Bæjarráð Fjallabyggðar

658. fundur 30. júní 2020 kl. 08:15 - 08:30 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Helga Helgadóttir formaður bæjarráðs

1.Nýjar og endurskoðaðar áætlanir um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Málsnúmer 2006054Vakta málsnúmer

Lagðar fram, frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 24.06.2020, nýjar og endurskoðaðar áætlanir um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Framlög hafa verið endurskoðuð í takt við nýjar áætlanir um tekjur sjóðsins vegna efnahagslegra áhrifa af Covid-19. Ný áætlun gerir ráð fyrir að tekjur jöfnunarsjóðs lækki um tæpar 3.8 mkr.

Framlög til Fjallabyggðar lækka samtals um 12,1% eða 83,7 mkr.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar að yfirfara fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og leggja til hugsanlegar mótvægisaðgerðir.

2.Beiðni Leyningsáss ses. um frestun framkvæmda við Skarðsveg

Málsnúmer 2006019Vakta málsnúmer

Á 656. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn bæjarstjóra vegna erindis Vegagerðarinnar dags. 11.06.2020, þar sem óskað var eftir afstöðu sveitarfélagsins til erindis Leyningsáss ses. til Vegagerðarinnar, þess efnis að hlé verði gert á vegaframkvæmdum í Skarðsdal á meðan farið er yfir framkvæmdina í heild af hagsmuna- og fagaðilum.

Lögð fram umsögn bæjarstjóra dags. 26.06.2020.

Bæjarráð Fjallabyggðar setur sig ekki upp á móti frestun framkvæmda í Skarðsdal svo fremi að um það náist samkomulag aðila sem að verkinu koma en beinir því til Vegagerðar og Leyningsáss ses. að leitað verði leiða til að ljúka þeim framkvæmdum sem mögulegar eru án þess þó að til lokunar skíðasvæðisins komi. Einnig beinir bæjarráð því til stjórnar Leyningsáss ses. að fram verði sett kostnaðaráætlun vegna flutnings mannvirkja og eða nýbyggingaframkvæmda sem af flutningi skíðasvæðis leiða. Að síðustu vill bæjarráð ítreka og leggja áherslu á nauðsyn þess að Ofanflóðasjóður (ríkisvaldið) komi að þeim kostnaði sem fellur til vegna flutnings skíðasvæðis.

3.Aðstoð vegna skemmda í skógrækt

Málsnúmer 2006035Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Kristrúnar Halldórsdóttur og Bjargar Sæby Friðriksdóttur fh. Skógræktarfélags Siglufjarðar dags. 16.06.2020, þar sem óskað er eftir aðstoð sveitarfélagsins við að fjarlægja trjáboli sem nauðsynlegt er að fella vegna skemmda af völdum snjóþunga sl. vetur. Einnig er óskað eftir viðgerð á vatnsinntaki sem skemmdist í vetur.

Lögð fram umsögn deildarstjóra tæknideildar, dags. 26.06 2020.

Bæjarráð samþykkir að senda fjóra sumarvinnustarfsmenn í fimm daga til þess að hreinsa til í skógræktinni. Áætlaður kostnaður kr. 450.000 verður færður sem styrkur á skógræktarfélagið. Vatnsinntak hefur þegar verið lagfært.

4.Styrkbeiðni frá Samtökum um kvennaathvarf

Málsnúmer 2006052Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Sigþrúðar Guðmundsdóttur fh. Samtaka um kvennaathvarf dags. 16.06.2020, þar sem óskað er eftir styrk frá sveitarfélögum á Norðurlandi eystra til þess að mæta húsnæðiskostnaði vegna áforma um opnun Kvennaathvarfs á Akureyri. Um tilraunaverkefni er að ræða sem áætlað er að fari af stað í ágúst og standi út apríl á næsta ári. Rekstur athvarfsins verður á ábyrgð Samtaka um kvennaathvarf en er samvinnuverkefni samtakanna, Bjarmahlíðar, Aflsins, Félagsmálaráðuneytis, Dómsmálráðuneytis og Akureyrarbæjar. Áætlaður kostnaður vegna húsnæðis er 2,5 mkr.

Bæjarráð samþykkir að styrkja samtökin um húsnæðiskostnað sem samsvarar hlutfallslega greiðslum sveitarfélagsins til Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eða um kr. 164.179. Styrk verður mætt með lækkun á handbæru fé.

5.Undirkjörstjórn í Ólafsfirði - 36. fundur - 18. júní 2020

Málsnúmer 2006014FVakta málsnúmer

Framlögð fundargerð staðfest.
  • 5.1 2006030 Undirbúningur forsetakosninga
    Undirkjörstjórn í Ólafsfirði - 36. fundur - 18. júní 2020. 1. Kjörskráin lögð fram undirrituð af Guðrúnu Sif Guðbrandsdóttur.
    2. Ræddum um fyrirkomulag á kjördag.
    3. Starfsmenn Fjallabyggðar koma fyrir kjörklefum á morgun, föstudag 19. júní.
    4. Kjördeild verður í Menntaskólanum á Tröllaskaga.
    5. Félag eldri borgara í Ólafsfirði ætlar að sjá um dyravörslu.
    6. Kjörfundur stendur frá kl. 10:00 til 22:00.
    Bókun fundar Afgreiðsla 36. fundar Undirkjörstjórnar í Ólafsfirði staðfest á 658. fundi bæjarráðs með 3 atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 08:30.