Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þriðjudaginn 16. desember að útnefna Ástarpungana sem Bæjarlistamenn Fjallabyggðar 2026 og var sú útnefning staðfest á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar þann 17. desember.
Hljómsveitin hefur haldið fjölbreytta tónleika bæði fyrir börn og fullorðna og vakið verðskuldaða athygli og verið ötul við að gleðja íbúa og gesti með frábærum tónleikum og tónlistarviðburðum. Þeir hafa boðið bæjarbúum upp á jólatónleika sem hafa orðið ómissandi hluti af hátíðarundirbúningi í Fjallabyggð. Það má sérstaklega nefna tónleika þeirra um verslunarmannahelgina á Síldarævintýrinu 2025 þar sem þeir voru sannkallaður hápunktur sumarsins og sameinuðu fólk á öllum aldri í gleði og tónlistarupplifun.
Ástarpungarnir hafa með framlagi sínu eflt menningarlíf Fjallabyggðar, styrkt samfélagslega samkennd og verið einstakir fulltrúar þess krafts og hæfileika sem býr í okkar heimabyggð.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar þakkar fyrir þær tilnefningar sem bárust í ár og óskar Ástarpungunum innilega til hamingju með þessa heiðursnafnbót.
Ástarpungarnir verða formlega útnefndir við hátíðlega athöfn í upphafi árs 2026, þar sem jafnframt verða afhentir menningarstyrkir Fjallabyggðar fyrir sama ár. Frekari upplýsingar um athöfnina verða auglýstar þegar nær dregur.
Fjallabyggð þakkar Kristínu R. Trampe fráfarandi bæjarlistamanni fyrir framlag hennar til lista og menningar á árinu sem að líða.