16.07.2003
Mikið annríki hefur verið hjá starfsmönnum í fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar undanfarið en fjórar af fimm verksmiðjum fyrirtækisins hafa nú samtals tekið á móti tæplega 150 þúsund tonnum af loðnu, kolmunna og síld. Grænlenska loðnuskipið Siku er nýkomið til Raufarhafnar með fullfermi af loðnu, um 1.200 tonn og norskt loðnuskip landaði 600 tonnum á Raufarhöfn í gær. Súlan landaði 950 tonnum af loðnu á Siglufirði í gær úr sínum síðasta loðnutúr að þessu sinni. Fimm norsk loðnuskip eru ýmist komin eða væntanleg til Siglufjarðar með loðnu, samtals um 3.200 tonn. Töluverðu af kolmunna var landað á Seyðisfirði í gær en Huginn, Svanur, Ásgrímur Halldórsson og Bjarni Ólafsson lönduðu þar um 3.500 tonnum. Unnið er að hreinsun verksmiðjunnar í Neskaupstað og stöðvast vinnsla þar á meðan en reiknað er með að því ljúki í kvöld. Á Siglufirði er nú búið að taka á móti ríflega 25.000 tonnum af loðnu og á Raufarhöfn hefur verið tekið á móti tæpum 11.000 tonnum af loðnu. Á Seyðisfirði eru um 41.000 tonn af loðnu, kolmunna og síld komin á land og um 67.000 tonn eru komin á land í Neskaupstað; loðna, kolmunni og síld. Frétt af local.is