Bæjarstjórn Fjallabyggðar

232. fundur 07. júlí 2023 kl. 12:00 - 12:50 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir bæjarfulltrúi, D lista
  • Tómas Atli Einarsson bæjarfulltrúi, D lista
  • Helgi Jóhannsson bæjarfulltrúi, H lista
  • Guðjón M. Ólafsson bæjarfulltrúi, A lista
  • Sæbjörg Ágústsdóttir bæjarfulltrúi, A lista
  • Þorgeir Bjarnason bæjarfulltrúi, H lista
  • Arnar Þór Stefánsson bæjarfulltrúi, A lista
Starfsmenn
  • Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri
  • Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Í upphafi fundarins bar forseti bæjarstjórnar upp tillögu um dagskrárbreytingu, á þann veg að taka fyrir mál 2307027 - Þyrluflug á vegum skemmtiferðaskipa og setja það sem 4. dagskrárlið.
Samþykkt með 7 greiddum atkvæðum.

1.Húsnæðisáætlun 2023

Málsnúmer 2301046Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað bæjarstjóra og deildarstjóra félagsmáladeildar um þörf á sértækum húsnæðisúrræðum í Fjallabyggð, með áherslu á aðgengi hreyfihamlaða, með altæka hönnun að leiðarljósi þar sem tekið er mið af ólíkum þörfum íbúa.
Fram kemur að brýn þörf er á að fjölga húsnæðisúrræðum til langtímaleigu fyrir fatlað fólk og öryrkja í Fjallabyggð, með áherslu á ásættanlegar lausnir varðandi aðgengi, innhúss sem utan. Núverandi leiguíbúðarkerfi uppfyllir aðeins að hluta til þá þörf sem til staðar er í bæjarfélaginu.
Til að bæta úr þessu ástandi er mælt með að Fjallabyggð festi kaup á viðeigandi og hentugum leiguíbúðum sem flokkaðar verði sem sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og öryrkja, sbr. ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, 2. gr. 11. töluliður. Horft er til þess að íbúar í þessum íbúðum geti búið í sjálfstæðri búsetu með stuðningi, samkvæmt þjónustumati. Einnig er horft til þess að Fjallabyggð hafi til ráðstöfunar og úthlutunar sértæk húsnæðisúrræði sem ekki krefjast aðkomu einstakra húsnæðisfélaga.
Af því tilefni er lagður fram viðauki nr. 12 við fjárhagsáætlun 2023 þar sem fjárheimildir til fjárfestinga í sértæku húsnæði sbr. ofangreint eru auknar um kr. 67.000.000 og verður mætt með lækkun á handbæru fé.

Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson og Sigríður Ingvarsdóttir tóku til máls.
Bæjarstjórn þakkar deildarstjóra félagsmáladeildar og bæjarstjóra fyrir minnisblaðið og samþykkir framlagðan viðauka nr. 12 við fjárhagsáætlun 2023.

2.Tillaga H-listans vegna byggingu íbúðarhúsnæðis í Ólafsfirði

Málsnúmer 2307009Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga H-listans vegna byggingu íbúðarhúsnæðis í Ólafsfirði

H-listinn leggur hér fram eftirfarandi tillögu í þremur liðum.
a) Að hafin verði vinna við að deiliskipuleggja svæðið norðan við hús eldri borgara í Ólafsfirði að Aðalgötu með það fyrir augum að byggja þar hentugt húsnæði, raðhús, á einni hæð.
b) Einnig verði kannað hvort skynsamlegt geti verið að breyta núverandi deiliskipulagi við Bakkabyggð og Mararbyggð þannig að hægt verði að koma þar fyrir lóðum fyrir par- og raðhús og er aðallega horft til lóða norðan við göturnar. Engar skipulagðar lóðir eru fyrir par- eða raðhús í Ólafsfirði í dag.
c) Að bæjarstjóra verði falið að hefja viðræður við leigufélögin Brák og Bríeti um aðkomu þeirra og kaupum á nýjum íbúðum í Ólafsfirði. Markmiðið er að framkvæmdir við verkefnið gætu hafist árið 2024.

Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson, Arnar Þór Stefánsson og S. Guðrún Hauksdóttir tóku til máls.
Vísað til nefndar
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu H-listans og vísar henni til afgreiðslu í skipulags- og umhverfisnefnd.

3.Trúnaðarstöður samkvæmt samþykktum Fjallabyggðar 2022 - 2026

Málsnúmer 2205076Vakta málsnúmer

Kosning í bæjarráð skv. A-lið 46. gr. samþykktar um stjórn Fjallabyggðar. Forseti bæjarstjórnar lagði fram tillögu um að aðalmenn í bæjarráði yrðu: Guðjón M. Ólafsson formaður, A-lista, S. Guðrún Hauksdóttir varaformaður, D-lista og Helgi Jóhannsson, H-lista.
Til vara : Sæbjörg Ágústsdóttir A-lista, Tómas Atli Einarsson, D-lista og Þorgeir Bjarnason, H-lista.
Samþykkt
Samþykkt með 7 greiddum atkvæðum.

4.Þyrluflug á vegum skemmtiferðaskipa

Málsnúmer 2307027Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Gáru ehf. um leyfi til að nota þyrlu í Fjallabyggð við komu skemmtiferðaskipsins Scenic Eclipse II til Siglufjarðar þann 28. júlí 2023.

Sigríður Ingvarsdóttir og Tómas Atli Einarsson tóku til máls.
Samþykkt
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti þyrluflug á vegum skemmtiferðaskipa innan Fjallabyggðar. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að leiðbeina og afgreiða erindi um leyfi til þyrluflugs.

Fundi slitið - kl. 12:50.