Skipulag heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi

Málsnúmer 1301049

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 283. fundur - 15.01.2013

Vegna áforma Velferðarráðuneytisins um hugsanlegar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu við utanverðan Eyjafjörð, samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að taka upp viðræður við heilbrigðisráðherra um framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunnar við utanverðan Eyjafjörð, ásamt bæjarstjóra Dalvíkurbyggðar.

 

Bæjarráð Fjallabyggðar - 285. fundur - 05.02.2013

Bæjarstjóri fór yfir og kynnti drög að sameiginlegu bréfi Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar til heilbrigðisráðherra, í kjölfar fundar bæjarstjóranna með ráðherra 16. janúar s.l. um almenna heilbrigðisþjónusta við utanverðan Eyjafjörð.
Næsti fundur milli fulltrúa sveitarfélaganna er fyrirhugaður miðvikudaginn 6. febrúar kl. 10.

Sólrún Júlíusdóttir óskaði að eftirfarandi yrði bókað

varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana.
"Undirrituð harmar að minnihlutanum hafi verið haldið frá þessu máli, sem og í öðrum málum. Það var starfshópur myndaður fyrir ca. 2-3 árum, sem í voru fulltrúar starfsmanna HSF og fyrirtækja hér í bæ, sem fóru t.d. á fund allra þingmanna og lýstu áhyggjum af þróun heilbrigðismála í Fjallabyggð. Nauðsynlegt er áður en lengra er haldið að ná breiðri sátt um fyrirliggjandi tillögur".

Bæjarráð Fjallabyggðar - 286. fundur - 19.02.2013

Lagt fram minnisblað frá fundi bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar frá 06.02.2013 sem dreift var á síðasta fundi bæjarstjórnar. Um er að ræða tillögu að bréfi til Velferðarráðherra og fjallar um málefni aldraðra og framtíð heilbrigðisþjónustu við utanverðan Eyjafjörð.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að bréfi.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 310. fundur - 03.09.2013

Tekin var til umræðu staða og framtíð heilbrigðisþjónustu við utanverðan Eyjafjörð.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að fylgja eftir viðræðum frá liðnum vetri um stöðu heilbrigðis- og öldrunarmála við utanverðan Eyjafjörð við heilbrigðisráðherra.