01.07.2003
Þjóðlagahátíðin á Siglufirði verður haldin í fjórða sinn sumarið 2003 frá 2.-6. júlí. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á söngdansa eða vikivaka sem nutu mikilla vinsælda á Íslandi. Hátíðin ber þess einnig merki að öld er liðin frá því Norðmenn lönduðu fyrstu síldinni á Siglufirði. Harðangursfiðluhljómsveit frá Bærum í Noregi mun setja sterkan svip á hátíðina auk fjölda annarra listamanna, innlendra og erlendra. Sænsk-íslenski flokkurinn Draupnir setur hátíðina með flutningi vikivaka í Siglufjarðarkirkju miðvikudaginn 2. júlí kl.20.00. Námskeið standa yfir 3.-5. júlí. Laugardagskvöldið 5. júlí verður uppskeruhátíð og sunnudaginn 6. júlí verða hátíðartónleikar í Siglufjarðarkirkju.Boðið verður upp á námskeið í búlgörskum þjóðlögum undir stjórn hins heimsfræga Chris Speed, rímum, dönskum þjóðdönsum og raddspuna. Þá verða námskeið í silfursmíði, refilsaumi, ullarþæfingu og sögu og umhverfi SiglufjarðarHátíðin er haldin með tilstyrk Siglufjarðarkaupstaðar, Menningarborgarsjóðs, Menntamálaráðuneytis og Menningarsjóðs KEA.
Lesa meira
30.06.2003
N.k. fimmtudag fer fram stórleikur á Siglufjarðarvelli í 2. deild karla í knattspyrnu þegar KS tekur á móti liði Tindastóls frá Sauðárkróki. Leikir þessara félaga hafa undanfarin ár verið hörkuleikir og um sannkallaðan grannaslag að ræða. KS sigraði Tindastól tvívegis á síðasta ári í deildarkeppninni en Tindastóll hafði hins vegar betur í bikarleik liðanna árið 2002. KS er nú 3-4. sæti 2. deildar með 13 stig en Tindastóll er í 8. sæti deildarinnar með 4 stig. Í síðasta leik vann KS 1-0 sigur á Selfossi en Tindastóll tapaði fyrir Víði 1-0.Örugglega verður um hörkuleik að ræða og eru allir sem möguleika hafa hvattir til þess að mæta og hvetja sína menn.
Lesa meira
27.06.2003
Theodór Júlíusson sem tekið hefur við umsjón með Síldarævintýri segir að nú í sumar verði dagskráin með nokkuð hefðbundnu sniði og stefnt sé að því að heimamenn komi að hátíðinni eins mikið og mögulegt er. Þeir sem koma fram á hátíðinni eru: Hljómar “frægasta íslenska hljómsveit allra tíma”; Miðaldamenn með Sturlaug í fararbroddi; hljómsveitin Von frá Sauðárkróki;hljómsveitin Stormar spilar og einhverjir félagar úr Harmonikkusveitinni munu þenja nikkurnar.´Kappreiðar verða vonandi haldnar á nýjum velli hestamannafélagsins en þá munu góðhestar og knapar heimsækja Siglufjörð. Einnig er von til að Fílapenslar komi saman og skemmti eins og oft áður. Hlöðver Sigurðsson mun gleðja tónelska með því að syngja nokkur létt einsöngslög og aríur. Leikfélag Siglufjarðar mun sjá um barnadagskrá og sprell-leiktæki verða á staðnum. Síldarminjasafnið verður að sjálfsögðu opið og þar verður söltun með öllu því fjöri sem síldarstúlkurnar eru þekktar fyrir. Að vanda verður messað í Hvanneyrarskál og Gústa guðsmanns verður minnst.Einnig er fyrirhugað að hafa brennu og brennusöngva og aldrei að vita nema sprengjuglaðir björgunarsveitarmenn töfri viðstadda með flugeldasýningu. Gesti má minna á frábær tjaldstæði í hjarta bæjarins og inni í dal. Sundlaugin og verslanir verða opnar mun lengur en vant er.Enn á eftir að ræða við nokkra aðila um að koma fram og skemmta en stefnt er að því að hátíðin verði sem glæsilegust. Byggt á viðtali í Hellunni.
Lesa meira
26.06.2003
Á morgun halda á milli 40-50 KS ingar til Borgarness til þess að taka þátt í Búnaðarbankamótinu sem þar er haldið. Keppendur eru í 3. flokki kvenna og 4., 5. og 6. flokki karla.Mótið er það fyrsta sem KS - ingar taka þátt í á þessu sumri en síðar í sumar verður farið á Gullmótið í Kópavogi, Nikulásarmót á Ólafsfirði, Strandamót og Króksmót auk þess sem allir kvennaflokkar taka þátt í Pæjumótinu á Siglufirði.Það er því nóg um að vera hjá yngri flokkunum í sumar og ánægjulegt að foreldrar fara í flestum tilfellum með börnum sínum á mótin og taka þar með virkan þátt.Af heimasíðu KS
Lesa meira
24.06.2003
Beitir NK-123 fékk fyrstu sumarloðnuna á Halamiðum síðastliðna nótt. Skipið er á landleið með með fullfermi, um 1150 tonn, og reiknað er með að landa á Siglufirði. Loðnan veiddist norðvestur af Vestfjörðum á svipuðum slóðum og veiðin byrjaði í fyrra. Hefja mátti loðnuveiðar á sumarvertíð 20. júní og þá var farið að svipast um eftir loðnunni austan við landið. Þar sást hún hinsvegar ekki og því var haldið á Halamið. Fá skip eru að veiðum en búast má við að þeim fjölgi þegar fréttir berast af aflabrögðum.Frétt af heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Lesa meira
13.06.2003
Eins og bæjarbúar hafa orðið varir við standa nú yfir miklar framkvæmdir við Gránugötu og Tjarnargötu. Verkið felst í jarðvegsskiptum, endurnýjun lagna, malbikun gatna og steypingu gangstétta. Einnig er í verkinu bygging mikils skolpdælubrunns sem staðsettur verður vestan Egilssíldar og lagning nýrrar útrásar til austurs norðan bensínstöðvarinnar. Þegar framkvæmdum lýkur verður hætt að veita skolpi í Smábátahöfnina.Gránugatan niður að höfn telst þjóðvegur í þéttbýli og því greiðir Vegagerðin hluta kostnaðar við framkvæmdina.Verktaki í verkinu er BÁS ehf. á Siglufirði og er samningsupphæð kr. 58.624.748,-.Verkið hefur gengið mjög vel, er á áætlun, og á að vera lokið eigi síðar en 15. okt. n.k. skv. útboðsgögnum.
Lesa meira
04.06.2003
Hestamannafélagið GLÆSIR hefur haldið tvö tölt mót í vetur það þriðja og seinasta í þessari mótaröð, var haldið sunnudaginn 1. júní.Það mót ber nafnið Stefánsmót í Tölti og er haldið til minningar um Stefán Stefánssonfrá Móskógum, sem var fyrsti formaður félagsins.Keppt er um stóran og veglegan bikar sem er farandgripur. Gefin af Skyldi og Brynju Stefánsbörnum til minningar um föður sinn.Mótið gekk í allastaði mjög vel, þátttakendur frá Glæsi voru 16 fullorðnir og börnin voru þrjú. Gestakeppendur voru þrír. Frá Barði í Fljótum kom Símon Gestsson,frá Langhúsum í Fljótum kom Arnþrúður Heimisdóttir og frá Finnlandi kom Nína Tauriainen. Þannig að fyrsta mótið um Stefánsbikarinn varð alþjóðlegt.Dómari á mótinu var Skjöldur Skjaldarson barnabarn Stefáns Stefánssonar.Skjöldur Stefánsson afhenti öll verðlaunin á mótinuGlæsis félagar eru ákaflega stoltir, ánægðir og þakklátir fyrir þá vináttu sem Brynja, Skjöldur og þeirra fólk sínir félaginu og starfi þess.
Lesa meira