Umsókn um leyfi fyrir svölum við Suðurgötu 47b Siglufirði

Málsnúmer 1504072

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 183. fundur - 06.05.2015

Hörður Rögnvaldsson sækir um leyfi til að reisa svalir við Suðurgötu 47b samkvæmt framlagðri teikningu.

Nefndin samþykkir að fyrirhuguð framkvæmd verði grenndarkynnt húseiganda að Suðurgötu 47a.
Vísað til staðfestingar í bæjarráði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 393. fundur - 21.05.2015

183. fundur skipulags- og umhverfisnefndar vísaði staðfestingu á grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda að Suðurgötu 47a til bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir erindið.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 185. fundur - 10.06.2015

Á 183.fundi skipulags- og umhverfisnefndar var tæknideild falið að grenndarkynna húseiganda að Suðurgötur 47a fyrirhugaðar svalir við Suðurgötu 47b skv. 1.mgr. 44.gr skipulagslaga.

Athugasemd barst f.h. Vilborgar Jónsdóttur Suðurgötu 47 þar sem framkvæmdinni er mótmælt m.t.t. nálægðar, skerðingar á útsýni og síðast en ekki síst ónæðis vegna notkunar á svölunum. Er m.a. bent á að húsið sé leigt út og því megi reikna með meira ónæði en í hefðbundinni íbúð. Þá telur athugasemdaaðili að svalirnar kunni að rýra verðmæti eignar hennar. Tekið er undir með athugasemdaaðila að vegna hinnar miklu nálægðar felist umtalsverð breyting í byggingu svala á umræddum stað. Um er að ræða töluvert stórar svalir þó yfirlýstur tilgangur með byggingu þeirra sé að tryggja flóttaleið og björgun við eldsvoða. Afgreiðslu málsins er frestað og umsækjanda gefinn kostur á að leita sátta við athugasemdaaðila um byggingu minni svala m.t.t. yfirlýsts tilgangs með byggingu þeirra. Er umsækjanda veittur frestur til 15.júlí nk. til þess. Berist ekki frekari gögn eða erindi frá umsækjanda innan þess tíma verður erindið á ný tekið fyrir og afgreitt á grundvelli fyrirliggjandi gagna og athugasemda.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 191. fundur - 08.10.2015

Þann 26.maí-23.júní 2015 var tillaga að svölum við Suðurgötu 47b Siglufirði, grenndarkynnt húseiganda við Suðurgötu 47a og athugasemdir teknar fyrir á 185.fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 10.júní sl. Athugasemdir voru gerðar við mikla nálægð við stofuglugga athugasemdaraðila og vegna stærðar svala. Afgreiðslu málsins var frestað og umsækjanda gefinn kostur á að leita sátta við athugasemdaaðila um byggingu minni svala m.t.t. yfirlýsts tilgangs með byggingu þeirra.

Þann 8.júlí s.l. átti deildarstjóri tæknideildar fund með athugasemdaraðila þar sem lögð var fram tillaga að breytingu á svölum Suðurgötu 47b þar sem búið er að færa þær þannig að þær standa 2.22m frá húsvegg á Suðurgötu 47a. Einnig er búið að minnka þær um 50 cm á dýpt. Athugasemdaraðili ætlaði að kynna sér málið betur og senda athugasemdir til skipulags- og umhverfisnefnar.

Lagðar fram athugasemdir frá Andra Árnasyni hrl. fyrir hönd íbúa við Suðurgötu 47a, dagsett 29.september 2015 þar sem byggingu svalanna er mótmælt og þess krafist að eigandi Suðurgötu 47b fjarlægi pall á neðri hæð hússins.

Nefndin telur að eftir framkomnar breytingar á staðsetningu og stærð svala sé komið til móts við athugasemdir eiganda Suðurgötu 47a og samþykkir byggingarleyfi fyrir svölum við Suðurgötu 47b. Varðandi athugasemdir við pall á neðri hæð þá er hann innan lóðar Suðurgötu 47b samkvæmd mæliblaði tæknideildar.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 194. fundur - 09.12.2015

Lagðar fram athugasemdir umsóknaraðila og eiganda að Suðurgötu 47a.

Afgreiðslu málsins er frestað þar til á næsta fundi nefndarinnar og umsóknaraðila gefinn kostur á að leita með mál sitt til kærunefndar húsamála og óska þar eftir álitsgerð um ágreiningsefni sitt, sbr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þ.e. hvort eignirnar teljast vera fjöleignarhús í skilningi laga um fjöleignarhús eða sem tvær sjálfstæðar eignir og ef svo er hvort þeim beri þá að fara engu að síður eftir ákvæðum laganna varðandi útlit hússins með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús.