28.10.2003
Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar í dag var samþykkt tillaga að reglum um úthlutun byggðakvóta á Siglufirði. Tillagan verður lögð fyrir Sjávarútvegsráðuneytið og er undir ráðuneyti komið hvort hún verður samþykkt eða ekki.Tillagan er eftirfarandi:1. gr.Reglur þessar eru settar á grundvelli reglugerðar nr. 596/2003 um úthlutun á 1.500 þorskígildislestum til stuðnings sjávarbyggðum.2. gr.Í samræmi við 3. gr. reglugerðar nr. 596/2003 skal skipta veiðiheimildum milli einstakra fiskibáta sem skráðir eru í Siglufirði. Skal úthluta til einstakra aflamarks- og krókaaflamarksbáta hlutfallslega miðað við heildaraflamark þeirra í botnfiski, í þorskígildum reiknað, miðað við úthlutun til þeirra á grundvelli aflahlutdeilda í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra báta ekki aukast um meira en 100% miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004 og enginn bátur skal fá meira en 15 þorskígildistonn miðað við óslægðan fisk. 3. gr.Bátum sem úthlutað er byggðakvóta er skylt að leggja til þorskígildi að lágmarki til jafns við úthlutaðan byggðakvóta af eigin kvóta og skoðast móttekin umsókn sem staðfesting viðkomandi á því að það verði gert. Umsækjendum er heimilt að bjóða fram aukið hlutfall eigin kvóta en að ofan greinir og getur það haft áhrif á hlutfallslega úthlutun byggðakvótans til aukningar þrátt fyrir ákvæði 2. gr.4. gr.Afla samkvæmt 2. gr. og 3. gr. er skylt að landa til vinnslu í Siglufirði. Skal umsókn um byggðakvóta fylgja undirrituð staðfesting fiskverkunar um móttöku aflans til vinnslu. Öllum afla samkvæmt þessari grein skal aflað fyrir lok fiskveiðiársins.5. gr.Úthlutaður byggðakvóti er ekki framseljanlegur. Selji bátaeigendur eða leigja frá sér eigin kvóta á því fiskveiðiári sem þeir fengu úthlutað byggðakvóta skulu þeir skila úthlutuðum byggðakvóta í sambærilegu magni. Þeim kvóta sem þannig verður skilað inn skal þá úthluta að nýju.6. gr.Í lok fiskveiðiárs skulu þeir bátaeigendur sem fengu úthlutað byggðakvóta skila til sveitarfélagsins skýrslu um landaðan afla til vinnslu í því fiskverkunarfyrirtæki sem þeir tilgreindu sem samstarfsaðila og skal skýrslan staðfest af viðkomandi fiskverkun. Verði skýrslu ekki skilað eða ákvæðum reglna þessara um löndun afla til vinnslu í Siglufirði verði ekki fullnægt skulu viðkomandi bátar ekki eiga rétt á úthlutun byggðakvóta komi til nýrrar úthlutunar á nýju fiskveiðiári.Ef Sjávarútvegsráðuneyti staðfestir reglurnar verður auglýst eftir umsóknum innan skamms.
Lesa meira
27.10.2003
Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt og teiknistofa hans, Landslag ehf., hafa verið nefnd til evrópskra verðlauna í landslagsarkitektúr fyrir hönnun fyrsta áfanga snjóflóðavarna á Siglufirði. Dómnefnd valdi 14 verkefni af alls 450, sem til álita komu, þar á meðal Siglufjarðarverkefnið. Verðlaunin kallast Barba Rosa-European Landscape Prize og eru nú veitt í þriðja sinn. Verðlaunaveitingin tengist sýningu og ráðstefnu á vegum arkitektasamtaka og arkitektaskóla í Barcelona og Katalóníu á Spáni. Tilnefndu verkefnin 14 verða sýnd í Barcelona 20. nóvember-11. desember nk. en ráðstefnan verður haldin dagana 27.–29. nóvember. Þar munu kynna höfundar kynna verk sín fyrir alþjóðlegri dómnefnd og nefndin tilkynnir að því loknu hvert þeirra hlýtur 1. verðlaun.Alþjóðleg viðurkenning af þessu tagi dregur athygli að því hvernig við Íslendingar bregðumst við óblíðum náttúruöflum með virðingu fyrir umhverfinu. Hún er vitanlega mikill heiður fyrir Landslag ehf. og íslenskan landslagsarkitektúr yfirleitt. Reyndar er sérstakt gleðilefni að þetta skuli gerast einmitt núna, á sama tíma og Landslag ehf. fagnar 40 ára samfelldum teiknistofurekstri Reynis Vilhjálmssonar. Snjóflóðagarðarnir á Siglufirði hafa vakið verulega athygli meðal fagfólks í hönnun erlendis. Þeir voru kynntir á hönnunarsýningu í Malmö árið 2002 fyrir milligöngu Form Ísland og um þá hefur verið fjallað í fagtímaritunum Landskab í Danmörku og Topos í Þýskalandi.Garðarnir, sem hér um ræðir, voru reistir neðan Jörundarskálar og Strengsgilja á Siglufirði á árunum 1998 og 1999. Þetta eru tveir leiðigarðar sem kallast Stóri-Boli og Litli-Boli. Nú er unnið að framkvæmd annars áfanga varnarvirkja á Siglufirði, þvergarða ofan byggðar.Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með verkinu sem kostað er af Ofanflóðasjóði og Siglufjarðarbæ. Auk Reynis Vilhjálmssonar/Landslags komu Norges Geotekniske Institutt og Þorsteinn Jóhannesson, verkfræðingur á Siglufirði, að frumhönnun fyrsta áfanga varnarvirkjanna. Verkfræðistofan Hnit hf. annaðist verkhönnun garðanna. Línuhönnun hf. sá um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og eftirlit með framkvæmdum Héraðsverk annaðist byggingu garðanna en Bás á Siglufirði uppgræðslu þeirra.
Lesa meira
23.10.2003
Siglufjarðarkaupstaður hefur óskað eftir tilboðum í viðbyggingu íþróttahússins þar sem m.a. á að koma upp líkamsræktaraðstöðu. Tilboð verða opnuð þann 4. nóvember nk. og skal verkinu vera að fullu lokið 31. mars á næsta ári. Teikningar af fyrirhugaðri viðbyggingu og aðstöðu verða m.a. til sýnis í íþróttahúsinu.
Lesa meira
14.10.2003
Íbúum á Siglufirði fjölgaði um 3 á tímabilinu júní til september, þ.e. ef aðfluttir voru þremur fleiri heldur en brottfluttir. Er þetta í fyrsta skipti síðan tekið var á móti flóttamönnum að fjölgun verður á þriggja mánaða tímabili sem Hagstofa miðar við. Á tímabilinu janúar til september voru brottfluttir hins vegar 6 fleiri heldur en aðfluttir þannig að fækkunin er 6 það sem af er árinu.
Lesa meira
10.10.2003
Körfuknattleiksdeild Glóa mun í vetur taka þátt í Íslandsmótinu í 2.deild. Heimaleikir liðsins verða þó leiknir í Reykjavík en hægt er að fylgjast með gengi liðsins á síðunni www.fjarkinn.tk.
Lesa meira
01.10.2003
Í tilefni 10 ára afmælis Leikskála var haldið hóf í húsakynnum leikskólans þriðjudagskvöldið 30. september. Þar voru starfsmenn og foreldrar leikskólans ásamt hópi fólks og/eða fulltrúum frá þeim stofnunum sem leikskólinn er í daglegu eða reglulegu samstarfi við. Í tilefni þessara tímamóta var gefin út skólanámskrá og formlega opnuð heimasíða leikskólans. Tengill síðunnar er www.siglo.is/leikskoliAmælisdagur leikskólans er hins vegar 29. ágúst og þann dag var haldin barnvæn veisla í leikskólanum með börnum og starfsfólki. Söngur, kökur, glens og gaman.
Lesa meira
30.09.2003
Nýlega tók Chris Bogan, starfsmaður Síldarminjasafnsins, þátt í alþjóðlegri safnaráðstefnu í Dubrovnik í Króatíu. Ráðstefnan nefnist ‘The Best In Heritage’ og til hennar er aðeins boðið virtum ,,verðlaunasöfnum” til að kynna starfsemi sína og einnig til að leggja grunn að alþjóðlegum tengslum og samstarfi. Í lok ráðstefnunnar velja ráðstefnugestir besta fyrirlesturinn sem hlýtur sérstök heiðursverðlaun. Nokkuð á annað hundrað manns frá 30 löndum sátu ráðstefnuna að þessu sinni og fylgdust í þrjá daga með 22 kynningum á hinum margvíslegustu söfnum, allt frá Síldarminjasafninu til The Museum of Civilization í Quebec, Kanada (þar sem starfsmenn eru fleiri en íbúar Siglufjarðar!) eða hins nýja og glæsilega safns, The Imperial War Museum í Manchester. Sem ,,besta kynningin” var valið Rotorua safnið í Nýja Sjálandi. Athyglin á Siglufirði.Í erindi sínu fjallaði Chris um uppbyggingu Síldarminjasafnsins og þýðingu þess að fá Íslensku safnverðlaunin árið 2000 og tilnefningu til Evrópsku safnverðlaunanna 2004. Að sögn Chris vakti kynning hans mikla athygli og ekki síst hjá Króötum sem eru í mikilli safnauppbyggingu við erfiðar aðstæður. ,,Saga Síldarminjasafnsins hljómaði greinilega eins og fyrirmynd að því hvernig hægt er að byggja eitthvað mikilvægt og glæsilegt fyrir staðinn og jafnvel alla þjóðina. Sérstaklega voru stúdentar í safnafræðum við Háskólann í Zagreb áhugasamir um reynslu okkar”. Þess má ennfremur geta að Króatíska sjónvarpið tók viðtal við Chris um stöðu Síldarminjasafnsins.Annað sæti?Þótt ekki hafi verið veitt verðlaun fyrir annað og þriðja sæti í safnakynningunni – segir í stórri grein í Vjesnik, eins stærsta dagblaðs Króatíu – var fyrirlesturinn um Síldarminjasafnið á Siglufirði ekki síður áhrifamikill en verðlaunafyrirlesturinn og hefði tvímælalaust á skilið önnur verðlaun. Þar kom fram hvernig allt er samofið síldinni, safnið, samfélagið, fortíð og framtíð. Með þessari grein í blaðinu fylgdi ein mynd og var hún af Roaldsbrakka. Til þátttöku í ráðstefnunni naut Síldarminjasafnið styrkja frá Menntamálaráðuneytinu, Verkalýðsfélaginu Vöku og Siglufjarðarkaupstað.Örlygur Kristfinnsson
Lesa meira
26.09.2003
Firmakeppni hestamannafélagsins Glæsis fór fram á íþróttavelli félagsins á bökkum Hólsár Laugardaginn 20. september og hófst klukkan 15,00.Dómarar mótsins voru. Gunnar Guðmundsson og Halldór Þorvaldsson. Að þessu sinni tóku 52 fyrirtæki þátt, sem er mun meiri þátttaka en áður hefur verið. Dregið var um keppanda fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig.Fyrirtækjakeppnin er liður í átaki Glæsisfélaga til að gera skeiðbraut við íþróttavöll félagsins á bökkum Hólsár, sem gjörbreytir aðstæðum til mótahalds og gerir ágætt mótasvæði enn betra.Keppnin fór þannig fram að riðnir voru tveir hringir tölt eða brokk og voru þrír inná vellinum í einu og sá sem hafði bestu einkunnina hélt áfram keppni í seinni umferðum, þannig hélt mótið áfram þangað til að sex kepptu til úrslita. Hestamannafélagið Glæsir vill koma á framfæri þakklæti til allra sem studdu okkur í þessu átaki okkar.Sigurvegari varð Trésmíðaverkstæði Ólafs Kárasonar, keppandi fyrir hann var Haraldur Marteinsson á hestinum Glampa,Í öðru sæti varð Vélaleiga Stefáns Einarssonar, keppandi fyrir hann var Katrín Haraldsdóttir á stóðhestinum SkorraÍ þriðja sæti varð Siglfirðingur ehf, keppandi fyrir hann var Ólafur Marteinsson á hestinum Korg.Að lokinni firmakeppninni var keppt til úrslita í barna og unglingaflokki.1. Brynhildur Ólafsdóttir á hestinum Blesa hún keppti fyrirGuðrúnu Maríu fiskverkun. 2. Hilmar Snær Símonarson á hestinum Kela hann keppti fyrir Sundhöll Siglufjarðar.3. Vigfús Rúnarsson á hestinum Vini hann keppti fyrir Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar. Að loknu mótahaldi fór fram svonefnd kvennareið, þessi dagskrárliður var undir stjórn þeirra Helgu Lúðvíksdóttur og Kolbrúnar Gunnarsdóttur.Mjög góð mæting var þrátt fyrir að veðrið væri nokkuð hvasst, að lokinni kvennareiðinni var haldin uppskeruhátíð hestamanna sem stóð fram á kvöld.
Lesa meira
23.09.2003
Laugardaginn 27. september kl. 20:30 munu söngstjörnurnar Sigrún Hjálmtýsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Kristinn Sigmundsson, ásamt Jónasi Ingimundarsyni, píanóleikara, halda stórtónleika í Siglufjarðarkirkju. Á efnisskránni verða vinsælar aríur, dúettar og terzettar úr þekktum óperum eftir Mozart, Gounod, Bizet og Puccini, svo og íslensk sönglög eftir Sigfús Einarsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Sigvalda Kaldalóns, Markús Kristjánsson, Emil Thoroddsen og Bjarna Thorsteinsson. Miðaverð: 2.500 kr.Það er óþarfi að kynna þessa frábæru listamenn, sem nánast allir landsmenn þekkja og fullvíst að það verður enginn svikinn af að hlýða á þá.Það er full ástæða til að hvetja Siglfirðinga til að fjölmenna á þessa tónleika því það er ekki daglegur viðburður að svona góðir listamenn sæki okkur heim.
Lesa meira
17.09.2003
Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar þann 28. ágúst sl. var eftirfarandi tillaga samþykkt:
Lesa meira