Sól er tekin að skína yfir alla Fjallabyggð

Sól er tekin að skína yfir alla Fjallabyggð

Í dag, þriðjudaginn 28. janúar, fagna íbúar Siglufjarðar hinum langþráða sólardegi eftir 74 daga fjarveru. Sólin hverfur á bak við fjöllin í suðri 15. nóvember ár hvert og birtist ekki aftur fyrr en seint í janúar, en í Ólafsfirði lét hún fyrst sjá sig laugardaginn 25. janúar.

Í tilefni dagsins var víða boðið upp á pönnukökur og í hádeginu söfnuðust nemendur í 1.–5. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar saman á kirkjutröppunum á Siglufirði. Þar fögnuðu þau sólinni með söng, en sú hefð hefur skapast á undanförnum árum.

 

Tvö falleg ljóð tengjast þessum tímamótum. Ingólfur frá Prestsbakka samdi erindið „Sól er yfir Siglufirði“ en Guðný Róbertsdóttir samdi kvæðið „Sól er yfir Ólafsfirði“. Þórarinn Hannesson samdi lagið við þessa texta.

Sól er yfir Siglufirði
Sól er yfir Siglufirði,
sumarheið og skær.
Blálygn sundin, bjartur spegill
bliki á þau slær.
Fjöllin eins og varnarvirki
vaka nær og fjær.

Sól er yfir Ólafsfirði
Sól er yfir Ólafsfirði
öllum gleði ljær.
Blálygnt vatnið, bjartur spegill
bliki á það slær.
Inn með firði fjöllin vaka
fannhvít nær og fjær.

Sólarbirtan er ávallt kærkomin á þessum árstíma og minnir á að daginn sé farið að lengja og að vorið færist nær með hverjum degi.

Sól er yfir Siglufirði – Texti: Ingólfur frá Prestsbakka

Sól er yfir Ólafsfirði – Texti: Guðný Róbertsdóttir