Ársreikningur Fjallabyggðar 2024

Málsnúmer 2504036

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 257. fundur - 22.04.2025

Með fundarboði fylgdi ársreikningur Fjallabyggðar fyrir árið 2024 ásamt sundurliðun. Á fund bæjarstjórnar kom Þorsteinn G.Þorsteinsson, endurskoðandi sveitarfélagsins frá KPMG og fór hann yfir helstu niðurstöður úr ársreikningi. Til máls tók settur bæjarstjóri, Þórir Hákonarson.
Samþykkt
Settur bæjarstjóri, Þórir Hákonarson, tók til máls.

Rekstrarniðurstaða jákvæð og litlar skuldir.
Samkvæmt framlögðum ársreikningi er rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B-hluta jákvæð um 63,9 millj. kr. sem er talsvert betra en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að upphæð 0,6 millj. kr.

Langtímaskuldir sveitarfélagsins við lánastofnanir nema 134,3 millj. kr. sem er með því lægsta sem gerist á landinu. Það þýðir um það bil 68 þús. krónur á hvern íbúa.

Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 148,7 millj. kr. en var um 81,7 millj. kr. árið 2023. Fjárfesting ársins nam 653,0 millj. kr. Handbært fé A- og B-hluta nam 239,9 millj. kr. í árslok og lækkar umtalsvert m.a. vegna framkvæmda á skíðasvæði í Skarðsdal og við vatnsveitu.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 4.918,5 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta 4.237,9 millj. kr.

Rekstur sveitarfélagsins var nokkuð stöðugur á árinu, líkt og undanfarin ár. Rekstur málaflokka var almennt innan fjárhagsáætlunar þrátt fyrir verðbólgu og aðra óvissuþætti.

Helstu frávik frá útgjöldum voru í málaflokknum umferðar- og samgöngumál eða um 20% og munar þar mestu um verulega gjaldaaukningu vegna snjómoksturs. Tekjur sveitarfélagsins voru nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en það má helst rekja til aukinna framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Til máls tóku S.Guðrún Hauksdóttir, Arnar Þór Stefánsson, Guðjón M. Ólafsson, Tómas Atli Einarsson og Helgi Jóhannsson.

Bæjarstjórn samþykkir framlagðan ársreikning 2024 með 7 atkvæðum og vísar honum til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 15. maí nk.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 258. fundur - 15.05.2025

Ársreikningur Fjallabyggðar fyrir árið 2024 lagður fram til seinni umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta annars vegar og hins vegar A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Eignasjóðs og Þjónustustöðvar. Í B-hluta eru Hafnarsjóður, Hornbrekka, Íbúðasjóður og Veitustofnun.

Til máls tóku Guðjón M Ólafsson, S.Guðrún Hauksdóttir, Tómas Atli Einarsson og Helgi Jóhannsson
Samþykkt
Bæjarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum eftirfarandi bókun vegna afgreiðslu ársreiknings 2024:

"Ljóst er að á síðasta rekstrarári varð umtalsverð framúrkeyrsla ákveðinna liða án þess að óskað hafi verið eftir viðauka hjá bæjarráði og/eða bæjarstjórn. Slík frávik kalla á viðbrögð og viðaukagerð í samræmi við ákvæði 62. gr. sveitarstjórnarlaga og í vinnureglum Fjallabyggðar. Bæjarstjórn Fjallabyggðar vill því ítreka að fjárhagsáætlun skal ávallt endurspegla raunverulegan rekstur og að viðaukar skuli lagðir fram áður en útgjöldum umfram samþykkta áætlun er ráðstafað.

Bæjarstjórn leggja áherslu á mikilvægi þess að rekstur sveitarfélagsins sé í samræmi við fjárhagsáætlun og að viðhöfð sé ábyrg og markviss fjármálastjórn. Slík stjórnsýsla er forsenda þess að hægt sé að tryggja jafnvægi í rekstri og veita íbúum góða þjónustu.

Bæjarstjórn felur því bæjarstjóra að skerpa á að verklag við viðaukagerð og innkaupaheimildir verði endurskoðað með það að markmiði að tryggja skýrari ábyrgð, reglubundna eftirfylgni og að viðbrögð við frávikum verði markviss og í samræmi við samþykktar reglur sveitarfélagsins og sveitarstjórnarlög."


Framlagður ársreikningur Fjallabyggðar 2024 borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með 7 atkvæðum og undirrita kjörnir fulltrúar ársreikninginn því til staðfestingar, ásamt ábyrgðar- og skuldbindingaryfirliti.