Framkvæmdaleyfi fyrir sjóvörnum á Siglunesi

Málsnúmer 1301032

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 337. fundur - 16.04.2014

Lögð fram drög að bréfi frá tæknifulltrúa Fjallabyggðar til Siglingasviðs Vegagerðar, er varðar sjóvarnir á Siglunesi, dags. 7. apríl 2014.

Einnig er lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dags. 25. mars 2014.

Þar sem formleg beiðni hefur ekki borist frá Siglingasviði Vegagerðarinnar frestar bæjarráð málinu.

Rétt er að taka fram að ekkert fjármagn er á áætlun Fjallabyggðar né í samgönguáætlun, er varðar sjóvarnir á Siglunesi fyrir árið 2014.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 339. fundur - 06.05.2014

Lögð fram fyrirspurn frá forsvarsmanni hluta landeigenda á Siglunesi er varðar afgreiðslu bæjarráðs frá síðasta fundi.

Einnig lögð fram tillaga að svari bæjarstjóra er varðar umrætt erindi.

 

Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 342. fundur - 27.05.2014

Fram er kominn ósk landeigenda, Stefáns Einarssonar um að sent verði formlegt erindi frá bæjarráði Fjallabyggðar til Siglingasviðs Vegagerðar ríkisins er varðar endurupptöku fjárveitinga ríkisins til sjóvarna á Siglunesi.

 

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umrætt erindi. Bæjarráð ítrekar  hins vegar að ekkert fjármagn er á áætlun ársins og framkvæmdarleyfi liggur ekki fyrir.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 345. fundur - 01.07.2014

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dags. 23. júní 2014, þar sem tekið er undir sjónarmið þeirra landeigenda sem eiga hluta af Siglunesi, um að veruleg hætta sé á að skemma verði fyrir skemmdum vegna ágangs sjávar. Þar er lagt til að brugðist verði við og sjávarvörn sett upp við skemmuna á 35 m. kafla. Einnig er vísað í skýrslu SÍ frá 2009.
Áætlaður kostnaður er um 3,9 m.kr. og er hlutur ríkisins 7/8 og landeigenda/sveitarfélagsins 1/8.

Í bréfinu kemur fram að Vegagerðin mun leggja til við Innanríkisráðuneytið skv. 9. gr. laga um sjóvarnir 1997/28 að heimila þegar í stað framkvæmdir við gerð sjóvarna fyrir framan skemmuna.

Bæjarráð telur eðlilegt að landið sé varið og mun skoða aðstæður á næstu dögum.  Ljóst er að ekki er gert ráð fyrir framlagi á fjárhagsáætlun bæjarfélagsins á þessu ári og ekki liggur fyrir samþykki Innanríkisráðuneytis fyrir framkvæmdinni.

Bæjarráð leggur áherslu á ábendingar frá Skipulagsstofnun, sjá bréf dags. 25. mars 2014, en þar segir m.a. að áform um efnistöku á landi landeigenda kallar á breytingu á aðalskipulagi.
Bæjarráð áréttar einnig að uppfylla þurfi ábendingar skipulags- og umhverfisnefndar, sjá bókun í fundargerð frá 7. september 2011, áður en framkvæmdarleyfi verði gefið út.

Tæknideild Fjallabyggðar er falið að gera umræddar breytingar á aðalskipulagi, komi til þess að ráðuneytið samþykki fjármagn til framkvæmdarinnar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að rita öllum landeigendum bréf er varðar framkomið erindi.

Verði af framkvæmdinni á árinu 2014 mun bæjarráð vísa hlutdeild bæjarfélagsins kr. 487.500.- til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 168. fundur - 02.07.2014

Lagt fram til kynningar bréf frá Sigurði Áss Grétarssyni, framkvæmdarstjóra siglingasviðs Vegagerðarinnar þar sem tilkynnt er að Vegagerðin mun leggja til við innanríkisráðuneytið að hefja þegar í stað gerð sjóvarnar fyrir framan skemmu á Siglunesi.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 350. fundur - 05.08.2014

Bæjarstjóri lagði fram tvö bréf er varðar sjóvarnir á Siglunesi.

Fyrra bréfið er dagsett 21. júlí 2014 og undirritað af Önnu M. Jónsdóttur og Birni Jónssyni. Í bréfinu kemur fram að í ágúst 2009 hafi þau lýst yfir miklum áhyggjum af landbroti af völdum sjávar en þau eru eigendur jarðar og frístundahúss á Siglunesi 7.

Vísað er og í minnisblað frá Siglingastofnun þar sem fram kemur það mat að veruleg þörf sé á landvörnum við hús þeirra sem og skemmu. Eigendur ítreka nauðsyn þess að samhliða vörnum við umrædda skemmu verði ráðist í varnir fyrir framan þeirra sumarhús.

Síðara bréfið er ritað 1. ágúst af Hreini Magnússyni. Fram kemur í bréfinu að áætlaður kostnaður við sjóvarnir sé vanmetinn. Einnig leggur hann áherslu á að núverandi vegur um landið muni ekki bera þann þunga sem ætlað er án mikils viðhalds.

Fram kemur í bréfinu að landeigandi mun ekki taka þátt í kostnaði við fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem hann hafi ekki gefið sitt leyfi fyrir byggingarframkvæmdum á sínum tíma á óskiptu landi.

Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð vill taka fram að framkvæmdarleyfi hefur ekki verið gefið út eins og fram kemur í bréfi Hreins.

Siglingastofnun hefur ákveðið að boða landeigendur á Siglunesi á fund þann 13. ágúst vegna fyrirhugaðra sjóvarna.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 174. fundur - 19.11.2014

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dagsett 28.10.2014. Vegagerðin óskar eftir leyfi til að ráðast í sjóvörn á Siglunesi. Einnig sækir Vegagerðin eftir leyfi til grjóttínslu í skriðum við Siglunesvita á um 600m3 af grjóti og skriðuefni. Vegagerðin telur að búið sé að ná samkomulagi við landeigendur um framkvæmdina.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur rétt að kanna hvort samkomulag sé komið á milli landeigenda. Deildarstjóra tæknideildar er falið að kanna málið til næsta fundar.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 175. fundur - 11.12.2014

Á 174.fundi skipulags- og umhverfisnefndar var lagt fram bréf frá Vegagerðinni, dagsett 28.10.2014 þar sem óskað er eftir leyfi til að ráðast í sjóvörn á Siglunesi.

Undir þessum lið vék Brynja Hafsteinsdóttir af fundi.

Nefndin ítrekar bókun sem gerð var á 133.fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 22.mars 2012. Þar var lögð áhersla á að framkvæmdaleyfið verði fyrst veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

1. Að starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands liggi fyrir.

2. Að gengið verði úr skugga um að Skipulagsstofnun geri ekki athugasemdir við grjótnámið þó ekki hafi verið gert ráð fyrir námusvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

3. Að framkvæmdaaðili geri nánar grein fyrir þeim tækjum sem hann hyggst nota til verksins til að tryggja að sem minnstar líkur verði á raski og tímaáætlun framkvæmda.

4. Að fyrir liggi tillaga frá Siglingastofnun um skiptingu kostnaðar, sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn, samkvæmt 7. gr. laga um sjóvarnir, nr. 28 frá 1997.

5. Að efnisnám og flutningur efnis fari eingöngu fram á meðan nægilegt frost er í jörðu.

6. Að ráðist verði í lagfæringu á grjótnámssvæði í samræmi við skilyrði Skipulagsstofnunar og eins verði annað rask á svæðinu lagfært um leið og framkvæmdum líkur.

7. Að framkvæmdum verði hætt, komi í ljós að ekki verði mögulegt að flytja efni um veginn án þess að valda verulegu raski eða styrkja veginn verulega.

8. Að þekkt refagreni á framkvæmdasvæðinu verði merkt í samráði við Umhverfisstofnun og þess gætt að raska þeim ekki né nánasta umhverfi þeirra.

9. Að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem Fornleifastofnun hefur lagt til, í samráði við stofnunina, til að tryggja að ekkert rask verði utan slóðans þar sem hann liggur um bæjarhólinn, efnisflutningar fari eingöngu fram um slóðann á meðan frost er í jörðu. Verktökum verði sérstaklega gerð grein fyrir að verið sé að aka um bæjarhól og allur akstur utan slóðans sé bannaður. Fornleifar verði merktar vel og verktökum gerð nákvæm grein fyrir staðsetningu þeirra.

10. Að fyrir liggi samkomulag um eftirlit með framkvæmdinni, greiðslu kostnaðar vegna þess og mögulegs tjóns vegna framkvæmdanna.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 177. fundur - 05.02.2015

Lagt fram til kynningar bréf frá Vegagerðinni. Þar kemur fram að Vegagerðin stefni að því að hefja framkvæmdir sjóvarna á Siglunesi sem fyrst, þar sem öll tilskilin leyfi og skilyrði hafi verið uppfyllt.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 379. fundur - 10.02.2015

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar frá 5. febrúar s.l. var lagt fram til kynningar bréf frá Vegagerðinni.
Þar kemur fram að Vegagerðin stefni að því að hefja framkvæmdir sjóvarna á Siglunesi sem fyrst, þar sem öll tilskilin leyfi og skilyrði hafi verið uppfyllt.

Bæjarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins og felur deildarstjóra tæknideildar að leggja fram yfirlit yfir kostnað fyrir næsta fund bæjarráðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 380. fundur - 17.02.2015

112. fundur bæjarstjórnar samþykkti að vísa þessum dagskrárlið til fullnaðarafgreiðslu í bæjarráði.

Bæjarráð samþykkir að fresta þessum dagskrárlið.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 381. fundur - 24.02.2015

Lögð fram yfirlýsing dagsett 19. febrúar 2015 frá Stefáni Einarssyni ehf. um að starfsmaður Vegagerðarinnar muni stýra verkinu á verkstað á Siglunesi og sjá til þess að verktaki framfylgi þeim skilyrðum sem sett yrðu í framkvæmdaleyfi Fjallabyggðar.

Einnig staðfesting verkefnissjóra, hafnardeildar Vegagerðar í tölvupósti dagsettur 19. febrúar 2015, um aðkomu að verkefninu á meðan framkvæmdum stendur og að tryggt sé að farið verði eftir skilyrðum sem settar verða fram í framkvæmdaleyfi.

Bæjarráð samþykkir framkvæmdaleyfi með þeim fyrirvara að sem minnst rask verði og að framkvæmdir séu í samráði við landeigendur á svæðinu.