Til upplýsinga vegna COVID-19

Málsnúmer 2003007

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 645. fundur - 24.03.2020

Bæjarstjóri og deildarstjórar fræðslu,- frístunda og menningarmála, félagsmála, stjórnsýslu- og fjármála og tæknideildar sátu undir þessum lið og fóru yfir stöðu mála vegna COVID-19 á sínum deildum.

Bæjarráð þakkar deildarstjórum yfirferðina.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 123. fundur - 08.04.2020

Deildarstjóri upplýsti nefndarmenn um áhrif Covid-19 á starfsemi félagsþjónustunnar og þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í þjónustu í kjölfar þess að neyðarástandi var lýst yfir þann 6. mars og samkomubanni þann 16. mars sl.. Til þess að vernda aldraða og viðkvæma hópa liggur Félagsstarf aldraðra niðri og starfsemi Iðju sömuleiðis. Starfsmenn hafa verið færðir í önnur verkefni og þess gætt að þeir sinni ekki fleiri en einni starfsstöð til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu smits þvert á þjónustueiningar. Félagsleg heimaþjónusta og önnur stoðþjónusta hefur verið skert en heimsending matarbakka er óbreytt. Þetta hefur verið gert til þess að vernda skjólstæðinga og starfsfólk og til að forgangsraða nauðsynlegri heimaþjónustu. Heimsóknarbann hefur verið í gildi á dvalarheimilinu Hornbrekku og á heimilinu að Lindargötu 2 frá 6. mars. Í Skálarhlíð, íbúðum aldraðra var lokað fyrir heimsóknir og utanaðkomandi umferð um húsið frá og með 6. apríl í samráði og með fullu samþykki allra íbúa hússins. Úthringingar standa yfir til eldri borgara, 70 ára og eldri sem búa heima til að athuga aðstæður þeirra og hvort þörf sé fyrir aðstoð. Allt kapp verður lagt á að halda úti nauðsynlegri þjónustu fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar í brýnni þörf.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 112. fundur - 22.04.2020

Fram er lagt erindi sent fyrir hönd Landhelgisgæslu og varðar uppfærslu á leiðbeiningum fyrir hafnir og skip vegna Covid-19

Stjórn Hornbrekku - 20. fundur - 24.04.2020

Frá 7. mars 2020 hafa allar heimsóknir verið bannaðar á Hornbrekku að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir. Þar sem íbúar Hornbrekku eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Auk þess voru gerðar breytingar á skipulagi hjá starfsfólki og innanhús.
Frá 4. maí 2020 verða gerðar tilslakanir á heimsóknarbanni og verða heimsóknir leyfðar inn á Hornbrekku með ákveðnum takmörkunum. Hjúkrunarforstjóri mun skipuleggja heimsóknir þannig að hver íbúi fái heimsókn einu sinni í viku frá nánasta ættingja 18 ára og eldri, og einungis verður einn ættingi í heimsókn á heimilinu á hverjum tíma. Búið er að senda ættingjum bréf varðandi tilslakanir á heimsóknarbanni 4. maí 2020 og nánari skipulag verður sent til þeirra um miðja næstu viku. Þar kemur fram heimsóknartími, hvernig þeir eiga að bera sig að í heimsókninni, sóttvarnir og mikilvægi þess að koma alls ekki í heimsókn ef viðkomandi er í sóttkví, einangrun eða eru slappir. Einnig eru ættingjar hvattir til að hlaða niður smitrakningarappi almannavarna fyrir heimsókn. Hafa þarf í huga að þó mikið hefur áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ítrustu varkárni.

Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020 en hafa verður í huga að ef smit vegna COVID-19 aukast aftur, eða smit vegna annarra smitsjúkdóma. Munu tilslakanir á heimsóknarbanni ganga til baka og reglur verða hertar á ný.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 649. fundur - 28.04.2020

Lagt fram til kynningar erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22.04.2020 þar sem fram koma alvarlegar afleiðingar Covid-19 á starfsemi hönnuða og arkitekta samkvæmt könnun sem Hönnunarmiðstöð Íslands framkvæmdi dagana 7.-14. apríl sl..