Fjárhagsáætlun - launaliður leikskólans

Málsnúmer 1407038

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 348. fundur - 22.07.2014

Lagður fram tölvupóstur frá leikskólastjóra Fjallabyggðar. Þar kemur fram að endurskoða þurfi launaliði leikskólans fyrir árið 2014.

Bendir leikskólastjóri á nokkrar ástæður.

1.  Fjölgun barna umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun. Um er að ræða tvö stöðugildi við nýja deild eftir sumarleyfi leikskólans.

2.  Aukin sérkennsluþörf, en um er að ræða 75% stöðugildi.

3.  Aukið álag í eldhúsi, en um er að ræða 25% stöðugildi.

4.  Aukinn undirbúningstími vegna fjölgunar faglærðra starfsmanna við leikskólann og áætlar leikskólastjóri aukninguna um 35% - 40% starfshlutfalli.

5.  Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir 2014 vegna endanlegra samninga verður að taka til skoðunar, þar sem laun hafa hækkað verulega umfram áætlun ársins.

6.  Meta þarf framlag úr veikindapotti vegna langtímaveikinda starfsmanna leikskólans.

 

Bæjarráð vísar erindinu til fagnefndar er varðar breytingar á mannahaldi, en óskar eftir því að launadeild meti þær áherslur sem koma fram í ábendingum leikskólastjóra sjá 5. og 6. lið hér að framan.

Bæjarráð leggur áherslu á að allar forsendur og tillögur að breytingum liggi fyrir á fundi bæjarráðs þriðjudaginn 5. ágúst n.k. Tillögurnar verða síðan til afgreiðslu í bæjarstjórn miðvikudaginn 13. ágúst.

 

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 10. fundur - 24.07.2014

Ásdís vék af fundi og Guðný tók sæti á fundinum að nýju.

Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 22. júlí s.l. og vísar því til umfjöllunar fræðslu og frístundanefndar. Leikskólastjóri óskar eftir heimild til að auka við stöðugildi við sérkennslu, 75% stöðugildi og í eldhúsi, 25% stöðugildi. Einnig er óskað eftir heimild til að auka við undirbúningstíma starfsfólks, 35-40% stöðugildi.

Nefndin tekur undir sjónarmið leikskólastjóra um þörf á auknum mannafla við leikskólann og fellst á  beiðni leikskólastjóra fyrir sitt leyti. Nefndin bendir jafnframt á að endurmeta og gera viðaukatillögu við aðra kostnaðarliði sem falla undir almennan rekstarkostnað leikskólans.

 

 

Bæjarráð Fjallabyggðar - 350. fundur - 05.08.2014

Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 22. júlí s.l. og vísar því til umfjöllunar fræðslu og frístundanefndar. Leikskólastjóri óskar eftir heimild til að auka við stöðugildi við sérkennslu þ.e. 75% stöðugildi þroskaþjálfa og í eldhúsi, 25% stöðugildi. Einnig er óskað eftir heimild til að auka við undirbúningstíma starfsfólks, 35-40% stöðugildi.

Nefndin tekur undir sjónarmið leikskólastjóra um þörf á auknum mannafla við leikskólann og fellst á beiðni leikskólastjóra fyrir sitt leyti.
Nefndin bendir jafnframt á að endurmeta og gera viðaukatillögu við aðra kostnaðarliði sem falla undir almennan rekstrarkostnað leikskólans.

Í framhaldi af bókun fræðslu og frístundanefndar voru neðantaldir boðaðir á fund bæjarráðs til að fara betur yfir málið fyrir fund bæjarstjórnar í næstu viku.

Á fund bæjarráðs mættu Kristín María Hlökk frá leikskóla Fjallabyggðar og Ríkey Sigurbjörnsdóttir skólastjóri Grunnskólans.

Bæjarráð felur deildarstjóra fjármála og stjórnsýslu að kostnaðarmeta framkomnar óskir fyrir næsta fund í bæjarráði í samvinnu við aðstoðarleikskólastjóra.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 351. fundur - 12.08.2014

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að viðauki við launaliði leikskólans fyrir haustið 2014 verði samþykktur.
Um er að ræða kr. 4,6 m.kr.

Bæjarráð leggur áherslu á að launaliðir leikskólans verði til skoðunar er varðar sérkennslu og stuðning í takt við viðræður við Dalvíkurbyggð um aukið samstarf.
Niðurstaða þarf að liggja fyrir við gerð fjárhagsáætlunargerðar.