Sól er yfir allri Fjallabyggð

Sól er yfir allri Fjallabyggð.

Í dag, þriðjudaginn 28. janúar, er hinn langþráði sólardagur á Siglufirði en laugardaginn 25. janúar var fyrsti langþráði sólardagur í Ólafsfirði.
Íbúar fagna því í dag að sólin er aftur farin að varpa geislum sínum yfir bæinn eftir 74 daga fjarveru, en sólin hverfur á bak við fjöllin í suðri 15. nóvember ár hvert.

Pönnukökur eru víða á borðum í tilefni dagsins og í hádeginu fjölmenntu nemendur yngri bekkja Grunnskóla Fjallabyggðar til að heilsa þeirri gulu með viðeigandi söng í kirkjutröppunum eins og þeir hafa gert um árabil.


Sól er yfir Siglufirði
sumarheið og skær,
blálygn sundin, bjartur spegill
bliki á þau slær.
Fjöllin eins og varnarvirki
vaka nær og fjær.
Fjöllin eins og varnarvirki
vaka nær og fjær
(Texti Ingólfur frá Prestbakka)

Sól er yfir Ólafsfirði
öllum gleði ljær
Blálygnt vatnið, bjartur spegill
bliki á það slær.
Inn með firði fjöllin vaka
fannhvít nær og fjær.
Inn með firði fjöllin vaka
fannhvít nær og fjær.
(Texti Guðný Róbertsdóttir)

Ingólfur á Prestsbakka samdi fyrra erindi ljóðsins um sólina yfir Siglufirði. Guðný Róbertsdóttir samdi hins vegar Ólafsfjarðarerindið. Þórarinn Hannesson samdi lagið.