Ástand húss við Aðalgötu 6

Málsnúmer 1408047

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 170. fundur - 27.08.2014

Þar sem engar úrbætur hafa átt sér stað á húsnæðinu við Aðalgötu 6, Siglufirði óskar nefndin eftir að farið verði í sömu aðgerðir og gerðar voru við fyrri eiganda þar sem krafist var úrbóta.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 186. fundur - 13.07.2015

Eiganda húss við Aðalgötu 6 Siglufirði var sent bréf dagsett 21.maí 2015 þar sem áréttuð var sú krafa að viðkomandi gerði úrbætur á útliti og frágangi fasteignarinnar. Gefinn var upp fjögurra vikna frestur til úrbóta eða tímasetta áætlun sem gerir ráð fyrir úrbótum við fyrsta tækifæri. Að öðrum kosti yrði málið tekið upp að nýju og lagðar á dagsektir.

Ekki hefur borist tímasett áætlun um úrbætur á eigninni. Því samþykkir nefndin að leggja á dagsektir að upphæð 20.000 kr. sem byrjar að telja frá og með mánudeginum 20.júlí 2015.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 189. fundur - 08.09.2015

Á 186.fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 13.júlí sl., samþykkti nefndin að leggja á dagsektir að upphæð 20.000kr frá og með mánudeginum 20. júlí 2015. Lagður fram tölvupóstur dagsettur 16. júlí 2015 þar sem eigandi hússins óskaði eftir frest til framkvæmda til 4. ágúst, þá myndu einnig liggja fyrir skrifleg tilboð og verklýsing. Dagsektum var frestað til umbeðins tíma.

Úrbætur á húsinu eru ekki hafnar og ekki liggur fyrir verklýsing. Nefndin samþykkir að leggja á dagsektir að upphæð 20.000 kr. frá og með mánudeginum 14. september 2015.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 198. fundur - 16.03.2016

Lagt fram erindi húseiganda Aðalgötu 6, Siglufirði dagsett 26. febrúar 2016. Óskað er eftir að dagsektir vegna ástands hússins sem staðið hafa yfir frá 14. september 2015 verði felldar niður og nýr frestur til úrbóta verði fyrir lok júní 2016.

Nefndin hafnar beiðninni að svo stöddu. Nefndin er tilbúin til þess að endurskoða afstöðu sína eftir að lagfæringum á eigninni er lokið.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 202. fundur - 06.07.2016

Umræða um ástand húsa í Fjallabyggð.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar mótmælir harðlega þeim seinagangi sem verið hefur á lagfæringum á fasteigninni við Aðalgötu 6 Siglufirði og krefst þess að lögfræðingur Fjallabyggðar gangi hart eftir að innheimta þær dagsektir sem áfallnar eru og fylgi því eftir með fjárnámi og nauðungaruppboði fáist þær ekki innheimtar.
Að mati nefndarinnar er með öllu ólíðandi að fasteignaeigendur komist upp með þá háttsemi sem viðhöfð hefur verið við þessa fasteign.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 456. fundur - 26.07.2016

Lögð fram bréf til kynningar varðandi dagsektir og samskipti við aðila.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 203. fundur - 27.07.2016

Lagt fram til kynningar bréf fyrrum eiganda Aðalgötu 6, Siglufirði.