Snjóflóðavarnir Siglufirði, stoðvirki 4. áfangi.

Málsnúmer 1808044

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 568. fundur - 21.08.2018

Lögð fram drög að bréfi bæjarstjóra til stjórnar Ofanflóðasjóðs þar sem óskað er eftir því við stjórnina að haldið verið áfram með lokaframkvæmdir á stoðvirkjum á Siglufirði.

Bæjarráð samþykkir framlagt bréf og felur bæjarstjóra að senda bréfið á stjórn Ofanflóðasjóðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 574. fundur - 02.10.2018

Lagt fram svarbréf Ofanflóðanefndar dags. 24. september 2018 vegna erindis Fjallabyggðar dags. 17. ágúst 2018 þar sem óskað var eftir því við stjórn Ofanflóðasjóðs að lokið yrði 4. og síðasta áfanga stoðvirkja á Siglufirði á árinu 2020.

Í svarbréfi Ofanflóðanefndar kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi fjármálaáætlun standi til að ljúka sex framkvæmdaverkefnum fyrir árslok 2023 og að þremur þeirra ljúki í ár. Miðað er við að framkvæmdir hefjist við ofnaflóðavarnir undir Urðarbotnum í Neskaupstað á næsta ári og er áætlaður framkvæmdatími þrjú ár auk vinnu við frágang. Að óbreyttum fjárheimildum hefjast framkvæmdir við aðrar varnir ekki fyrr en á árinu 2021.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 577. fundur - 23.10.2018

Lögð fram drög að svarbréfi bæjarstjóra til Ofanflóðasjóðs þar sem bæjarráð fer fram á að Ofanflóðanefnd endurskoði ákvörðun sína, sem fram kom í bréfi nefndarinnar dags. 24.09.2018 þess efnis að framkvæmdir við 4. og síðasta áfanga snjóflóðavarna á Siglufirði eigi ekki að hefjast fyrr en 2021 og ljúki á árinu 2023.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að svari og felur bæjarstjóra að senda bréfið til Ofanflóðasjóðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 585. fundur - 11.12.2018

Lagt fram svarbréf Ofanflóðanefndar, dags. 27.11.2018 við erindi Fjallabyggðar dags. 17.10.2018 varðandi framhald framkvæmda við ofanflóðavarnir í Fjallabyggð. Í bréfinu kemur fram að Ofanflóðanefnd tekur undir mikilvægi þeirra ofanflóðavirkja sem fjallað er um í erindi Fjallabyggðar. Ofanflóðanefnd bendir á að nefndin er bundin fjárheimildum sem ákvarðaðar eru í fjárlögum hvers árs og að einungis verði unnt að hefja framkvæmdir við eitt verkefni á árinu 2019 verði fjárlagafrumvarp sem nú er í meðförum Alþingis að lögum. Þá kemur fram að ef fjárheimildir verða óbreyttar næstu árin samkvæmt fjármálaáætlun verði ekki unnt að hefjast handa við næsta verkefni fyrr en í fyrsta lagi tveimur árum síðar. Ákveðið hefur verið að næsta verkefni verði varnir undir Urðabotnum í Neskaupsstað.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að koma með tillögu að svari og leggja fyrir bæjarráð.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 586. fundur - 20.12.2018

Lögð fram drög að bréfi bæjarráðs til þingmanna kjördæmsins vegna svarbréfs Ofanflóðanefndar dags. 27. nóvember sl.

Bæjarráð samþykkir framlögð drög og felur bæjarstjóra að senda til þingmanna kjördæmsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 602. fundur - 30.04.2019

Lagt fram erindi Tómasar Jóhannessonar, snjóflóðasérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, dags. 24.04.2019 þar sem óskað er eftir því að bæjarstjóri Fjallabyggðar fyrir hönd sveitarfélagsins undirriti ásamt sérfræðingum Veðurstofunnar og fleirum áskorun til ríkisstjórnar Íslands vegna uppbyggingar ofanflóðavarna á landinu „Uppbygging ofanfóðavarna - betur má ef duga skal“.

Einnig lögð fram drög að Áskorun til ríkisstjórnar Íslands, dags.23.04.2019, ásamt bréfum sem bæjarráð Fjallabyggðar hefur sent stjórnvöldum.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að undirrita áskorunina fyrir hönd sveitarfélagsins.