Bæjarráð Fjallabyggðar

802. fundur 01. september 2023 kl. 08:15 - 09:28 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir varaformaður, D lista
  • Guðjón M. Ólafsson formaður, A lista
  • Helgi Jóhannsson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri
  • Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Bragi Freyr Kristbjörnsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Samningur við Félag eldri borgara í Ólafsfirði vegna húss félagsins

Málsnúmer 2306075Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samningi við Félag eldri borgara í Ólafsfirði. Bæjarstjóri leggur fram þá tillögu að samningar verða undirritaðir við Félag eldri borgara á Ólafsfirði varðandi eigendaskipti á húseigninni að Bylgjubyggð 2b, þ.e. Húsi eldri borgara Ólafsfirði. Í samningnum er m.a. kveðið á um að Félag eldri borgara fái endurgjaldslaus afnot af hluta hússins fyrir félagsstarf sitt, en Fjallabyggð ráðstafi öðrum hlutum hússins fyrir eigin afnot.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir drög að samningi við félag eldri borgara í Ólafsfirði um eigendaskipti á húsnæði félagsins ásamt minnisblaði bæjarstjóra um málið. Bæjarstjóra falið að undirrita samning við Félag Eldri borgara og vinna málið áfram í samræmi við minnisblaðið.

2.Samningur Fjallabyggðar við Leyningsás

Málsnúmer 2308061Vakta málsnúmer

Drög að samningi við Leyningsás ses. um skíðasvæðið í Skarðsdal lagður fram ásamt framtíðarsýn varðandi skíðasvæðið í Skarðsdal.
Markmið samningsaðila með samningi þessum eru meðal annars að efla vetraríþróttir í byggðarlaginu til hagsbóta fyrir íbúa sem og aðra landsmenn, tryggja aðgengi að vel útbúnu skíðasvæði, tryggja að skíðasvæðið sé opið á ákveðnum auglýstum tímum, kappkosta að alls öryggis sé gætt á svæðinu, stuðla að því að kostnaði við lyftugjöld sé í hóf stillt og að styðja við bakið á skíðafélögum í Fjallabyggð.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð býður fulltrúum stjórnar Leyningsáss ses. að koma á næsta fund bæjarráðs og ræða framtíðarfyrirkomulag svæðisins.

3.Endurnýjun á bifreiðum stjórnsýslu

Málsnúmer 2308051Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar um endurnýjun á bifreiðum stjórnsýslunnar.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar deildarstjóra fyrir minnisblaðið og samþykkir kaup á bifreiðum sbr. tillögur þess og felur honum að ganga frá kaupunum. Þá er deildarstjóra einnig falið útbúa viðauka og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs ásamt reglum um notkun á bifreiðum Fjallabyggðar.

4.Innviðagreining

Málsnúmer 2308062Vakta málsnúmer

Fjölmörg sveitarfélög hafa á síðustu árum ráðist í innviðagreiningar með það að markmiði að auðvelda einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum áhugasömum aðilum að taka ákvarðanir um fjárfestingar og uppbyggingu. Bæjarráð óskar eftir að sveitarfélagið Fjallabyggð ráðist í að greina stöðuna á innviðunum í samfélaginu með það að markmiði að auka fjárfestingu í sveitarfélaginu.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarstjóra falið að vinna málið áfram og kalla eftir tilboðum og verklýsingum vegna innviðagreiningar fyrir Fjallabyggð og leggja fyrir bæjarráð.

5.Styrkveitingar Fjallabyggðar 2024

Málsnúmer 2308029Vakta málsnúmer

Á 99. fundi markaðs- og menningarnefndar var málinu vísað til afgreiðslu í bæjarráði. Samhliða því er lögð til minni háttar breyting á reglum um úthlutun styrkja til menningartengdra verkefna, reksturs safna og setra og til hátíðarhalda. Í fyrsta lagi er lagt til að fyrsta málsgrein 5. gr. reglnanna skuli orðast svo: "Við mat á umsóknum til menningartengdra verkefna, hátíða og stærri viðburða skal horft til eftirfarandi þátta:"
Jafnframt er lagt til að orðið "menningarlíf" í fyrsta punkti 5. gr. verði breytt í "samfélagið".
Samþykkt
Bæjarráð vísar málinu til deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og felur henni að útfæra breytinguna. Bæjarráð samþykkir breytinguna að öðru leyti.

6.Búnaðarkaup á skíðasvæðið í Skarðsdal

Málsnúmer 2308054Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Barðsmanna ehf. um búnaðarkaup á skíðasvæðið í Skarðsdal í tilefni nýs upphafs við breyttar aðstæður.
Synjað
Bæjarráð þakkar Barðsmönnum ehf. fyrir erindið en getur ekki orðið við beiðninni. Bæjarráð beinir því til umsækjanda að ræða málið við umsjónaraðila svæðisins, sem er Leyningsáss ses.

7.Gamlar slökkvibifreiðar

Málsnúmer 2308057Vakta málsnúmer

Lagt er fram vinnuskjal slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar þar sem óskað er eftir heimild, í samráði við bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar, að leita leiða til þess að koma gömlum slökkvibifreiðum til varanlegrar geymslu á safni þar sem hægt er að koma sögu slökkviliðsins á framfæri.
Samþykkt
Bæjarráð veitir Slökkviliði Fjallabyggðar heimild til ráðstafa eldri bifreiðum slökkviliðsins í samræmi við tillögur sem koma fram í minnisblaðinu.

8.Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2023-2027

Málsnúmer 2308052Vakta málsnúmer

Lagt er fram til kynningar minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28.08.2022, um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2024-2027.
Lagt fram til kynningar
Lagt fram til kynningar.

9.Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar - 99

Málsnúmer 2308004FVakta málsnúmer

Fundargerð 99. fundar markaðs- og menningarnefndar lögð fram til kynningar.
Fundargerð 99. fundar markaðs- og menningarnefndar tekin fyrir. Fundargerðin er í fjórum liðum. liður 1 er til afgreiðslu.
  • 9.1 2304055 Safnasamningur
    Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar - 99 Markaðs- og menningarnefnd leggur áherslu á að Fjallabyggð geri samning við Myndhöfundasjóð Íslands. Með samningnum veitir Myndstef safninu leyfi til eintakagerðar og til að gera safnkost aðgengilegan með stafrænum hætti sbr. 12. gr.b. höfundalaga. Samningur þessi nær til verka í safnkosti safnsins eftir íslenska höfunda og erlenda. Nefndin vísar málinu til Bæjarstjórnar Fjallabyggðar. Bókun fundar Lagt fram til kynningar og vísað til bæjarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 09:28.