lagðar fram upplýsingar frá Þjóðsskrá Íslands, dagsettar 5. október 2016 um fjölda kjósenda í Fjallabyggð eftir kjördeildum og kyni:

Í Ólafsfirði:
335 karlar, 289 konur, samtals 624
Á Siglufirði:
511 karlar, 496 konur, samtals 1007

Samtals í Fjallabyggð
846 karlar, 785 konur, samtals 1631

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 136. fundur - 12.10.2016

Í bréfi frá Þjóðskrá Íslands dagsett 26. september 2016, eru upplýsingar og leiðbeiningar um meðferð kjörskrárstofna vegna alþingiskosninga 29. október 2016. Þrjú eintök af kjörskrárstofni hafa borist og eru 1631 á kjörskrá í Fjallabyggð. Á Siglufirði eru 1.007 á kjörskrá og í Ólafsfirði 624.

Bæjarstjórn samþykkir að gera þrjár breytingar á framlögðum kjörskrárstofni.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum svo breytta kjörskrá.
1628 eru á kjörskrá í Fjallabyggð. Á Siglufirði eru 1.004 á kjörskrá og í Ólafsfirði 624.

Kjörskrár vegna alþingiskosninga þann 29. október 2016 verða lagðar fram 19. október n.k. almenningi til sýnis og verða aðgengilegar á auglýstum opnunartíma bæjarskrifstofunnar í Ráðhúsi Fjallabyggðar að Gránugötu 24, Siglufirði og bókasafninu að Ólafsvegi 4, Ólafsfirði.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum:
"Bæjarstjórn samþykkir að veita bæjarráði fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna alþingiskosninga 29. október 2016 í samræmi við 27. gr. kosningalaga."

Bæjarráð Fjallabyggðar - 471. fundur - 25.10.2016

Á 136. fundi bæjarstjórnar, 12. október 2016, var samþykkt að veita bæjarráði fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna alþingiskosninga 29. október 2016 í samræmi við 27. gr. kosningalaga.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að gera tvær breytingar á framlögðum kjörskrárstofni, frá síðasta fundi bæjarstjórnar.

1626 eru því á kjörskrá í Fjallabyggð. Á Siglufirði eru 1.004 á kjörskrá og í Ólafsfirði 622.