Iðja - dagvist fatlaðra

Iðja/dagvist í Fjallabyggð veitir fólki þjálfun, umönnun og afþreytingu og vinnu við létt verkefni sem vegna fötlunar sinnar þurfa sérhæfða og einstaklingsmiðaða þjónustu. Iðja/dagvist starfar eftir lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og notendur eru eldri en 18 ára. Með þjálfun og hæfingu er dregið úr áhrifum fötlunar og færni til þátttöku í daglegu lífi aukin.

Markmið Iðjunnar er að auka og/eða viðhalda færni og hæfni einstaklingsins, efla sjálfstraust, sjálfsvirðingu og sjálfsmynd hans. Í Iðju/dagvist njótum við augnabliksins, upplifum tilhlökkun, vellíðan og öryggi ásamt því að efla sköpunargleði okkar.

Iðja/dagvist á Siglufirði var opnuð 2. febrúar 2002 í húsnæði Sjálfsbjargar við Vetrarbraut, síðan lá leiðin í Norðurgötu 14, þaðan að Suðurgötu 2 og svo 1. apríl 2011 flutti Iðjan í stórt og gott húsnæði að Aðalgötu 7 Siglufirði. Stöðugildi Iðjunnar var í byrjun 50% en er nú þrjú 100 % stöðugildi. Frá byrjun hafa 16 einstaklingar nýtt sér iðjuna en nú eru 12 sem nýta sér þjónustuna. Vinnuverkefni hafa verið nokkur sem dæmi pökkun á tvisti fyrir Olís, verkefni fyrir clikkon á Sauðárkróki, pökkun á skrúfum fyrir Byko, við höfum líka aðstoðað einstaklinga við skúringar en þessi verkefni heyra sögunni til. Í dag erum við að pakka og bera út bæjarglaðið HELLUNA í Fjallabyggð, einnig berum við út sjónvarpsdagskrána í tvö hverfi. Einn einstaklingur er í atvinnu með stuðning í 30% starfi og annar vinnur 50% starf í póstinum með eftirfylgd frá iðjunni.

Í iðjunni er unnið handverk sem hefur verið selt hér á staðnum. Þar má nefna allskonar trévöru, gluggahlera, túlípana, dagatöl, jólatré í ýmsum gerðum, epli, stjörnur, kisur og fleira. Þæfðar töskur, grjónapunga, hárhandklæði, prjónavörur, kortagerð, jólamerkisspjöld og friðarkerti eru framleidd fyrir hver jól sem eru svo seld hér í Siglufirði.

Í afþreyingu eru hefðbundin verkefni svo sem spila, púsla, tölva, gönguferðir. Einnig er farið í sundleikfimi einu sinni í viku yfir vetrartímann. Elías Þorvalds hefur kennt okkur söng í nokkrar annir í gegnum farskólann, við höfum verið í matreiðslu og jólaföndri í sama skóla.

Hafa samband: Hér er unnið frá kl. 9:00-15:20 og eru allir velkomnir.  

Tengiliðir

Ólína Þ Guðjónsdóttir

Deildarstjóri