Hákon prins og Mette Marit til Siglufjarðar

Hákon Noregsprins og eiginkona hans Mette Marit, sem ber nú barn þeirra undir belti, munu að öllum líkindum heimsækja Ísland í næsta sumar.Meðal þeirra viðburða sem ræddir hafa verið er möguleg heimsókn norður á Siglufjörð, í tilefni af 100 ára afmæli síldarsöltunar þar í bæ, en Norðmenn áttu stóran þátt í tilkomu síldarsöltunar á Siglufirði. Yrðu Hákon og Mette þá heiðursgestir síldarhátíðarinnar á Siglufirði, sem haldin er síðustu helgina í júlí. Vissrar óvissu gætir þó með það hvenær hjónin komast til Íslands og óljóst hvort heimsókn þeirra hitti á hátíðina þótt að því sé stefnt. Að sögn Örnólfs Thorssonar, skrifstofustjóra skrifstofu forseta Íslands, liggja nánari atriði, svo sem tímasetningar og dagskrá, enn ekki fyrir. Frétt af mbl.is