Hitaveitumál í Ólafsfirði

Málsnúmer 2401052

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 817. fundur - 19.01.2024

Tekið fyrir erindi Stefáns H. Steindórssonar, sviðsstjóra Veitu- og tæknisviðs Norðurorku um stöðu vatnsvinnslu hitaveitu á Ólafsfirði. Lagt er til að minnka notkun á upphituðum gangstéttum og íþróttavelli í mikilli kuldatíð og reyna þannig að hlífa öðrum notendum við skerðingum.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar fyrir yfirferð á málefnum hitaveitunnar í Ólafsfirði. Bæjarráð ákveður í ljósi þess að gangstéttir eru nú hreinsaðar með kerfisbundnari hætti en áður, og þeirrar staðreyndar að hitaveitan í Ólafsfirði er komin nálægt þolmörkum, að hitun gangstétta á vegum sveitarfélagsins verði hætt þar til annað verður ákveðið. Mikilvægt er að þegar hitun verður hætt að tryggja tæmingu röra þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum.
Bæjarráð telur einsýnt í ljósi stöðunnar að Norðurorka breyti forgangsröðun sinni og flýti framkvæmdum í tengslum við hitaveituna í Ólafsfirði. Mikilvægt er að borun nýrrar holu í Ólafsfirði verði flýtt eins og kostur er. Bæjarstjóra falið að óska eftir fundi með stjórn Norðurorku hið fyrsta.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 881. fundur - 26.06.2025

Fyrir liggja upplýsingar um að borun eftir heitu vatni á vegum Norðurorku á Ólafsfirði sé lokið um sinn án árangurs. Norðurorka mun greina betur gögn sem fyrir liggja og meta stöðuna.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð leggur áherslu á að fá upplýsingar um framvindu mála þegar þær liggja fyrir og felur bæjarstjóra að óska eftir upplýsingafundi með fulltrúum Norðurorku sem fyrst.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 882. fundur - 03.07.2025

Á fundinn eru mættir Eyþór Björnsson og Hörður Hafliði Tryggvason frá Norðurorku og fóru þeir yfir stöðu mála varðandi framkvæmdir við borun holu í Ólafsfirði nýverið. Borun hefur verið hætt á þeim stað (hola ÓB-19) en markmiðið var að finna nýja vinnsluholu fyrir hitaveituna. Gerð var grein fyrir næstu skrefum varðandi hitaveituna en nú verður unnið úr gögnum og að þeirri vinnu lokinni verður tekin ákvörðun um framhaldið.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð þakkar fulltrúum Norðurorku fyrir komuna á fundinn og upplýsingarnar. Bæjarráð leggur áherslu á að rannsóknum verði haldið áfram og þeim fylgt eftir þannig að frekari upplýsingar liggi fyrir um næstu skref á komandi hausti.