Fréttir af Síldarævintýri

Theodór Júlíusson sem tekið hefur við umsjón með Síldarævintýri segir að nú í sumar verði dagskráin með nokkuð hefðbundnu sniði og stefnt sé að því að heimamenn komi að hátíðinni eins mikið og mögulegt er. Þeir sem koma fram á hátíðinni eru: Hljómar “frægasta íslenska hljómsveit allra tíma”; Miðaldamenn með Sturlaug í fararbroddi; hljómsveitin Von frá Sauðárkróki;hljómsveitin Stormar spilar og einhverjir félagar úr Harmonikkusveitinni munu þenja nikkurnar.´Kappreiðar verða vonandi haldnar á nýjum velli hestamannafélagsins en þá munu góðhestar og knapar heimsækja Siglufjörð. Einnig er von til að Fílapenslar komi saman og skemmti eins og oft áður. Hlöðver Sigurðsson mun gleðja tónelska með því að syngja nokkur létt einsöngslög og aríur. Leikfélag Siglufjarðar mun sjá um barnadagskrá og sprell-leiktæki verða á staðnum. Síldarminjasafnið verður að sjálfsögðu opið og þar verður söltun með öllu því fjöri sem síldarstúlkurnar eru þekktar fyrir. Að vanda verður messað í Hvanneyrarskál og Gústa guðsmanns verður minnst.Einnig er fyrirhugað að hafa brennu og brennusöngva og aldrei að vita nema sprengjuglaðir björgunarsveitarmenn töfri viðstadda með flugeldasýningu. Gesti má minna á frábær tjaldstæði í hjarta bæjarins og inni í dal. Sundlaugin og verslanir verða opnar mun lengur en vant er.Enn á eftir að ræða við nokkra aðila um að koma fram og skemmta en stefnt er að því að hátíðin verði sem glæsilegust. Byggt á viðtali í Hellunni.