27.10.2003
Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt og teiknistofa hans, Landslag ehf., hafa verið nefnd til evrópskra verðlauna í landslagsarkitektúr fyrir hönnun fyrsta áfanga snjóflóðavarna á Siglufirði. Dómnefnd valdi 14 verkefni af alls 450, sem til álita komu, þar á meðal Siglufjarðarverkefnið. Verðlaunin kallast Barba Rosa-European Landscape Prize og eru nú veitt í þriðja sinn. Verðlaunaveitingin tengist sýningu og ráðstefnu á vegum arkitektasamtaka og arkitektaskóla í Barcelona og Katalóníu á Spáni. Tilnefndu verkefnin 14 verða sýnd í Barcelona 20. nóvember-11. desember nk. en ráðstefnan verður haldin dagana 27.–29. nóvember. Þar munu kynna höfundar kynna verk sín fyrir alþjóðlegri dómnefnd og nefndin tilkynnir að því loknu hvert þeirra hlýtur 1. verðlaun.Alþjóðleg viðurkenning af þessu tagi dregur athygli að því hvernig við Íslendingar bregðumst við óblíðum náttúruöflum með virðingu fyrir umhverfinu. Hún er vitanlega mikill heiður fyrir Landslag ehf. og íslenskan landslagsarkitektúr yfirleitt. Reyndar er sérstakt gleðilefni að þetta skuli gerast einmitt núna, á sama tíma og Landslag ehf. fagnar 40 ára samfelldum teiknistofurekstri Reynis Vilhjálmssonar. Snjóflóðagarðarnir á Siglufirði hafa vakið verulega athygli meðal fagfólks í hönnun erlendis. Þeir voru kynntir á hönnunarsýningu í Malmö árið 2002 fyrir milligöngu Form Ísland og um þá hefur verið fjallað í fagtímaritunum Landskab í Danmörku og Topos í Þýskalandi.Garðarnir, sem hér um ræðir, voru reistir neðan Jörundarskálar og Strengsgilja á Siglufirði á árunum 1998 og 1999. Þetta eru tveir leiðigarðar sem kallast Stóri-Boli og Litli-Boli. Nú er unnið að framkvæmd annars áfanga varnarvirkja á Siglufirði, þvergarða ofan byggðar.Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með verkinu sem kostað er af Ofanflóðasjóði og Siglufjarðarbæ. Auk Reynis Vilhjálmssonar/Landslags komu Norges Geotekniske Institutt og Þorsteinn Jóhannesson, verkfræðingur á Siglufirði, að frumhönnun fyrsta áfanga varnarvirkjanna. Verkfræðistofan Hnit hf. annaðist verkhönnun garðanna. Línuhönnun hf. sá um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og eftirlit með framkvæmdum Héraðsverk annaðist byggingu garðanna en Bás á Siglufirði uppgræðslu þeirra.