Úrkoma á Siglufirði 28. september 2021

Málsnúmer 2109085

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 711. fundur - 30.09.2021

Lagt fram vinnuskjal slökkviliðsstjóra dags. 29. september 2021 þar sem farið er yfir vinnu slökkviliðs vegna vatnselgs og vatnsleka á Siglufirði.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar slökkviliðisstjóra fyrir ítarlega skýrslu og óskar jafnframt eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar varðandi málið.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 712. fundur - 05.10.2021

Undir þessum lið sátu Tómas Atli Einarsson bæjarfulltrúi, Helga Helgadóttir bæjarfulltrúi, Guðrún Linda Rafnsdóttir bæjarfulltrúi og Helgi Jóhannsson bæjarfulltrúi. Einnig sátu undir þessum lið Ármann V. Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar, Jóhann K. Jóhansson slökkviliðsstjóri og Birgir Ingimarsson bæjarverkstjóri.
Farið var yfir stöðuna sem kom upp á Siglufirði þann 28. september sl..

Á þriðjudag 28. september hlýnaði snögglega eftir snjókomu fyrr um daginn og nóttina sem var til þess að snjó leysti í mikilli rigningu og tók vatn að safnast fyrir í bænum.
Slökkvilið Fjallabyggðar, starfsmenn þjónustumiðstöðvar og Björgunarsveitin Strákar unnu hörðum höndum að því að koma fólki til aðstoðar þar sem vatn flæddi inn í hús á nokkrum stöðum.
Tveir af þremur dælubrunnum sem sinna fráveitukerfi bæjarins höfðu undan vatnselgnum en flöskuháls myndaðist við þriðja brunninn þar sem yfirfallslögn hafði ekki undan. Staðbundið vandamál skapaðist því á einu svæði.

Á 711. fundi bæjarráðs þann 30. september sl. var óskað eftir umsögn frá deildarstjóra tæknideildar.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar dags. 4. október 2021 þar sem farið er yfir tillögur að úrbótum.





Bæjarráð vill koma kærum þökkum til allra þeirra viðbragðsaðila sem unnu að aðgerðum. Ljóst er að ef þeirra nyti ekki við hefði ástandið orðið mun verra. Einnig fá íbúar kærar þakkir fyrir dugnað og þolinmæði á meðan unnið var úr aðstæðum.

Bæjarráð óskar eftir að deildarstjóri tæknideildar komi með kostnaðarmat á úrbótum sem hægt er framkvæma strax og vísar frekari úrbótum til gerðar fjárhagsáætlunar 2022.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 714. fundur - 14.10.2021

Lagt er fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar dags. 11. október 2021 er varðar kostnaðarmat á úrbótum á fráveitu eftir úrkomu á Siglufirði þann 28. september sl. Úrbætur fela annarsvegar í sér að leggja þrýstilögn frá dælubrunni við Gránugötu út í smábátahöfn og hinsvegar endurnýjun brunns og lagnar við gatnamót Norðurtúns og Snorragötu, áætlaður kostnaður er 5,5 millj.kr.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar framlagt minnisblað og felur tæknideild að láta framkvæma þær úrbætur sem tilgreindar eru í minnisblaðinu.