Starfsmannahald og rekstur Fjallabyggðahafna

Málsnúmer 2501019

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 858. fundur - 10.01.2025

Fyrir liggur minnisblað frá bæjarstjóra um starfsmannahald og rekstur Fjallabyggðahafna og tillaga að úrlausn þegar yfirhafnarvörður lætur af störfum 31.janúar n.k.
Vísað til nefndar
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti þá tillögu að úrlausn á mönnun Fjallabyggðahafna sem fyrir liggur en leggur áherslu á að auglýst verði með almennum hætti eftir áhugasömum aðilum, sbr. tillaga 3 í minnisblaði. Málinu vísað til umfjöllunar í hafnarstjórn.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 149. fundur - 20.01.2025

Fyrir liggur minnisblað og tillaga um úrlausn varðandi mönnun Fjallabyggðahafna en málinu var vísað til hafnarstjórnar af bæjarráði.
Samþykkt
Hafnarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs, þ.e. að verkefnum hafnarinnar verði útvistað að hluta á álagstímum með það að markmiði að auka hagræði í rekstri. Hafnarstjóra falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 150. fundur - 05.03.2025

Hafnarstjóri greindi frá því að tveir aðilar hefðu sýnt því áhuga að sinna þeim verkefnum hafnarinnar sem auglýst var eftir, þ.e. Síldarminjasafnið og FMS.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Hafnarstjóra falið að setja upp drög að samstarfssamningum við Síldarminjasafnið og FMS um að sinna þeim verkefnum hafnarinnar sem auglýst var eftir og leggja fyrir hafnarstjórn á næsta fundi.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 151. fundur - 28.05.2025

Fyrir liggur samkomulag við Síldarminjasafnið vegna vöktunar skemmtiferðaskipa sumarið 2025. Starfsmenn safnsins hafa lokið tilskyldum námskeiðum vegna þessa og samkomulag er staðfest af safnstjóra.

Enn er beðið viðbragða frá Fiskistofu og HMS á umsókn um undanþágu á leyfi til vigtunar fyrir aðra starfsmenn en starfsmenn hafnarinnar og þegar þau mál skýrast verða drög að samkomulagi við FMS um verkefni við höfnina kynnt í nýrri framkvæmda-,veitu- og hafnarnefnd.
Samþykkt
Hafnarstjórn staðfestir fyrirliggjandi samkomulag við Síldarminjasafnið vegna vöktunar skemmtiferðaskipa sumarið 2025. Hafnarstjórn felur jafnframt hafnarstjóra að leggja drög að samkomulagi við FMS um verkefni við höfnina fyrir nýja nefnd framkvæmda, hafna og veitna þegar nauðsynleg gögn liggja fyrir.

Framkvæmda-, hafna og veitunefnd Fjallabyggðar - 1. fundur - 19.08.2025

Hafnarstjóri fór yfir rekstrarstöðu hafnarsjóðs miðað við fyrstu 7 mánuði ársins og greindi jafnframt frá því að Leno H Passaro hefur sagt starfi sínu lausu sem hafnarvörður Fjallabyggðar.
Samþykkt
Rekstur hafnarinnar það sem af er ári er að mestu í samræmi við áætlanir.
Í ljósi þeirrar þróunar sem fyrirsjáanleg er fyrir næsta rekstrarár m.a. með færri komum skemmtiferðaskipa leggur nefndin áherslu á að skoðaðir verði möguleikar á allri hagræðingu er snýr að rekstri Fjallabyggðarhafna. Nefndin felur hafnarstjóra og sviðsstjóra að leggja fram tillögur um útfærslur á starfsmannahaldi og öðrum rekstrarþáttum fyrir næsta fund nefndarinnar.

Framkvæmda-, hafna og veitunefnd Fjallabyggðar - 2. fundur - 22.09.2025

Hafnarstjóri lagði fram vinnuskjal um tímabundið fyrirkomulag starfsmannahalds við Fjallabyggðarhöfn. Rekstrarafkoma hafnarinnar hefur versnað verulega á síðustu árum, tekjur hafa minnkað á meðan kostnaður hefur aukist. Rekstrarafkoma ársins 2024 var aðeins um 20% af því sem hún var árið 2019. Gera má ráð fyrir enn meiri samdrætti á næstu árum standist sú áætlun að komur skemmtiferðaskipa muni fækka um 65-70% á milli áranna 2025 og 2026.
Samþykkt
Nefndin samþykkir tímabundið fyrirkomulag starfsmannahalds við Fjallabyggðarhöfn til 1.nóvember n.k. og felur hafnarstjóra að vinna málið áfram fyrir næsta fund nefndarinnar.

Framkvæmda-, hafna og veitunefnd Fjallabyggðar - 3. fundur - 21.10.2025

Fyrir liggur greinargerð og tillaga hafnarstjóra um skipulag starfsmannahalds og rekstur Fjallabyggðarhafna. Gert er ráð fyrir því í tillögu að auglýst verði starf hafnarvarðar og gert ráð fyrir að viðkomandi geti hafið störf eigi síðar en 1. janúar n.k. Jafnframt er gert ráð fyrir því að samningur við FMS verði útvíkkaður út árið 2026 og sinni starfsmenn FMS ýmsum störfum sem falla til eftir álagi hverju sinni.
Samþykkt
Nefndin felur hafnarstjóra að auglýsa starf hafnarvarðar laust til umsóknar og gera tillögu að samningi við FMS í samræmi við áður gert samkomulag.