Ömurleiki ráðherra

Eins og fólk hefur orðið vart við á undanförnum dögum hefur verið tekin ákvörðun um það í ríkisstjórn að fresta framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng til ársins 2006. Ákvörðun þessi hefur vakið sterk viðbrögð á Eyjafjarðarsvæðinu, sérstaklega á Siglufirði og í Ólafsfirði og þykir fólki það illa svikið miðað við þær yfirlýsingar sem stjórnmálamenn gáfu stuttu fyrir kosningar. Eðlilegt er að þessi ákvörðun veki eins sterk viðbrögð og raun ber vitni þar sem hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum fullyrti hér á Siglufirði að búið væri að taka ákvörðun um framkvæmdir við göngin og fólk þyrfti í raun ekki að ræða það frekar, tímaáætlanir stæðust og búið væri að bjóða verkið út. Svo sannfærandi voru stjórnarþingmenn að þeir urðu nær því pirraðir þegar þeir voru spurðir út í málið, þetta átti allt að vera á hreinu og kjósendur þyrftu ekki sífellt að vera spyrja út í göngin.Skiptar skoðanir hafa verið um umrædda framkvæmd þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á arðsemi hennar og mikilvægi fyrir allt Eyjafjarðarsvæðið en framkvæmdin hefur m.a. verið talin forsenda aukinnar samvinnu og sameiningar sveitarfélaga við utanverðan Eyjafjörð. Það er hins vegar ekki framkvæmdin sem hér er til umræðu heldur málflutningur og smekkleysa ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ákvörðun um frestun framkvæmda kom eins og köld vatnsgusa framan í íbúa þessa svæðis enda búið að margítreka það í kosningabaráttunni að málið væri í höfn, a.m.k. ef stjórnarflokkarnir héldu völdum.Samgönguráðherra kemur fram með þau rök að framkvæmdum sé frestað vegna fyrirsjáanlegrar þenslu á næstu árum. Þessi rök eru afar slök því allar upplýsingar lágu fyrir löngu fyrir kosningar og lítið hefur breyst í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnum tveimur mánuðum. Þegar svo búið er að benda ráðherranum á þessa rökleysu þá kýs hann að grípa í enn fáranlegri rök með því að segja að slíkar ákvarðanir þurfi að endurskoða frá mánuði til mánaðar! Slíkur málflutningur er móðgun við kjósendur og ef ráðherra hefur ætlast til þess að einhver myndi trúa slíku er hann hreinlega að sýna fólkinu í landinu lítilsvirðingu. Fjármálaráðherra gengur þó enn lengra í vitleysunni og er málflutningurinn algerlega fráleitur frá varaformanni stærsta stjórnmálaflokks landsins og væntanlegum formanni þess flokks. Ráðherrann var minntur á fullyrðingar sínar á fundi á Siglufirði stuttu fyrir kosningar þess efnis að ekkert gæti komið í veg fyrir framkvæmdirnar nema ef Sjálfstæðisflokkurinn héldi ekki völdum. Hans fyrstu viðbrögð voru að segja að ef Samfylkingin hefði komist til valda þá hefðu framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng nær örugglega verið alveg slegnar af! Viðbrögðin dæma sig sjálf og skynsamur maður sem ráðherrann er sá það auðvitað strax að það væri ófært fyrir hann að afgreiða málið með þessum hætti. Það næsta sem fjármálaráðherra landsins dettur þá í hug að gera er aumkunarvert og honum til vansa á allan hátt. Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, kýs nefnilega að gera Siglfirðinga tortryggilega með því að fullyrða að hann hafi aldrei lofað göngum árið 2004 á fundinum á Siglufirði. Allir þeir sem staddir voru á fundinum, andstæðingar og samherjar ráðherrans í stjórnmálum, geta vitnað um og margir hafa þegar gert það, að umræðurnar um göngin á fundinum voru allar á þann veg að framkvæmdir hæfust árið 2004 og ekkert annað kom þar fram. Að einn af æðstu mönnum þjóðarinnar svíki kosningaloforð í svo mikilvægu máli er grafalvarlegt mál en að sparka svo í liggjandi mann með því að gera Siglfirðinga tortryggilega með þeim hætti sem maðurinn gerir er hreint út sagt ólíðandi og er ráðherranum vorkunn að telja sig knúinn til að leggjast svo lágt í stað þess að greina frá staðreyndum málsins.Viðbrögð fjármálaráðherra og samgönguráðherra við gagnrýni á ákvörðun um frestun eru þau aumkunarverðustu og ótrúverðugustu sem undirritaður hefur orðið vitni að hjá ráðamönnum þjóðarinnar í langan tíma og er þó af nokkru að taka í gegnum tíðina. Er ekki hægt að ætlast til annars en að ráðherrarnir svari fyrir mál sitt á skynsamlegri nótum og gefi Siglfirðingum og öðrum þeim sem bundu vonir við að kosningaloforð stæðu skýringar á þessum viðsnúningi á aðeins tveimur mánuðum. Skárri kostur væri þó að umræddir ráðherrar sæju sóma sinn í því að segja af sér vegna hreinna ósanninda í garð kjósenda og fólksins í landinu. Málið snýst einfaldlega um það að stjórnmálamenn kusu að fara með blekkingar og ósannindi fyrir kosningar til þess að ná í atkvæði og er það alvarlegt mál. Stjórnmálamenn sem haga sér með þessum hætti eru algerlega rúnir öllu trausti og er til marks um alvarleika málsins fyrir þá að uppi eru hugmyndir um að leggja niður jafnt Framsóknarfélögin og Sjálfstæðisfélögin á Siglufirði. Halda menn virkilega að svo væri komið ef félagsmenn viðkomandi félaga væru ekki sannfærðir um svik og ósannindi í sinn garð?Það er alveg sama hvað forsætisráðherra segir svo nú um að framkvæmdir hefjist á kjörtímabilinu, það trúir honum engin.Eftir Þóri Hákonarson