Starfsemi Hornbrekku 2021

Málsnúmer 2101018

Vakta málsnúmer

Stjórn Hornbrekku - 24. fundur - 08.01.2021

Íbúar Hornbrekku voru bólusettir 29. desember síðastliðinn, fyrri skammti. Seinni sprautan verður gefin upp úr 20. janúar nk. Breytingar á Norðurstofu eru hafnar, þar verða útbúnar tvær skrifstofur. Þegar þeim framkvæmdum líkur verður ráðist í endurbætur á herbergjum íbúa.

Stjórn Hornbrekku - 25. fundur - 05.02.2021

Hjúkrunarforstjóri gerði grein fyrir helstu verkefnum Hornbrekku frá síðasta fundi stjórnar. Vinna við Norðurstofu er langt komin. Byrjað er á endurbótum á herbergjum á íbúðargangi.

Rýmingaráætlun Hornbrekku hefur verið uppfærð.

Verkfallslisti Hornbrekku hefur verið uppfærður og beðið eftir athugasemdum stéttarfélaga.

Ekki er enn komin niðurstaða í einingarverð fyrir samninga við hjúkrunarheimilin og daggjald fyrir dagdvöl árið 2021. Heilbrigðisráðuneytið sendi tilkynningu um breytingu á reglugerð um færni og heilsumat til hjúkrunarheimila þann 18. janúar sl., án nokkurs fyrirvara eða samráðs við hjúkrunarheimili landsins eða Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Mikil óánægja er með þessa breytingu og var henni frestað ótímabundið og SFV boðið á fund með starfsfólki heilbrigðisráðuneytisins, þar sem rætt var um nýju reglugerðina og vonast SFV til þess að viðunandi samstaða náist.

Tilslakanir hafa verð gerðar á heimsóknartímum í Hornbrekku, sem tóku gildi 1. febrúar, tveir heimsóknargestir á dag, íbúar mega fara í heimsókn til þeirra sem þá heimsækja og í bíltúr.

Þorrablót Hornbrekku var haldið föstudaginn 29. janúar, það gekk vel, starfsfólk duglegt að mæta.

Stjórn Hornbrekku - 26. fundur - 19.03.2021

Hjúkrunarforstjóri gerði grein fyrir starfsemi Hornbrekku frá síðasta fundi, s.s. eins og framkvæmd stytting vinnuvikunnar, sumarafleysingar, framkvæmdir við breytingar innanhúss, og væntanlegum fundi stjórnanda Hornbrekku með bæjarstjóra. Hjúkrunarforstjóri sagði frá því því að starfsmannafélag Hornbrekku hefði ákveðið að færa stofnuninni sjónvarp að Gjöf og færir stjórnin starfsmannafélaginu bestu þakkir fyrir.

Stjórn Hornbrekku - 27. fundur - 09.04.2021

Heimsóknarreglur Hornbrekku voru hertar 24. mars sl. vegna aukningar á COVID smitum í samfélaginu. Nú eru tveir nánustu ættingjar sem hafa kost á að koma í heimsókn á dag. Börn yngri en 18 ára mega ekki koma í heimsókn á Hornbrekku. Íbúar mega fara í heimsókn til ættingja.
Töluverð veikindi hafa verið hjá íbúum og mikið um sjúkrahúsferðir.
Búið er að ráða í sumarafleysingar og unnið er að sumarskýrslum, og eru þær langt komnar.
Framkvæmdir við breytingar á íbúaherbergjum ganga ágætlega. Haldið verður áfram þar til búið verður að skipta um gólfefni, fataskápa og salerni á öllum herbergjum.
Hjúkrunarforstjóri er að ganga frá undanþágubeiðni frá kröfulýsingu SÍ vegna iðjuþjálfa, matartækni og næringarrekstrarfræðings.
Hjúkrunarforstjóri er langt komin með undirbúningsvinnu vegna útboðs á ræstingu á Hornbrekku, en illa hefur gengið að fá afleysingu í veikindum starfsmanns í ræstingu.

Stjórn Hornbrekku - 28. fundur - 07.05.2021

Hjúkrunarforstjóri fór yfir starfsmannamál heimilisins, vaktatafla og fyrirkomulag afleysinga liggur fyrir. Skipulag heimsókna á Hornbrekku frá 3. maí eru með þeim hætti að fjórir ættingjar mega koma í heimsókn og eru börn talin með. Frekari afléttingar verða þegar starfsfólk hefur fengið seinni bólusetninguna. Starfsfólk Hornbrekku keypti skenk á vegginn í Norður-stofunni og færir stjórnin þeim bestu þakkir fyrir.

Stjórn Hornbrekku - 29. fundur - 17.09.2021

Hjúkrunarforstjóri fór yfir starfsemi Hornbrekku. Heimsóknarreglur hafa verið rýmkaðar og grímuskylda starfsmanna afnumin. Fjórir ættingjar geta komið á dag. Hjúkrunarforstjóri tilkynnti um ráðningu iðjuþjálfa í hlutastarf. Ráðningin er innan stöðugildaheimilda Hornbrekku. Fyrirhugað er að festa kaup á einu rúmi og sóttvarnardælu til að sótthreinsa snertifleti á heimilinu.

Stjórn Hornbrekku - 30. fundur - 19.11.2021

Hjúkrunarforstjóri upplýsti að vegna covid-19 smita í nærsamfélagi og á meðan verið er að vinna úr þeim verður lokað fyrir allar heimsóknir á Hornbrekku.
Hjúkrunarforstjóri kynnti niðurstöður kannana meðal starfsmanna og íbúa Hornbrekku.
Hornbrekka hefur svarað Sjúkratryggingum Íslands vegna fyrirspurnar um gæðakerfi og handbækur sem stuðst er við í innra starfi heimilisins.