Fasteignasjóður

Málsnúmer 1105063

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 215. fundur - 24.05.2011

Stofnaður hefur verið sérstakur Fasteignasjóður sem heyrir undir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en í sjóði þessum eru allar þær fasteignir sem notaðar voru til búsetu og þjónustu við fatlaða. Ætlunin er að leigja eða selja sveitarfélögum, þjónustusvæðum eða þjónustuaðilum þær eignir sem sjóðurinn hefur umráð yfir.

Óskað er eftir upplýsingum frá Fjallabyggð um nýtingu á viðkomandi eignum á árinu 2012, en um er að ræða Lindargötu 2.

Bæjarráð telur rétt að vísa erindinu til félagsmálanefndar til umsagnar.

 

Reglugerð og vinnureglur Fasteignasjóðs lagðar fram til kynningar.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 56. fundur - 21.06.2011

Lögð fram reglugerð og vinnureglur Fasteignasjóðs ásamt bréfi frá Innanríkisráðuneytinu þar sem óskað er eftir upplýsingum um nýtingu á Lindargötu 2, árið 2012. Nefndin leggur til að árið 2012 verði nýting á Lindargötu 2 áfram á sömu forsendum og verið hefur.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 240. fundur - 13.12.2011






Við yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga í janúar 2011, flutti ríkið fasteignir sem tilheyrðu málaflokknum undir Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Verkefni sjóðsins er að leigja eða selja sveitarfélögunum þær eignir sem sjóðurinn hefur umráð yfir og semja um greiðslukjör.
Fasteignin Lindargata 2, fellur undir þessa umsýslu og hefur nú farið fram verðmat og er bæjarfélaginu boðin eignin til kaups á matsverði.
Það er skoðun félagsmálastjóra að húsnæðið sé að mörgu leyti úrelt sem búsetuúrræði fyrir fatlaða og leggur til að það verði leigt, en telur rétt að óska eftir viðræðum um verulega lækkun á söluverði.


Bæjarráð felur félagsmálastjóra að kanna hvort hægt sé að kaupa fasteignina á hagstæðari kjörum, að öðrum kosti verði húsnæðið leigt.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 60. fundur - 15.12.2011

Félagsmálastjóri lagði fram minnisblað varðandi kaup eða leigu á fasteigninni að Lindargötu 2, heimili fatlaðra. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélag sem fer með umráð yfir fasteigninni hefur lagt fram verðmat á fasteigninni og er bæjarfélaginu boðin eignin til kaups á matsverði. Bæjarráð fjallaði um málið á fundi sínum þann 13.12. síðast liðinn og bókaði m.a. að fela félagsmálastjóra að kanna hvort hægt sé að kaupa fasteignina á hagstæðari kjörum, að öðrum kosti verði húsnæðið leigt.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 69. fundur - 22.11.2012

Félagsmálastjóri lagði fram minnisblað um áframhaldandi leigu eða kaup á fasteigninni að Lindargötu 2 - sambýli fatlaðra. Félagsmálanefnd leggur til að ekki verði ráðist í kaup á fasteigninni að svo stöddu. Málinu vísað til bæjarráðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 279. fundur - 27.11.2012

Lagt fram minnisblað frá félagsmálastjóra þar sem fram kemur að félagsmálanefnd hefur fjallað um hugsanleg kaup á Lindargötu 2 en Fasteignarsjóður Jöfnunarsjóðs hefur boðið bæjarfélaginu eignina til kaups.

Þar kemur fram að nefndin telur heppilegra að leigja Lindargötu 2 af Jöfnunarsjóði eins og sakir standa.

Bæjarráð tekur undir niðurstöður nefndarinnar.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 70. fundur - 19.12.2012

Lagður fram húsaleigusamningur vegna Lindargötu 2. Leigusali er Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og leigutaki er Fjallabyggð. Samningurinn er tímabundinn til 30.06.2013.