Ytra mat á grunnskólum

Málsnúmer 1505027

Vakta málsnúmer

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 19. fundur - 21.05.2015

Skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, Ríkey Sigurbjörnsdóttir, mætti á fundinn kl. 18:00.
Námsmatsstofnun hefur í bréfi dags. 5. maí 2015 tilkynnt að Grunnskóli Fjallabyggðar er í hópi þeirra skóla sem hefur verið valinn til ytra mats á starfi skólans. Verkefnið er fjármagnað með framlögum frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 23. fundur - 25.01.2016

Lagt fram
Á fundinn mætti Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar. Hún ásamt Kristni J. Reimarssyni deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála kynntu niðurstöður úr ytra mati sem framkvæmt var af sérfræðingum Menntamálastofnunar í október sl.
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er samkvæmt 35. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 að:
- Veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólk skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda.
- Tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla.
- Auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum.
- Tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Við úttekt á skólastarfi ert horft til þriggja fyrirfram ákveðna matsþátta; stjórnun, nám og kennsla og innra mat. Fjórði þátturinn er að ósk skóla og sveitarfélags og í Fjallabyggð var skoðaður matsþátturinn skóli án aðgreiningar.

Í grófum dráttum er niðurstaða þessa ytra mats að Grunnskóli Fjallabyggðar er skóli þar sem nemendum og starfsfólki líður vel, umhyggja er sýnileg og lögð er rækt við að sinna hegðum og samskiptum en efla þarf árangur í námi, setja fram hvert á að stefna og gera kröfur til allra.

Í skýrslu matsaðila er bent á fjölmarga þætti innan hvers matsþáttar sem tækifæri til umbóta í skólastarfi.

Jónína greindi frá þeirri vinnu sem þegar er komin í gang með gerð umbótaáætlunar sem skila þarf inn til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Kynningarfundir með foreldrum verða 3. og 4. febrúar nk. Vill nefndin hvetja foreldra til að taka virkari þátt í skólastarfi.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 429. fundur - 26.01.2016

Á fund bæjarráðs komu deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála, Kristinn J. Reimarsson og skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, Jónína Magnúsdóttir.

Lögð fram til kynningar skýrsla Menntamálastofnunar á ytra mati á Grunnskóla Fjallabyggðar sem fór fram á haustönn 2015. Teknir voru fyrir fjórir matsþættir, þar af voru þrír fyrirfram ákveðnir, en fjórði matsþátturinn var ákveðinn af bæjarfélagi og skóla. Þættirnir sem lagt var mat á voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og að ósk skóla og bæjarfélags var fjórði þáttur skóli án aðgreiningar.

Skólastjóri greindi frá þeirri vinnu sem þegar er komin í gang með gerð umbótaáætlunar sem skila þarf til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Skýrslan verður kynnt foreldrum og nemendum á næstunni og verður í kjölfarið gerð opinber.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 432. fundur - 16.02.2016

Lagt fram til kynningar erindi Mennta- og menningarráðuneytis, dagsett 8. febrúar 2016 um niðurstöður úttektar á starfsemi Grunnskóla Fjallabyggðar, sem gerð var í október 2015.

Ráðuneytið óskar eftir því að bæjarstjóri sendi ráðuneytinu, fyrir 13. apríl nk., tímasetta umbótaáætlun um hvernig brugðist verður við þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

Jafnframt er yfirvöldum fræðslumála, starfsfólki skóla, nemendum og foreldrum þökkuð góð samvinna við úttektina.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 464. fundur - 06.09.2016

Á fund bæjarráðs mættu deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála Kristinn J. Reimarsson og skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar Jónína Magnúsdóttir og gerðu grein fyrir stöðu umbótaáætlunar sem gerð var í framhaldi af úttekt Menntamálastofnunar á starfsemi grunnskólans í október 2015.

Lagt var fram minnisblað skólastjóra og deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála, dagsett 1. september 2016.