Frístundastyrkir Fjallabyggðar - reglur

Málsnúmer 1611062

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 477. fundur - 29.11.2016

Lögð fram drög að uppfærðum reglum um frístundastyrki.

Samkvæmt reglunum er upphæð frístundarstyrks fyrir árið 2017 kr. 20.000.
Sendar eru út tvær ávísarnir hver að upphæð kr. 10.000.

Bæjarráð samþykkir uppfærðar reglur um frístundastyrki.
Jafnframt er deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála falið að birta þær á heimasíðu Fjallabyggðar og auglýsa vel, þegar bæjarstjórn hefur staðfest reglurnar.

Sólrún Júlíusdóttir óskað að eftirfarandi yrði bókað:
"Við samanburð á skólagjöldum Tónskólans á milli ára, þá kemur í ljós að hækkun sem foreldrar í Fjallabyggð verða að greiða vegna barna sinna er kr. 19.966 á ári eða um 37,8% hækkun. Þetta stafar af því að verið er að samræma gjöldin í Fjallabyggð og á Dalvík vegna sameiningar á Tónskólunum. Ljóst er að þessi hækkun mun koma ungu fjölskyldufólki afar illa og því þarf að koma til móts við auknar álögur á íbúa sveitarfélagsins. Þá eru einnig önnur gjöld sem eru að hækka verulega milli ára, t.d. leikskólagjöld.

Í ljósi þessa legg ég til að samræmi verði einnig á frístundastyrk á milli þessara tveggja sveitarfélaga, þannig að börn í Fjallabyggð fái sambærilegan frístundastyrk og börn á Dalvík.
Því legg ég til að frístundastyrkurinn í Fjallabyggð verði kr. 60.000 í stað 20.000".

Steinunn María Sveinsdóttir, S. Guðrún Hauksdóttir og Ríkharður Hólm Sigurðsson bókuðu eftirfarandi:
"Hækkun á skólagjöldum í Fjallabyggð vegna sameiningar Tónskóla Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar hefur ekkert með ákvörðun um upphæð frístundastyrks að gera.

Meirihluti bæjarráðs vill vekja athygli á því að fulltrúar Framsóknarflokks samþykktu fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2017 bæði í bæjarráði og bæjarstjórn athugasemdalaust og bárust engar breytingartillögur á milli umræðna. Því vekur það furðu að bæjarfulltrúi Framsóknarflokks leggi þessa tillögu fram þegar einungis er liðin rúm vika frá því að fjárhagsáætlun var samþykkt."

Sólrún Júlíusdóttir óskað að eftirfarandi yrði bókað:
"Það er mín skoðun að gjaldskrárhækkanir á barnafjölskyldur hafi farið langt fram úr öllu velsæmi, þegar allt er tiltalið, enda kemur það fram í áætluðum rekstrarhagnaði sveitarfélagsins uppá 177 m.kr. Til mín hafa leitað barnafjölskyldur, sem hafa verulegar áhyggjur af auknum álögum. Á þessar raddir ber bæjarfulltrúum að hlusta. Undirrituð viðurkennir mistök í auknum álögum á barnafjölskyldur og þau ber að lagfæra".

Steinunn María Sveinsdóttir, S. Guðrún Hauksdóttir og Ríkharður Hólm Sigurðsson bókuðu eftirfarandi:
"Meirihluti bæjarráðs harmar að bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins hafi ekki verið betur inni í málunum við afgreiðslu gjaldskráa og fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 en raun ber vitni. Meirihluti bæjarráðs vill taka fram að gjaldskrá Tónskólans á Tröllaskaga er ein sú lægsta á landinu. Þá eru leikskólagjöld hækkuð um 5,5% á milli ára eða sem nemur um 1400 kr. á mánuði fyrir 8 tíma vistun. Á sama tíma hafa laun hjá bæjarfélaginu hækkað um 14% á árinu 2016 og því mikilvægt að bregðast við".

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 48. fundur - 05.12.2017

Endurskoðun reglna um Frístundastyrki. Uppfæra þarf reglurnar með tilliti til þeirra breytinga sem verða á styrknum fyrir árið 2018. Ákveðið hefur verið að styrkupphæðin hækki í kr. 30.000 og gefnar verði út sex ávísanir, hver að upphæð kr. 5000.

Ungmennaráð Fjallabyggðar - 16. fundur - 13.12.2017

Ungmennaráð fagnar hækkun á frístundastyrk til barna á aldrinum 4-18 ára úr kr. 20.000 í kr. 30.000. Ungmennaráð hvetur sveitarfélagið til að hækka frístundastyrk enn frekar á næstu árum. Einnig er það skoðun Ungmennaráðs að sex 5000 kr ávísanir séu hentugri en 10.000 kr ávísanir líkt og í fyrra.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 66. fundur - 22.01.2019

Endurskoðaðar reglur um frístundastyrki Fjallabyggðar lagðar fram til kynningar. Frístundastyrkur til barna á aldrinum 4-18 ára er kr. 32.500 fyrir árið 2019.
Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir breytingar á reglum.

Ungmennaráð Fjallabyggðar - 20. fundur - 06.02.2019

Farið yfir reglur um frístundastyrki Fjallabyggðar fyrir árið 2019. Um síðustu áramót hækkuðu styrkir úr 30.000 kr í 32.500 kr. Ungmennaráð fagnar því að styrkurinn hafi hækkað um síðustu áramót og vonar að hann muni hækka meira á næstu árum. Ungmennaráð segir að barnmörgum fjölskyldum muni verulega um að geta nýtt frístundaávísanir við greiðslu á tónlistarnámi og íþróttaiðkun barna.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 78. fundur - 11.11.2019

Reglur um frístundastyrki til barna á aldrinum fjögurra til átján ára uppfærðar m.t.t. næsta fjárhagsárs. Árið 2020 verður frístundastyrkur til barns kr. 35.000 og hækkar um 2.500 kr á milli ára.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 629. fundur - 19.11.2019

Lögð fram drög að endurskoðuðum reglum um frístundastyrki Fjallabyggðar.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir drögin fyrir sitt leyti og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Jón Valgeir Baldursson H-lista situr hjá við afgreiðslu á drögunum og leggur fram eftirfarandi bókun:
H-listinn í Fjallabyggð leggur til að frístundastyrkurinn verði hækkaður í kr. 40.000 á árinu 2020 og að hann verði á rafrænu formi.

Ungmennaráð Fjallabyggðar - 24. fundur - 16.12.2019

Farið yfir reglur um frístundastyrki 2020 en Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur hækkað frístundastyrk til barna á aldrinum 4-18 ára um 2500 krónur og er frístundastyrkur pr. barn því 35000 krónur fyrir árið 2020. Ungmennaráð fagnar þessari hækkun og vill koma því á framfæri að foreldrum munar mikið um þennan styrk, sérstaklega þar sem börn eru mörg eða þar sem fólk hefur ekki mikið á milli handanna.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 91. fundur - 16.11.2020

Fræðslu- og frístundanefnd leggur til að frístundastyrkir til barna á aldrinum 4.-18. ára verði kr. 37.500 á árinu 2021 og vísar til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 105. fundur - 24.11.2021

Vísað til umsagnar og afgreiðslu
Undir þessum lið sat forstöðumaður íþróttamannvirkja.
Fræðslu- og frístundanefnd fór yfir reglur um frístundastyrki 2022. Frá 1. janúar 2022 verður frístundastyrkjum útdeilt rafrænt gegnum Sportabler og leggur nefndin til breytingar á reglum um úthlutun frístundastyrkja í samræmi við það og vísar tillögu að breyttum reglum til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Ungmennaráð Fjallabyggðar - 30. fundur - 07.12.2021

Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir uppfærðar reglur um Frístundastyrki Fjallabyggðar til barna á aldrinum 4.-18. ára. Fyrirhugað er að útdeiling frístundastyrkja verði rafræn frá og með 1. janúar 2022 og að styrkurinn verði kr. 40.000 á árinu 2022.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 118. fundur - 05.12.2022

Drög að breytingum á reglum um frístundastyrki Fjallabyggðar, fyrir börn á aldrinum 4-18 ára, lögð fram til kynningar.
Lagt fram til kynningar
Drög að reglum um frístundastyrki Fjallabyggðar lögð fram til kynningar. Minniháttar breytingar eru gerðar á reglunum, helst varðandi styrkupphæð en frístundastyrkir verða 45.000 kr árið 2023, sem gerir hækkun um 5000 kr. frá gildandi reglum. Frístundastyrkir eru veittir gegnum forritið Sportabler og fer þar fram öll umsýsla með styrkina.

Ungmennaráð Fjallabyggðar - 34. fundur - 14.12.2022

Farið yfir drög að breytingum á reglum um frístundastyrki Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar
Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir drög að endurskoðuðum reglum um frístundastyrki Fjallabyggðar 2023. Fyrirhugað er að styrkupphæð hækki í 45.000 kr. til barna á aldrinum 4. til og með 18. ára.