Regus skrifstofusetur í Fjallabyggð

Málsnúmer 2111046

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 721. fundur - 25.11.2021

Lagt er fram erindi Tómasar Hilmars Ragnarssonar f.h. Regus dags. 17. nóvember ásamt fylgiskjölum, í erindinu fer bréfritari þess annars á meðal á leit að fá að koma á fund bæjarráðs og kynna fyrir ráðinu hugmyndir er varða uppsetningu skrifstofuseturs í Fjallabyggð.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar erindið og felur bæjarstjóra að bjóða bréfritara til fundar ráðsins við fyrsta hentugleika.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 723. fundur - 09.12.2021

Á fundinn mættu Tómas Hilmar Ragnarz og Erna Guðjónsdóttir og fóru yfir áform félagsins um opnun skrifstofuseturs á Siglufirði. Um er að ræða tíu skrifstofurými sem gætu þjónað um 30 starfsmönnum og aðstöðu fyrir 20 opin vinnurými ásamt fundarrými og kaffiaðstöðu. Ætlunin er að bjóða upp á sömu þjónustu og gæði og gert er í Reykjavík og á öðrum stöðum sem Regus er með starfsemi á, en félagið rekur yfir 4.000 skrifstofusetur í 127 löndum, 900 borgum og 850 flugvöllum og er með yfir sjö milljón notendur um allan heim.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð þakkar greinagóða og fróðlega yfirferð og lýsir yfir ánægju sinni með verkefnið enda er að mati ráðsins um mikið framfaramál að ræða og samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 209. fundur - 19.01.2022

Til máls tóku Elías Pétursson, Helgi Jóhannsson, Nanna Árnadóttir, Tómas Atli Einarsson, S. Guðrún Hauksdóttir, Jón Valgeir Baldursson og Helga Helgadóttir.

Lagt er fram vinnuskjal bæjarstjóra dags. 16. janúar 2022 sem var óskað eftir á 208. fundi bæjarstjórnar.
Forseti bæjarstjórnar bar upp tillögu þess efnis að bæjarstjóra verði falið að vinna drög að viljayfirlýsingu milli aðila, byggt á framlögðu vinnuskjali og umræðum á fundinum og leggja fyrir bæjarstjórn.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 6 atkvæðum, Helgi Jóhannsson H-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni.

Helgi Jóhannsson H-lista leggur fram eftirfarandi bókun.

Ég undirritaður fagna því að Regus hafi áhuga á að koma upp skrifstofusetri í Fjallabyggð/Siglufirði og að sveitarfélagið reyni að styðja við það eins og önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu. Ég er hins vegar ekki tilbúinn til að samþykkja að fjármunir renni úr sjóðum sveitarfélagsins til einkaaðila eins og málið lítur út núna.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 210. fundur - 09.02.2022

Bæjarstjóri lagði fram og fór yfir drög að viljayfirlýsingu er varðar opnun skrifstofuseturs í Fjallabyggð, viljayfirlýsingin er unnin í framhaldi af bókun á 209. fundi bæjarstjórnar. Einnig lagði bæjarstjóri fram vinnuskjal og fór yfir mögulega útfærslu á framkvæmd úthlutunar á nýsköpunar-, frumkvöðla- og atvinnuþróunarrými sem yrði í skrifstofusetrinu.

Til máls tóku Elías Pétursson, Helga Helgadóttir, Tómas Atli Einarsson, Helgi Jóhannsson, S. Guðrún Hauksdóttir og Jón Valgeir Baldursson.
Tómas Atli Einarsson lagði fram eftirfarandi bókun f.h. meirihluta bæjarstjórnar.

Um leið og meirihluti D- og I-lista fagnar því að nú hillir undir að í Fjallabyggð verði sett á fót skrifstofusetur með aðstöðu til fjarvinnu og fyrir störf sem unnin eru óháð staðsetningu vinnuveitanda. Þá verður ekki hjá því komist að bregðast við bókun Helga Jóhannssonar H-lista á síðasta fundi bæjarstjórnar enda kom fram í bókuninni ákveðin misskilningur eða rangtúlkun. Í bókun sinni fagnar bæjarfulltrúinn framkomnum áhuga á að setja upp skrifstofusetur í sveitarfélaginu sem og því að sveitarfélagið reyni að styðja við fyrirtækið sem að málinu stendur líkt og önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu en segir sig ekki tilbúin til að samþykkja að fjármunir renni úr sjóðum sveitarfélagsins til einkaaðila.

Meirihluti vill að skýrt komi fram að aldrei stóð til að leggja fram fjármuni úr sjóðum sveitarfélagsins til einkaaðila án þess að fyrir kæmu verðmæti, í þessu tilviki skrifstofurými sem nýtt yrði til eflingar nýsköpunar og atvinnuþróunar í Fjallabyggð. Að því sögðu þá er það meirihluta D- og I-lista hulin ráðgáta hvernig bæjarfulltrúinn komst að sinni niðurstöðu, líkt og ráða má af bókun hans, að til stæði að styrkja fyrirtæki með fjármunum sveitarfélagsins til uppsetningar skrifstofuseturs. Ekkert slíkt má ráða af gögnum máls né því sem fram kom í kynningu málsins á fyrrnefndum fundi bæjarstjórnar.

Bókun Helga Jóhannssonar, H - lista
Fyrir liggur á þessum fundi viljayfirlýsing milli Fjallabyggðar og Regus um skrifstofusetur í Fjallabyggð. Áður hefur komið fram hjá undirrituðum að hann fagni þessum áætlunum Regus. Hins vegar stend ég við það að ég er ekki tilbúinn til að samþykkja að allt að 2 milljónir á ári í 2-3 ár renni sem leigugreiðslur í þetta verkefni. Það hlýtur að flokkast sem ákveðið framlag eða styrkur til einkafyrirtækis, alla vega í mínum huga.

Bæjarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Jóns Valgeirs Baldurssonar og Helga Jóhannssonar framlagða viljayfirlýsingu og felur bæjarstjóra að undirrita hana fyrir hönd sveitarfélagsins.

Einnig samþykkir bæjarstjórn með 5 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Jóns Valgeirs Baldurssonar og Helga Jóhannssonar að fela bæjarráði að semja drög að úthlutunarreglum vegna nýsköpunar-, frumkvöðla- og atvinnuþróunarrýmis byggt á framlögðu vinnuskjali bæjarstjóra.



H-listi óskaði eftir fundarhléi kl.17:50 til 18:10.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 789. fundur - 09.05.2023

Lögð fram undirrituð viljayfirlýsing frá febrúar 2022 milli Fjallabyggðar og Regus á Íslandi um sameiginlega vilja aðilanna til þess að opna skrifstofusetur í Fjallabyggð.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við Regus í samræmi við viljayfirlýsingu frá 7. febrúar 2022. Bæjarstjóra einnig falið að leggja samninginn fyrir bæjarráð og gera tillögu til bæjarráðs um hvernig aðgengi sveitarfélagsins að skrifstofusetri Regus skuli háttað.