Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

130. fundur 02. febrúar 2012 kl. 17:00 - 17:00 í fundarherbergi í Ólafsfirði
Nefndarmenn
  • Kristinn Gylfason formaður
  • Magnús Albert Sveinsson varaformaður
  • Sigurður Hlöðversson aðalmaður
  • Jón Árni Konráðsson aðalmaður
  • Hilmar Þór Elefsen aðalmaður
  • Valur Þór Hilmarsson garðyrkju- og umhverfisfulltrúi
  • Ármann Viðar Sigurðsson Deildarstjóri Tæknideildar
Fundargerð ritaði: Valur Þór Hilmarsson Umhverfisfulltrúi

1.Deiliskipulag Hóls- og Skarðsdals

Málsnúmer 1010082Vakta málsnúmer

Deiliskipulag fyrir Hóls- og Skarðsdal var auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 21. október til og með 1. desember 2011.
Deiliskipulagsvæðið er u.þ.b. 773 ha að stærð og tekur yfir dalbotn Hólsdals og hliðardalinn Skarðsdal.
Þar er skipulagt útivistarsvæði með skíðasvæði, golfvelli, skógrækt, knattspyrnusvæði, tjaldsvæði, frístundahúsum, þjónustureit o.fl.
Forsendur skipulagsins er m.a. tillaga að snjóflóðahættumati fyrir svæðið sem er í kynningu.

Á auglýsingartíma bárust 2 athugasemdir.

Frá Skógræktarfélagið Siglufjarðar.

1.  Reitir merktir F1, F2, F3 og F4 frístundahús verði felldir út.
Ekki kemur til greina að gert verði ráð fyrir frístundahúsum á aðal vinnusvæði og aðkomu að Skógræktinni í Skarðsdal.
Þar eru fyrir vinnuskúr og áhaldageymsla ásamt snyrtingu fyrir starfsfólk og gesti Skógræktarinnar einnig vinnusvæði og gróðursetningarreitir sem búið er og verið er að gróðursetja í.


2.  Grænir blettir merktir sem hluti golfvallar þurfa nánari athugunar við bletti sunnan merkts bílastæðis golfvallar eru svæði sem síðastliðin 20-30 ár hafa verið reitir sem skólabörn og skólaárgangar hafa plantað í og ekki verður eyðilagt.
Svæði sem færi undir bílastæði og golfskála þarf einnig að skoða og hvað af plöntum og landssvæði færi úr skógrækt og hvað þá kæmi í staðinn.


3.  Svæði sunnan Leyningsár sem golfklúbburinn hefur hug á að fá, er þegar búinn að planta í nokkur þúsund plöntum og er þinglýst með samningi milli Bæjarstjórnar Siglufjarðar og Skógræktarfélags Siglufjarðar og Skógræktarfélags Íslands ásamt samningi um plöntun Landgræðsluplantna.

Þar þyrfti að taka tillit til hvað færi af trjám undir og hvernig yrði bætt.
Á þessu svæði eru einnig rústir og minjar fyrri búsetu á svæðinu sem þarf að varðveita.
Einnig þarf að taka tillit til að þetta sker sundur samfellu í skógræktarsvæðinu.


4.  Skipulag svæðisins þarf að gera ráð fyrir að starfsfólk skógræktarinnar ásamt gestum fólksvangsins komist um svæðið með tól og tæki bæði til umhirðu og grisjunar ásamt því að njóta þessarar "Perlu Fjallabyggðar".


5.  Við gerð slóða og vinnuvega um svæðið þarf að passa upp á að hægt sé að komast um ásamt því að ræsi eða brýr séu rétt gerð svo ekki skaði gönguleiðir bleikju eins og nú er með ræsið yfir Leyningsá.


6.  Skógræktarfélagið vonar að góð samvinna milli aðila geti gert allt svæðið að frábæru útivistarsvæði fyrir íbúa Fjallabyggðar og gesti.
Allt bætt aðgengi um útivistarsvæðið í Hóls og Skarðsdal ásamt lagfæringum og frágangi á efnisnámum neðan skógræktarinnar er gott mál og ætti að vera dálitíð metnaðarfullt verkefni fyrir sveitarfélagið.
Skógræktarfélagið bendir á að talsverð umferð er um Hólsdalinn sérstaklega á veiðitíma í Hólsánni svo og berjatímanum í hlíðum fjallanna beggja vegna ásamt hestasporti, göngu og skíðagöngufólki.

Svar nefndar við athugasemdum Skógræktarfélags Siglufjarðar.
Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar ábendingarnar og svarar athugasemdum lið fyrir lið:

1.
  
Nefndin samþykkir athugasemd vegna frísstundahúsa á umráðasvæði Skógræktarinnar og fellst á að byggingarreitir fyrir frístundahús, merktir F1, F2, F3 og F4 verði felldir út af deiliskipulaginu.

2.
  
Nefndin þakkar ábendingu vegna grænna bletta og svæðis skilgreint fyrir golfskála og bílastæði og þess að þar eru plöntur með tilfinningalegt gildi. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að allt rask á trjáplöntum verði sem allra minnst og að fullt tillit verði tekið til sjónarmiða Skógræktarfélagsins við nánari útfærslur á svæðinu. Nefndin áréttar að framkvæmdaraðilar hagi verklagi þannig að sem allra mest af plöntum sem lenda innan rask svæða verði fluttar til og endur gróðursettar á viðunandi svæðum. Teigar og æfingaflatir sem merktar eru sem grænir fletir verða mótaðir nákvæmlega eftir landslagi á hverjum stað og tillit tekið til núverandi trjálunda.

3.
  
Vegna beinna svæða sem þarf að ryðja af plöntum vegna framkvæmda við golfvöll er um að ræða svæði undir brautir (dökk grænar á uppdrætti) sem eru ca. 1,3 ha að flatarmáli. Í jöðrum þeirra er gert ráð fyrir svæðum með villtum gróðri. Á golfvöllum þykir eftirsóknarvert að hafa náttúrulegar hindranir á borð við tré, runna og tjarnir. Við hönnun vallarins verður leitast við að samfelld trjáþekja nái að mótast norðan og sunnan Leyningsár þar sem golfbrautirnar muni teygjast upp eftir hlíðinni í trjáþykkninu. Leitast verði við að flytja sem mest af núverandi trjágróðri sem falla muni undir golfbrautirnar sjálfar og gróðursetja á viðeigandi stöðum innan skipulagssvæðisins og/eða innan sveitarfélagsins. Samningsatriði er hvort og/eða hvernig þær verði bættar og felur nefndin bæjarstjóra að taka upp viðræður við Skógræktarfélagið vegna þessa.
Fornminjar eru merktar inn á uppdrátt og áhersla á varðveislu þeirra. Í skipulaginu er m.a. lagt til að gamli bæjarhóll Leynings verði gerður betur sýnilegur sem áningarstaður með upplýsingaskilti og bekkjum.

4.  Í deiliskipulagsáætluninni er gert ráð fyrir 4 metra breiðum uppbyggðum stofnstígum sem þjónusti einnig nauðsynlega þjónustuumferð um svæðið þ.á.m. skógræktarfólks vegna rekstrar skógræktarsvæðisins. Ekki er gert ráð fyrir almennri umferð vélknúinna ökutækja um stígana nema skv. nánari umgengnisreglum sem nefndin setji, svo sem á berjatíma og vegna sérstakra viðburða.

5.  Nefndin þakkar og styður ábendingu um mikilvægi þess að framkvæmdir á svæðinu trufli ekki aðra umferð. Við gerð deiliskipulagsins var samráð haft við Bjarna Jónsson, fiskifræðing, vegna mótunar á og við Fjarðará og Leyningsár og til að tryggja að tillit sé tekið til hagsmuna tengdum veiðum og þátta varðandi uppeldi og viðhald fiskistofna. Hann mun einnig aðstoða við frekari útfærslu og eftirlit framkvæmda sem gert er ráð fyrir í skipulaginu.

6.  Nefndin er sammála því að um metnaðarfullt verkefni sé að ræða og vonast til þess að sveitarfélagið ásamt framkvæmdaraðilum geti unnið saman í nánu samstarfi við alla hagsmunaaðila við nánari útfærslu og framkvæmd deiliskipulagsins öllum aðilum og bæjarbúum til hagsbóta.

Frá Hestamannafélaginu Glæsi.
* Hestamannafélagið Glæsir á reiðveginn í Hólsdal og samþykkir ekki breytta nýtingu á honum.
* Það gengur ekki upp að golfkúlur séu slegnar yfir reiðveg.
* Golfklúbburinn hefur gert athugasemdir ef riðið hefur verið á gömlum slóðum í nálægð golfvallar austan Hólsár sbr. myndskreitt skammarbréf - undarlegt er að þessi sambúð eigi að ganga betur vestan ár.
* Við höfnum því að tekin séu af beitarhólf.

Svör nefndarinnar við athugasemdum frá Hestamannafélaginu Glæsi.
Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar ábendingarnar og svarar athugasemdum lið fyrir lið:

1.   Nefndin bendir á að markmið deiliskipulagsins er að nýting útivistarsvæðisins sem skipulagið tekur til verði meiri og víðtækari en nú er og fleiri markhópar hafi þar gott aðgengi og möguleika til útivistar. Aðgengi og umferð hestamanna er einnig aukið og bætt með auknum reiðstígum innan svæðisins. Markmið nefndarinnar er að tillit sé tekið til allra þeirra sem um svæðið vilja og þurfa að fara og telur hún að skipulagið uppfylli þau skilyrði.

2.   Almennar umgengnisreglur í golfi eru á þann veg að ekki er slegið í kúlu ef fólki eða dýrum stafar hætta af högginu. Útfærsla golfvallarins í skipulagsáætluninni er á þann veg að lámarka að golfkúlur séu slegnar yfir reiðveg og jafnframt að í þeim tilfellum sem svo  er að skyggni sé gott þannig að leynd hætta sé ekki til staðar. Hverri golfbraut fylgja nokkrir upphafsteigar en notkun þeirra fer eftir getu hvers einstaklings. Í einstaka tilfellum er slegið af upphafsteigum sem eru staðsettir það aftarlega að slá þarf yfir reið-, tengi- eða aðalstíg. Eingöngu mjög vanir golfarar slá af þessum teigum. Nálægð teiganna við stígana veldur því að högghornið er mjög þröngt, höggskekkja því lítil, auk þess sem auðvelt er að fylgjast með umferð um stígana áður en slegið er. Ætti þetta fyrirkomulag ásamt umgangisreglum því ekki að hafa áhrif á umferð annarra eftir skipulögðu stígakerfi.

3.   Útivistarsvæði í nálægð þéttbýlis eru takmörkuð í Fjallabyggð og því mikilvægt að góð samnýting geti átt sér stað. Fylgja þarf ákveðnum og skilgreindum umgengnisreglum á svæðum þar sem ólíkir marhópar deila saman svæði. Í skipulaginu er lögð áhersla á að koma til móts við ólíkar þarfir hagsmunahópa og varast að skapa óþarfa árekstra.

4.   Nefndin er sammála að sveitarfélagið þarf að leitast við að leggja til sambærilegt landsvæði til beitar og það sem fer undir aðra landnotkun samkvæmt skipulaginu. Litið er til m.a. Finnhóla í því tilliti. Í skipulagsáætluninni er gert ráð fyrir að Finnhólar verði nýttir sem tjaldsvæði í framtíðinni en ólíktlegt er að það svæði verði útfært ítarlega í náinni framtíð. Finnhólar geti því orðið tímabundið beitarhólf þar til endanlegra svæði t.d. á uppgræðslusvæðum í Skútudal eru nýtanleg.

2.Fiskvinnsla

Málsnúmer 1201104Vakta málsnúmer

Fyrir hönd Betri vara ehf. sækir Svanfríður Halldórsdóttir um leyfi til að hefja tilraunavinnslu í húsi Knolls ehf. að Múlavegi 7, Ólafsfirði.  Um er að ræða samskonar vinnslu á laxi, bleikju og öðrum fiski eins og framkvæmd var í vinnsluhúsinu í Hlíð sem eyðilagðist í bruna 8. janúar 2012.

Erindi samþykkt.

3.Lóðaleigusamningur

Málsnúmer 1201092Vakta málsnúmer

Lagður er fram lóðaleigusamningur ásamt lóðarblaði  fyrir Háveg 5, Siglufirði.

Erindi samþykkt.

4.Lyfta og lyftuhús Aðalgötu 10

Málsnúmer 1110121Vakta málsnúmer

Á fundi nefndarinnar 26.10.2011 var tekið fyrir erindi Katrínar Andersen fyrir hönd Joachims ehf um leyfi til uppsetningar á lyftu og lyftuhúsi á norðurhlið húseignar Aðalgötu 10, Siglufirði.

Óskað var eftir fullnægjandi teikningum, sem nú hafa borist.

Erindi samþykkt.  

5.Umsókn um búfjárhald

Málsnúmer 1201078Vakta málsnúmer

Kristín Úlfsdóttir sækir um leyfi fyrir 3 hesta í eigin hesthúsi við Fákafen 9, Siglufirði.

Erindi samþykkt.

6.Umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 0909127Vakta málsnúmer

Jón Árni Konráðsson sækir um byggingarleyfi fyrir vélageymslu og fjárhúsi samkvæmt meðfylgjandi teikningum.

Við afgreiðslu þessa liðs vék Jón af fundi.

Erindi samþykkt.

7.Umsókn um leyfi til búfjárhalds

Málsnúmer 1201034Vakta málsnúmer

Agnar B. Víglundsson  og fjölskylda sækir um leyfi fyrir 45 kindur í fjárhúsi við Hólkot, Ólafsfirði.

Erindi samþykkt.

8.Vatnsvandamál Suðurgötu 58 (Höfn) á Siglufirði

Málsnúmer 1201102Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi frá Arnari Ingólfssyni eiganda Suðurgötu 58, Siglufirði varðandi vatnsvandamál við húseignina.

Komið hefur í ljós veruleg aukning bleyti á lóð sunnan við hús, vatn farið að koma í gegnum stuðningsvegg sem er neðan við hús við götuna sem ekki var áður, sami veggur er farinn að hallast inn á við eins og vatnið sé farið að grafa undan veggnum, vatn farið að koma inn um vegg í kjallara útihúss við Háveg 59 sem er nýtilkomið og svo kom í ljós þegar verið var að endurnýja skólplagnir við hús Suðurgötu 58 að mikill vatnselgur var undir grunni á húsi.

Tæknideild er falið að fá óháðan aðila í samráði við Ofanflóðasjóð til að skoða málið.

9.Deiliskipulag hesthúsa- og frístundasvæði, Siglufirði. Breyting

Málsnúmer 1108019Vakta málsnúmer

Breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulagstillögu að hesthúsa- og frístundasvæði, Siglufirði þar sem fjárhúsalóðum við Lambafen hefur verið fækkað úr 6 í 3 lóðir og hesthúsalóðum við Faxafen fækkað úr 6 í 4 lóðir.  Gert er ráð fyrir að svæðin sem lóðirnar voru fjarlægðar af verði beitarhólf. 

Erindi samþykkt og tæknideild falið að senda það til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun.

10.Hafnsækin starfsemi í Fjallabyggð

Málsnúmer 1103010Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.