Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Málsnúmer 2012014

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 677. fundur - 08.12.2020

Lögð fram umsögn bæjarstjóra vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 49/1997 (markmið, áhættumat, sektir, eignarhald, ofl.).

Bæjarráð Fjallabyggðar þakkar framlagða umsögn og telur ekki koma til álita að samþykkja frumvarpið og gera það að lögum eins og það liggur fyrir á Alþingi. Í fyrsta lagi er það mat bæjarráðs að með samþykkt þess væri hætta á því að hagsmunum dreifbýlis, þ.m.t. skipulagðra skíðasvæða, verði ekki gætt sem skildi þegar kemur að almannavörnum sökum hættu á ofanflóðum. Í annan stað má leiða líkum að því að tug- ef ekki hundruð milljóna króna skuldbindingar verði færðar yfir á sveitarfélögin af ríkinu, með samþykkt þess. Í þriðja lagi er óljóst með öllu að þeir fjármunir sem ríkið innheimtir á hverju ári í formi skattgreiðslna vegna ofanflóðavarna gangi til verkefnisins eða að sveitarfélögum verði tryggður aðgangur að þeim í tengslum við yfirfærslu á eignarréttindum varnarvirkja frá ríki til sveitarfélaga. Þær skatttekjur eru áætlaðar u.þ.b. kr. 2,7 milljarðar á árinu 2021. Í fjórða lagi er með frumvarpinu ætlunin að gera breytingar á lögum og reglum um skipulagsvald sveitarfélaga, sem yrði að hluta til í sérstökum tilvikum fært yfir til Veðurstofunnar, án þess að þessi breyting á skipulagi sveitarfélaga hafi verið rædd við sveitarfélögin eða þeim kynnt hvernig þessi breyting yrði framkvæmd. Að öðru leyti vísast til framlagðrar umsagnar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umsögnina á nefndasvið Alþingis sem og að koma henni á framfæri við aðra þá er málið snertir.