Reglur um félagslegar leiguíbúðir Fjallabyggðar -fyrirspurn

Málsnúmer 2105025

Vakta málsnúmer

Öldungaráð Fjallabyggðar - 5. fundur - 12.05.2021

Tekin fyrir fyrirspurn frá Konráði K. Baldvinssyni, fulltrúa öldungaráðs um úthlutunarreglur í Skálarhlíð og öðrum leiguíbúðum Fjallabyggðar.
Í svari deildarstjóra félagsmáladeildar kemur fram að um útleigu íbúða í Skálarhlíð sem og öðrum leiguíbúðum sveitarfélagsins gilda reglur um félagslegar leiguíbúðir Fjallabyggðar, sem samþykktar voru af bæjarstjórn þann 8. maí 2019. Reglurnar gilda um leigurétt og úthlutun á félagslegum íbúðum í eigu Fjallabyggðar, bæði almennum félagslegum leiguíbúðum og leiguíbúðum sem sérstaklega eru skilgreindar sem sértækt húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og sértækt húsnæði fyrir eldri borgara og öryrkja í Skálarhlíð. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu Fjallabyggðar.
Fram komu ábendingar um þörf á aukinni upplýsingagjöf til umsækjenda vegna úthlutunar íbúða í Skálarhlíð og þá verkferla sem unnið er eftir. Deildarstjóra félagsmáladeildar og bæjarstjóra var falið að fara yfir ábendingarnar og vinna úr þeim. Afurð þeirrar vinnu verður lögð fyrir næsta fund ráðsins.
Bæjarstjóri, Elías Pétursson, ræddi húsnæðismál eldri borgar í Fjallabyggð og spunnust fjörugar umræður um málið. Fundarmenn voru einróma sammála um að vöntun væri á heppilegu húsnæði fyrir þennan aldurshóp í Fjallabyggð.

Öldungaráð Fjallabyggðar - 6. fundur - 24.11.2021

Í framhaldi af bókun öldungaráðs frá síðasta fundi ráðsins, fór deildarstjóri félagsmáladeildar yfir þá vinnu sem unnin hefur verið hvað varðar reglur um félagslegar leiguíbúðir í Fjallabyggð og þær athugasemdir sem fram komu. Reglurnar eru til endurskoðunar í félagsmálanefnd með tilliti til þeirra athugasemda sem lagðar hafa verið fram og verða lagðar fram til kynningar í öldungaráði að lokinni yfirferð.