Síldarævintýri 2016

Málsnúmer 1607037

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 456. fundur - 26.07.2016

Í tengslum við veitingu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra á tækifærisleyfi til hátíðarhalda á Síldarævintýrinu á Siglufirði 28 - 31. júlí n.k. er gerð krafa um að greiddar verði kr. 180 þúsund í löggæslukostnað.

Lögð fram samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 14. júlí, á svörum frá sveitarfélögum um löggæslukostnað á bæjarhátíðum.
Í því ljósi og einnig nefndaráliti samgöngunefndar Alþingis um sama mál, andmælir bæjarráð fyrirhugaðri gjaldtöku Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og samþykkir drög bæjarstjóra að bréfi til Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 457. fundur - 27.07.2016

Á 456. fundi bæjarráðs, 26. júlí 2016, andmælti bæjarráð fyrirhugaðri gjaldtöku Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vegna kröfu sem gerð var um að greiddar verði kr. 180 þúsund í löggæslukostnað.

Lögreglustjóri telur sig ekki geta gefið jákvæða umsögn til Sýslumanns á Norðurlandi eystra í ljósi afstöðu bæjarráðs og hefur hótað því að embættið muni stöðva framkvæmd hátíðarinnar.

Sýslumaður telur sig ekki geta gefið út tækifærisleyfi nema fyrir liggi jákvæð umsögn Lögreglustjórans.

Samkvæmt því er það Lögreglustjórinn sem í raun ákveður hvort gefið verður út tækifærisleyfi vegna Síldarævintýrisins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að rita Innanríkisráðherra bréf þar sem óskað er eftir að hann leysi ágreininginn.

Jafnframt skorar bæjarráð á löggjafavaldið að skýra og samræma lög og reglur varðandi bæjarhátíðir þar sem ekki er innheimtur aðgangseyrir.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 458. fundur - 29.07.2016

Lagt fram bréf Innanríkisráðuneytis, dagsett 28. júlí 2016, þar sem fram kemur að kvörtun Fjallabyggðar vegna umsagnar embættis lögreglustjóra Norðurlands eystra út af umsókn um tækifærisleyfi fyrir bæjarhátíðina "Síldarævintýrið á Siglufirði", 29. - 31. júlí, hafi verið framsend atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu til þóknarlegrar meðferðar.

Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um viðræður milli bæjaryfirvalda og lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra.

Bæjarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:

"Eftir viðræður bæjaryfirvalda við lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra hafa aðilar komið sér saman um eftirfarandi lausn á ágreiningi aðila um greiðslu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíðarinnar "Síldarævintýrið á Siglufirði 2016".

Fjallabyggð mun ekki greiða umræddan löggæslukostnað nema að æðra stjórnvald eða dómstólar ákveði að Fjallabyggð beri að greiða þennan kostnað. Fjallabyggð mun eðlilega hlýta þeim úrskurði.

Lögreglustjóraembættið mun í framhaldi af þessari ákvörðun bæjarráðs gefa út jákvæða umsögn til Sýslumannsembættisins varðandi tækifærisleyfi fyrir hátíðina.

Gott samstarf hefur ávallt verið á milli bæjaryfirvalda í Fjallabyggð og lögreglunnar á Norðurlandi eystra og verður það óbreytt, þrátt fyrir framangreindan ágreining."

Bæjarráð Fjallabyggðar - 462. fundur - 23.08.2016

Tekið fyrir svarbréf Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við erindi Fjallabyggðar vegna ágreinings um innheimtu löggæslukostnaðar á Síldarævintýrinu. Lítur ráðuneytið svo á að um stjórnsýslukæru sé að ræða og sveitarfélaginu gefinn kostur á að senda inn viðbótargögn ef þurfa þykir.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að senda ráðuneytinu þau gögn er þurfa þykir.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 465. fundur - 16.09.2016

Lagt fram til kynningar afrit af erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dagsett 1. september 2016, til Sýslumannsins á Norðurlandi eystra annars vegar og til Lögreglustjórans á Norðuralandi eystra hins vegar, vegna stjórnsýslukæru Fjallabyggðar vegna áforma um innheimtu löggæslukostnaðar á Síldarævintýrinu á Siglufirði 29. - 31. júlí 2016. Ráðuneytið óskar eftir því að gögn og upplýsingar er tengjast málinu og ekki hafa þegar komið fram, berist eigi síðar en 19. september nk.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 469. fundur - 11.10.2016

Lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dagsett 29. september 2016, er varðar innheimtu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíðarinnar Síldarævintýrið á Siglufirði.
Meðfylgjandi voru umsagnir Sýslumannsins á Norðurlandi eystra og Lögreglustjórans á Norðuralandi eystra vegna málsins.
Ráðuneytið gefur Fjallabyggð frest til 14. október 2016, til að veita andmæli við umsagnirnar áður en málið verður tekið til úrskurðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 470. fundur - 18.10.2016

Á 469. fundi bæjarráðs. 11. október 2016, var lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dagsett 29. september 2016, er varðar innheimtu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíðarinnar Síldarævintýrið á Siglufirði.
Meðfylgjandi voru umsagnir Sýslumannsins á Norðurlandi eystra og Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vegna málsins.
Ráðuneytið gaf Fjallabyggð frest til 14. október 2016, til að veita andmæli við umsagnirnar áður en málið yrði tekið til úrskurðar.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að svara erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Lagt fram svar bæjarstjóra til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dagsett 14. október 2016.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 497. fundur - 25.04.2017

Lagður fram úrskurður atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis vegna ágreinings um greiðslu á löggæslukostnaði að upphæð 180.000 vegna bæjarhátíðarinnar "Síldarævintýri á Siglufirði" sem lögreglustjóri á Norðurlandi eystra lagði á bæjarsjóð Fjallabyggðar.
Í úrskurði atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins er löggæslukostnaður felldur niður vegna skorts á skýrri lagaheimild til innheimtu löggæslukostnaðar.
Bæjarráð fagnar niðurstöðu ráðuneytisins.