Ósk um umsögn er varða mögulegt fiskeldi í Eyjafirði

Málsnúmer 2006022

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 656. fundur - 16.06.2020

Lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis dags. 09.06.2020, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins á því hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin verður frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna umbeðna umsögn og leggja fyrir bæjarráð.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 657. fundur - 23.06.2020

Á 656. fundi bæjarráðs óskaði Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, með erindi dags. 09.06.2020, eftir umsögn sveitarfélagsins á því hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin yrði frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.
Lögð fram umsögn bæjarráðs til Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þar sem því er hafnað að nokkrar ákvarðanir verði teknar af ráðherra um takmarkanir eða bann við fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin verður frá Siglunesi að Bjarnarfjalli, nema að undangengnum vísindalegum rannsóknum. Telur bæjarráð að stórar ákvarðanir um málefni sem getur varðað framtíðarhagsmuni og þróun samfélags í Fjallabyggð til langrar framtíðar megi ekki taka nema til þeirra sé vandað og upplýsingar úr niðurstöðum rannsókna leiki þar lykilhlutverk. Ákvörðun ráðherra um mögulegt fiskeldi í Eyjafirði til framtíðar getur ekki byggst á óljósum kennisetningum eða trúarbrögðum. Af þeim sökum er ekki tímabært, að mati bæjarráðs, að veita Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra endanlega umsögn um það hvort banna eigi fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði. Þá er ráðherra ennfremur eindregið hvattur til þess að ljúka við og birta án tafar allar niðurstöður rannsókna um burðarþol og áhættumat sem unnar hafa verið í firðinum varðandi mögulegt eldi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda framlagða umsögn á Landbúnaðar-, og sjávarútvegsráðherra, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, þingmenn kjördæmis, þingflokksformenn og bæjar- og sveitarstjóra sveitarfélaga við Eyjafjörð.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 677. fundur - 08.12.2020

Lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 02.12.2020 þar sem fram kemur að Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskaði 9. júní sl. eftir umsögnum þriggja stofnana og viðkomandi sveitarfélaga um hvort rétt sé að lýst verði yfir banni við eldi laxfiska af eldisstofni í sjókvíum í Eyjafirði.

Nú óskar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir fjarfundi með fulltrúum stofnana og sveitarfélaga á svæðinu til að fylgja þeim eftir og ræða næstu skref. Fyrirhugað er að fundurinn fari fram í fjarfundi fimmtudaginn 10. desember nk. kl. 9:00 (Eyjafjörður).
Óskað er eftir staðfestingu á þátttöku í fundinum, hlekkur á fundinn verður sendur síðar.

Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri sæki fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 692. fundur - 20.04.2021

Lagt fram
Lagt fram til kynningar erindi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 14.04.2021 þar sem tilkynnt er að ekki verður unnið áfram að því að undirbúa ákvörðun að breytingu á auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er lýst óheimilt á tilteknum svæðum í ljósi þess að á árinu 2020 var hafin vinna við setningu strandsvæðaskipulags samkvæmt lögum um skipulag haf og stranda þar sem m.a. tekin er afstaða til ólíkrar nýtingar, verndar og til þess hvernig ólík nýting spilar saman s.s. varðandi orkuvinnslu, mannvirkjagerð, fiskeldi, vernd, samgöngur, útivist og ferðaþjónustu. Sú vinna sem farið hefur fram mun gagnast í vinnu fulltrúa ráðaneytis og sveitarfélaga á vettvangi svæðisráðs fyrir strandsvæðaskipulag um Eyjafjörð þegar það verður kallað saman.