Almenn atkvæðagreiðsla um Fræðslustefnu Fjallabyggðar

Málsnúmer 1705075

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 503. fundur - 30.05.2017

Lagt fram til kynningar erindi til bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá Hildi Gyðu Ríkharðsdóttur, Kristjáni Haukssyni, Heimi Sverrissyni og Gunnlaugi Inga Haraldssyni dags. 19. maí 2017, þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða undirskriftasöfnun vegna almennrar atkvæðagreiðslu um fræðslustefnu Fjallabyggðar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 505. fundur - 13.06.2017

Tilkynning um fyrirhugaða undirskriftasöfnun vegna almennrar atkvæðagreiðslu um fræðslustefnu Fjallabyggðar barst bæjarstjórn 19. maí sl.. frá Hildi Gyðu Ríkharðsdóttur, Kristjáni Haukssyni, Gunnlaugi Inga Haraldssyni og Heimi Sverrissyni.
Bæjarráð telur að ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því ekki að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið. Bæjarráð felur Lindu Leu Bogadóttur markaðs- og menningarfulltrúa að setja tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun á heimasíðu Fjallabyggðar eins og reglugerð kveður á um.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 507. fundur - 27.06.2017

Lögð fram til kynningar tilkynning Fjallabyggðar til Þjóðskrár Íslands um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun.
Bæjarráð vill beina því til ábyrgðarmanna undirskriftasöfnunarinnar að leiðrétta þarf rafrænan undirskriftarlista söfnunarinnar en þar er aldursbil tilgreint 16-120 ára.
Samkvæmt reglugerð 155/2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, eiga aðeins þeir sem hafa kosningarrétt í viðkomandi sveitarfélagi rétt á að óska almennrar atkvæðagreiðslu.

Bæjarráð felur deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála að senda ábendinguna til Þjóðskrár og ábyrgðarmanna undirskriftasöfnunarinnar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 511. fundur - 25.07.2017

Lagður fram til kynningar undirskriftalisti vegna almennrar atkvæðagreiðslu um fræðslustefnu Fjallabyggðar. Alls söfnuðust 612 undirskriftir, sem er 38,1% af kjörskrárstofni. Undirskriftalistinn var afhentur 20.júlí sl.
Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórn að láta atkvæðagreiðsluna fara fram innan árs frá því að óskað var eftir því að hún færi fram.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 547. fundur - 15.03.2018

Bæjarráð samþykkir samhljóða að íbúakosning um fræðslustefnu Fjallabyggðar fari fram þann 14. apríl 2018.


Spurt verður:

"Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.

Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný."

Íbúakosningin lýtur sveitarstjórnarlögum nr.138/2011 og verður staðarkosning í tveimur kjördeildum,
Ráðhúsi Fjallabyggðar og Menntaskólanum á Tröllaskaga.


Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 157. fundur - 15.03.2018

Til máls tóku Steinunn María Sveinsdóttir, S. Guðrún Hauksdóttir, Valur Þór Hilmarsson,
Helga Helgadóttir og Jón Valgeir Baldursson.

Á 547. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var samþykkt að íbúakosning um fræðslustefnu Fjallabyggðar fari fram þann 14. apríl 2017. Kosið verður í tveimur kjördeildum, þ.e. Ráðhúsi Fjallabyggðar og í húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga. Leitað var ráðgjafar Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem kom með tillögu að spurningu.

Spurt verður:

"Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.

Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03.2009 taki gildi á ný."

Bæjarstjórn staðfestir samþykkt bæjarráðs með 7 atkvæðum og felur deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála, deildarstjóra fræðslu-, frístunda - og menningarmála og formanni yfirkjörstjórnar undirbúning atkvæðagreiðslunnar.

Bæjarstjórn hvetur íbúa Fjallabyggðar til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og kynna sér fræðslustefnuna og skólastarfið vel. Hægt er að kynna sér fræðslustefnuna á heimasíðu Fjallabyggðar auk þess sem þar er að finna fréttir af skólastarfi allra skólastiga. Verði ákveðið að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar verður horfið aftur til fyrri fræðslustefnu og fyrra kennslufyrirkomulags. Með því eru forsendur fyrir samþættu skóla- og frístundastarfi á yngsta skólastigi brostnar og Frístund mun leggjast af. Að sama skapi verður samstarfi grunnskólans við Tónlistarskólann á Tröllaskaga, Menntaskólann á Tröllaskaga og íþróttafélög í Fjallabyggð í þeirri mynd sem verið hefur á núverandi skólaári sjálfhætt.